Guðjón Matthíasson (1919-2003)

Guðjón Matthíasson

Tónlistarmaðurinn Guðjón Matthíasson er stærra nafn í íslenskri tónlistarsögu en margir gera sér grein fyrir, á þriðja hundrað laga hans hafa komið út á plötum auk fjölmargra texta en auk þess er hann sá harmonikkuleikari hérlendis sem sent hefur frá sér flestar plötur, ýmist sem sólóhljóðfæraleikari og með hljómsveitum sínum.

Guðjón Matthíasson fæddist á Einarslóni á Snæfellsnesi árið 1919 og þar bjó hann fyrstu æviár sín, hann fluttist með fjölskyldu sinni eitthvað innan sveitarinnar undir Jökli en það var svo árið 1940 sem hann fór til Reykjavíkur, rúmlega tvítugur en þá var næga atvinnu að hafa hjá hernámsliði Breta á höfuðborgarsvæðinu.

Hann sagði frá því í blaðaviðtali að hann hefði verið orðinn tíu ára gamall þegar hann heyrði í fyrsta sinn í hljóðfæri, það var harmonium-orgel og heillaðist hann þá þegar af tónlistinni og einsetti sér að verða annað hvort tónlistarmaður eða bóndi, hið fyrrnefnda varð ofan á þótt hann starfaði reyndar lengst af hjá Rafmagnsveitunum og Reykjavíkur-borg á fullorðins árum sínum.

Guðjón eignaðist sitt fyrsta hljóðfæri líklega árið 1946, hann seldi þá tuttugu kindur sem hann átti og keypti notaða harmonikku fyrir andvirðið, hann varð því farinn að nálgast þrítugt þegar tónlistarferill hans hófst. Í kringum 1950 hóf hann að læra á hljóðfærið og var hann fyrst einn vetur í námi hjá Gretti Björnssyni en þegar Grettir flutti til Kanada 1951 færði Guðjón sig yfir til Karls Jónatanssonar og lærði annan vetur hjá honum. Þegar Guðjón fór að semja tónlist sjálfur um þetta leyti áttaði hann sig fljótlega á því að hann yrði að geta skrifað nótur og því lærði hann einnig tónfræði.

Fyrst um sinn spilaði Guðjón einn síns liðs og hóf að koma þannig fram á dansleikjum, en fljótlega fór hann einnig að leika með Haraldi Magnússyni sem einnig lék á harmonikku. Í kjölfarið byrjaði hann líka að spila með smærri hljómsveitum um lengri og skemmri tíma. Meðal sveita má nefna Hljómsveit Óskars Cortes en svo stofnaði Guðjón eigin sveit og upp frá því var hann yfirleitt með eigin sveitir, misstórar eftir tilefninu og tíðarandanum næstu áratugina. Guðjón þótti ennfremur liðtækur söngvari og var einn fjölmargra nýrra „ungra og efnilegra“ dægurlagasöngvara sem komu fram á sjónarsviðið um miðjan sjötta áratuginn en hann var þá kominn sjálfur vel á fertugs aldurinn, tengt því kom hann fram sem söngvari með fjölmörgum hljómsveitum um það leyti, hljómsveitum Svavars Gests, Jose Riba og Jan Morávek, Neo-tríóinu o.fl. Þá kom hann einnig fram í kabarettsýningum sem söngvari og harmonikkuleikari.

Guðjón með nikkuna

Guðjón var jafnframt samhliða þessu farinn að semja tónlist af miklum mætti og kom fram sem afkastamikill laga- og reyndar einnig textahöfundur. Árið 1955 hlaut hann sína fyrstu viðurkenningu fyrir lagasmíð, það var fyrir lagið Njóttu vorsins í sönglagakeppni SKT en slíkar keppnir nutu mikilla vinsælda á þessum tíma, ári síðar vann hann sín fyrstu verðlaun í sams konar keppni, fyrir lagið Sonarkveðju í flokki gömlu dansanna.

Lagið Sonarkveðja var einmitt fyrsta lagið eftir Guðjón Matthíasson sem rataði inn á hljómplötu en hún kom út árið 1962 og innihélt fimm lög sem sonur hans, Sverrir Guðjónsson söng en hann var einungis tólf ára gamall og var reyndar orðinn reynslumikill á því sviði því hann hafði komið fram opinberlega í fjölmörg skipti með föður sínum. Sonarkveðja átti síðan eftir að koma út með annarri barnastjörnu mörgum árum síðar þegar Ruth Reginalds söng lagið á fyrstu plötu sinni Simmsalabimm (1976) undir titlinum Kveðja en Guðjón lék einmitt á harmonikku í því lagi.

Árið 1963 kom út önnur plata með Sverri, hún var fimm laga og samdi Guðjón fjögur þeirra og var þar með kominn rækilega inn á kortið. 1966 hlaut lag hans, Dönsum og syngjum saman, þriðju verðlaun í danslagakeppni Ríkisútvarpsins og það lag kom síðan út á plötu tengdri keppninni sungið af Sigurði Ólafssyni. Ári síðar (1967) kom síðan út enn ein platan með Sverri Guðjónssyni, þar var Guðjón í stóru hlutverki eins og titill plötunnar gefur til kynna – Sverrir Guðjónsson syngur 6 íslenzk danslög eftir Guðjón Matthíasson, og ekki nóg með það heldur var útgefandi plötunnar GM-tónar, nýstofnað útgáfufyrirtæki Guðjóns. Og Guðjón var bara rétt að byrja, 1968 kom út fimm laga plata með hljómsveit Guðjóns og með Sverri í sönghlutverkinu. Öll lög plötunnar og flestir textar hennar voru samin af honum og var hann jafnframt útgefandinn eins og á næstu plötu sem kom út 1969, sú bar titilinn Guðjón Matthíasson syngur og leikur ásamt félögum sínum og voru öll lögin sem fyrr eftir hann, það var í fyrsta sinn sem hann söng sjálfur inn á plötu.

Næstu árin var Guðjón Matthíasson öflugur hvar sem litið var, á útgáfusviðinu, með hljómsveit sinni og sem laga- og textahöfundur. 1970 kom út fimm laga plata með söngvurunum Sverri Guðjónssyni og Hauki Þórðarsyni frá Keflavík þar sem hljómsveit Guðjóns leik undir og samdi Guðjón sem fyrr meirihluta laganna, og 1971 léku þeir Guðjón og Garðar Olgeirsson harmonikkuleikari inn á sex laga plötu þar sem gömlu dansarnir voru í aðal hlutverki, sú tegund tónlistar var einmitt sú sem hljómsveit Guðjóns lék á dansleikjum.

Guðjón um miðjan áttunda áratuginn

Frá og með næstu plötu kvað við nokkuð annan tón í bili en það voru þrjár smáskífur með alls fimmtán lögum þar sem Guðjón lék ásamt Harry Jóhannessyni á harmonikku með aðstoð hljómsveitar, þetta voru allt gömlu dansa-lög langflest eftir Guðjón og báru tvær þeirra titilinn Nikkar hljómar: Guðjón Matthíasson og Harry Jóhannesson leika harmonikkulög en sú þriðja Guðjón Matthíasson og Harry Jóhannesson leika gömlu dansana.

Samhliða þessari plötuútgáfu rak Guðjón hljómsveit sína sem spilaði víða en einkum þó á dansstöðum á höfuðborgarsvæðinu, hann kom einnig eitthvað fram með hljómsveitinni Kátum félögum í kringum 1970 auk þess sem hann kom stundum fram einn með nikkuna, þá fékkst hann við harmonikkukennslu mest alla ævi. Guðjón sagði eitt sinn frá því í viðtali að hann hefði verið að spila á þorrablóti í þorpi á Suðurlandi, og hafði gert það um árabil, en presturinn á staðnum hefði alltaf verið fyllstur allra á blótunum. Þegar presturinn skreið eftir gólfum samkomuhússins spurði Guðjón hann hvort honum þætti þetta sæma embætti hans – klerkurinn svaraði þá að hann hefði skilið prestinn eftir heima. Sjálfur var Guðjón bindindismaður.

Um þetta leyti (í kringum 1970) höfðu um fjörutíu lög eftir Guðjón komið út á plötum og litlu færri textar, og var það klárlega um einhvers konar met hérlendis, að minnsta kosti hvað harmonikkuleikara áhrærði. Og sá lagafjöldi átti auðvitað bara eftir að aukast, árið 1973 kom út fyrsta breiðskífan úr ranni Guðjóns, þar var á ferð hljómsveit hans ásamt söngvaranum Friðbirni G. Jónssyni og bar platan titilinn Þar átti ég heima, og var gefin út af GM-tónum. Guðjón samdi öll tólf lög plötunnar og nokkra texta einnig.

Þar með var smáskífu útgáfu Guðjóns og félaga lokið en þaðan í frá komu einvörðungu út breiðskífur frá honum. ÁÁ records Ámunda Ámundasonar gáfu út næstu tvær plötur Guðjóns og hljómsveitar hans, sú fyrri kom út 1977 undir titlinum Líf og fjör á sjöttu hæð en sú síðari ári síðar og hét hún Gamalt og nýtt. Á þessum tveimur plötum söng Guðjón sjálfur, þær voru báðar hljóðritaðar í Hljóðrita í Hafnarfirði og sjálfur samdi hann hluta laganna sem að þessu sinni komu úr ýmsum áttum. Söngkonan Guðrún Hulda [?] kom nokkuð við sögu á síðarnefndu plötunni. Þess má geta að Guðjón var einn af stofnendum Félags harmonikuunnenda sem sett var á laggirnar 1977.

Guðjón Matthíasson 1995

Nokkur bið varð á að næsta plata kæmi út en það var árið 1986, sú plata hafði verið hljóðrituð tveim árum áður en kom fyrst út á þessum tímapunkti, titill hennar var Kveðja til átthaganna: harmonikuplata með Guðjóni Matthíassyni og Þorleifi Finnssyni, sá síðarnefndi var einnig harmonikkuleikari. Þetta sama ár, 1986 átti hann tvö lög í úrslitum dægurlagasamkeppni Hótel Borgar sem haldin var til að minnast þeirra keppna sem SKT hafði staðið fyrir áratugum fyrr. Plata var gefin út með úrslitalögunum en alls hafði Guðjón sent níu lög í keppnina.

Heldur var farið að hægjast á Guðjóni eftir 1990 enda var hann þá kominn yfir sjötugt, það var þó ekki alveg svo að hann hætti strax og enn starfrækti hann hljómsveit sína, árið 1991 kom út sextán laga platan (og kassettan) Tíminn líður með hljómsveit Guðjóns en þar komu við sögu auk framangreindra söngkonan Kristrún Sigurðardóttir og harmonikkuleikarinn Grétar Geirsson. Þremur árum síðar (1994) kom út kassetta með átján lögum eftir Guðjón og var þar líklega um spilaða tónlist eingöngu að ræða þar, sú kassetta gæti hafa borið titilinn 90 mínútur. Reyndar mun Guðjón hafa sent frá sér fleiri ámóta kassettuútgáfur en því miður eru heimildir um þær af skornum skammti.

Það var svo árið 1995 sem safnplatan Kveðja til átthaganna: 19 bestu lög Guðjóns Matthíassonar harmóníkuleikara kom út, útgefin af Skífunni. Það var síðasta plata Guðjóns sem kom út meðan hann lifði en hann lést árið 2003 eftir nokkur veikindi. Sigurjón Samúelsson frá Hrafnabjörgum í Ísafjarðardjúpi yfirfærði plöturnar Kveðja til átthaganna og Líf og fjör á sjöttu hæði á stafrænt form í upphafi nýrrar aldar, og gaf út í takmörkuðu geislaplötu upplagi en litlar upplýsingar finnast um þær útgáfur.

Af ofangreindri umsögn má hæglega ráða að Guðjón Matthíasson sé afkastamesti harmonikkuleikari íslenskrar tónlistarsögu, hvað varðar útgefnar plötur hans sem sólóista og hljómsveitar hans bæði á smáskífum og breiðskífum, þá var hann jafnframt öflugur plötuútgefandi en á annan tug platna komu út á hans vegum. Mörg laga hans náðu útbreiðslu og vinsældum m.a. í óskalagaþáttum útvarpsins og reyndar lék Guðjón oftsinnis í útvarpinu og sjónvarpinu einnig, meðal þekktustu laga hans má nefna Ólgandi haf, Til æskustöðvanna, Sonarkveðja o.fl. Aðrir tónlistarmenn hafa einnig flutt lög eftir Guðjón, þeirra má meðal eru hér nefnd Sigurður Ólafsson, Vagnsbörnin að vestan og Guðni S. Guðnason, sá síðast taldi á safnplötunni Harmoníkutónar.

Útgefin lög Guðjóns Matthíassonar munu vera á annað hundrað talsins en einnig samdi hann fjölda texta sem fyrr er greint, tvö nótnahefti komu jafnframt út með lögum hans, hið fyrra 1975 og annað 1982.

Efni á plötum