Hljóðaklettur [hljóðver / útgáfufyrirtæki] (1986-90)

Auglýsing frá Hljóðakletti

Hljóðverið Hljóðaklettur starfaði um nokkurra ára skeið á síðari hluta níunda áratugar liðinnar aldar en einnig komu út plötur á vegum fyrirtækisins.

Magnús Guðmundsson, oft kenndur við hljómsveitina Þey var eigandi Hljóðakletts en hann hafði áður verið einn eigenda stúdíó Mjatar sem þá hafði lagt upp laupana þegar fyrirtækið var stofnað árið 1986. Ekki liggur fyrir hvort hann var einn á ferð með Hljóðaklett eða í félagi við aðra, þannig virðist einhver Valgeir [?] hafa verið viðloðandi hljóðverið. Bróðir Magnúsar, Guðjón Guðmundsson starfaði í Hljóðakletti en ekki eru heimildir um fleiri fasta starfsmenn þar.

Hljóðaklettur var fyrst í stað staðsett við Klapparstíg 28 í miðborginni en flutti sig svo um set um fáeinar húslengdir og var til húsa að Laugavegi 29b. Fyrirtækið var fyrst í stað almennt hljóðver fyrir tónlistarfólk og þar tóku hljómsveitir og tónlistarfólk upp efni sitt, s.s. Ofris, E-X, Lost, Laglausir, Gaui (bróðir Magnúsar) og Orgill en síðan sérhæfði fyrirtækið sig í gerð auglýsinga og hljóðsetningu fyrir sjónvarp. Einnig bauð Hljóðaklettur upp á námskeið fyrir byrjendur og lengra komna í upptökufræðum og hljóðvinnslu.

Hljóðverið fór einnig út í plötuútgáfu og hér er sérstaklega nefnd jólaplatan Hvít er borg og bær sem gefin var út í tilefni af sextugs afmælis Ingibjargar Þorbergs og inniheldur m.a. klassískar útgáfur Bjarka af Jólakettinum, Megasar af Grýlukvæði og Hljómeykis af laginu Hin fyrstu jól, platan seldist þó aldrei eins og vænst var.

Hljóðaklettur starfaði líklega til ársins 1990 hið minnsta, hugsanlegt er að fyrirtækið hafi verið starfandi í einhverri mynd allt til 1996.