Fimmkallarnir (1999-2001)

Fimmkallarnir

Harmonikkukvintettinn Fimmkallarnir störfuðu innan Tónlistarskólans í Skagafirði á árunum 1999 til 2001, jafnvel lengur, kvintettinn var skipaður ungum drengjum sem voru frá Hofsósi og nágrenni.

Fyrst kveður að Fimmköllunum á fjölskyldumóti Félags harmonikkuunnenda í Skagafirði sumarið 1999 og voru meðlimir sveitarinnar þá Brynjar Helgi Magnússon, Júlíus Helgi Bjarnason, Friðrik Pálmi Pálmason, Þorvaldur Ingi Guðjónsson og Jón Þorsteinn Reynisson, allt ungir og efnilegir harmonikkuleikarar.

Næstu tvö árin að minnsta kosti léku þeir félagar við ýmis tækifæri á heimaslóðum og víðar um Norðurland, m.a. á Sæluviku Sauðkræklinga en einhverjar breytingar urðu þó á hópnum, Gísli Björn Reynisson hafði m.a. leyst Júlíus Helga af.