Guðjón Weihe (1945-2022)

Guðjón Weihe

Nafn Guðjóns Weihe (f. 1945) er vel þekkt í Vestmannaeyjum og margir utan Eyjanna þekkja hann ágætlega fyrir framlag sitt til þjóðhátíðarlaganna en hann hefur samið allmarga texta við þau.

Guðjón Weihe var kominn á fertugs aldur þegar hann kom út úr skápnum, eins og hann hefur orðað það sjálfur, sem texta- og ljóðahöfundur. Hann vakti fyrst athygli sumarið 1985 þegar hann samdi textann við þjóðhátíðarlag Lýðs Ægissonar, Í skjóli fjalla. Það lag kom síðar það sama ár út á plötu Lýðs, Ljósbrot ásamt fleiri textum eftir Guðjón.

Í framhaldi af því byrjaði boltinn svolítið að rúlla, árið 1986 samdi hann texta við þjóðhátíðarlag Ólafs Aðalsteinssonar, Dalbúinn og einnig tveimur árum síðar (1988) við lag Ólafs, Ég meyjar á kvöldin kyssi, sem Greifarnir fluttu. Þeir Guðjón og Ólafur komu enn við sögu 1990 með lagið Næturfjör og 1991 samdi hann textann við lag Geirmundar Valtýssonar, Þjóðhátíð í Eyjum en það naut nokkurra vinsælda. Árið 1994 kom Guðjón enn einu sinni við sögu Þjóðhátíðar þegar hann samdi texta við lag Gísla Helgasonar, Út við sund og eyjar og það var svo 1997 sem hans þekktasti þjóðhátíðarlagatexti leit dagsins ljós, Þú veist hvað ég meina mær við lag Sigurjóns Ingólfssonar sem hljómsveitin Skítamórall gerði skil og naut feikimikilla vinsælda fyrir. Árið síðar, 1998 átti hann svo texta við lag Geirmundar Valtýssonar í annað sinn, Á þjóðhátíð en það var áttundi þjóðhátíðarlagatexti Guðjóns.

Guðjón hefur einnig samið nokkra aðra texta sem ratað hafa á hljómplötur, m.a. við lög Guðmundar Rúnars Lúðvíkssonar, Papa, Henrýs A. Erlendssonar o.fl.

Guðjón Weihe lést í febrúar 2022.