Guðjón Guðmundsson [1] (1954-)

Guðjón Guðmundsson – Gaupi

Guðjón Guðmundsson (fæddur 1954), einnig þekktur sem Gaupi er þekktur íþróttafréttamaður og hefur haft þann starfa til fjölda ára, áður var hann einnig þekktur sem liðsstjóri og aðstoðarmaður Bogdans Kowalczyk hjá Víkingi og landsliði Íslands í handknattleik. Sjálfur lék Guðjón, sem er reyndar trésmiður að mennt, handknattleik með Víkingi en hætti þegar hann var kominn upp í meistaraflokk.

Á unglingsárum sínum og reyndar fram á fullorðins ár sín átti Guðjón sér söngvara- og hljómsveitaferil en hann söng með nokkrum hljómsveitum, einkum á fyrri hluta áttunda áratugarins. Þeirra á meðal eru hljómsveitirnar Jeremías (1970-72), Námsfúsa Fjóla (1972-75) og Ernir (um miðjan áratuginn) en einnig kom hann lítillega við sögu hljómsveitarinnar Tívolí. Þótt Guðjón hafi fyrir löngu lagt sönginn á hilluna kemur fyrir að hann taki lagið á góðum stundum, hann hefur t.d. komið fram með Valsbandinu.