Guðjón Guðmundsson [3] (1963-)

Guðjón Guðmundsson

Tónlistarmaðurinn Guðjón Guðmundsson var töluvert áberandi um miðbik níunda áratug síðustu aldar en hann sendi þá frá sér sólóplötu.

Guðjón Gísli Guðmundsson fæddist í Reykjavík 1963 og er yngri bróðir Magnúsar Guðmundssonar söngvara Þeys sem hafði verið áberandi í nýbylgjunsenunni upp úr 1980. Guðjón var á menntaskólaárum sínum farinn að koma fram einn með gítar en hann var á þeim árum farinn að semja lög og ljóð, reyndar átti hann þátt í að stofna félagsskap sem bar heitið Besti vinur ljóðsins.

Árið 1985 sigraði Guðjón söngvakeppni sem haldin var í skemmtistaðnum Hollywood en meðal verðlauna þar voru hljóðverstímar. Ekki liggur fyrir hvort hann notaði þá tíma en hann hélt áfram að koma fram á opinberum vettvangi, m.a. í þætti Jón Gústafssonar í Sjónvarpinu 1986 og söng þá einnig inn á plötu Ingva Þórs Kormákssonar – Borgarinn, Guðjón hafði þá ennfremur starfað með hljómsveitinni Íslandssjokkinu á árunum 1982-84.

Í upphafi árs 1987 gekk hann á fund útgáfufyrirtækisins Skífunnar og kynnti þeim frumsamið efni eftir sig, Skífumönnum leist vel á efnið og féllust á að gefa plötu út með Guðjóni sem var hljóðrituð í Hljóðakletti af Tómasi M. Tómassyni og Ásgeiri Jónssyni. Platan kom út á vinylplötu-, geisladisks- og kassettuformi um haustið undir titlinum Gaui, seldist þokkalega og fékk þokkalega dóma í Þjóðviljanum og Tímanum. Tónlistin var eins konar þjóðlagapopp og þótti Gaui vera nokkuð undir áhrifum frá Peter Gabriel og David Sylvian (Japan) svo einhverjir áhrifavaldar séu nefndir. Hann fylgdi plötuútgáfunni nokkuð eftir með spilamennsku, og fékk m.a. hljómsveitina Centaur til samstarfs við sig, sem þá gekk undir nafninu Gíslarnir af því tilefni.

Guðjón var byrjaður að vinna að efni sem átti að fara á nýja plötu en lengra virðist sú vinna ekki hafa komist. Hann hefur lítið fengist við tónlist eftir þetta af því er virðist, nam tölvunarfræði og síðar sagnfræði, rak um tíma fyrirtækið Frjálsa miðlun og hefur einnig starfað og búið erlendis.

Efni á plötum