Þorsteinn Guðmundsson (1933-2011)

Þorsteinn Guðmundsson

Þorsteinn Pálmi Guðmundsson (Steini spil) var einn af sveitaballakóngum Suðurlandsundirlendisins á sínum tíma en hann starfrækti hljómsveitir sem gerðu það gott lengi vel þótt ekki væru þær endilega að elta strauma og stefnur í tónlistinni.

Þorsteinn fæddist 1933 í Villingaholtshreppi en bjó mest alla ævi á Selfossi, þar sem hann fékkst við handmenntakennslu og einnig tónlistarkennslu um tíma.

Hann eignaðist sína fyrstu harmonikku laust eftir fermingu en hann nýtti fermingarpeningana sína til kaupa á henni. Fljótlega upp úr því hóf hann að spila á böllum í Árnessýslunni, ýmist einn eða með öðrum nikkuleikara en hann var svo um tvítugt þegar hann byrjaði með Hljómsveit Óskars Guðmundssonar sem þá var aðal bandið á Suðurlandi. Með þeirri sveit lék Þorsteinn aðallega á harmonikku en einnig á saxófón, hann hafði þá notið einhverrar tilsagnar hjá Karli Jónatanssyni.

Þorsteinn gekk iðulega undir nafninu Steini spil en viðurnefnið kom til þegar hann var staddur í Tryggvaskála á Selfossi á matmálstíma ásamt fjölda manns þegar síminn hringdi þar og spurt var eftir honum til að bóka hann í eitthvert gigg. Stúlkan sem svaraði símanum kallaði fram í matsalinn að það væri sími til Steina, þá kom í ljós að það voru að minnsta kosti fjórir á staðnum sem gengu undir nafninu. Stúlkan kallaði þá að spurt væri eftir Steina spil og festist það nafn við hann upp frá því.

Steini spil með nikkuna

Þorsteinn lék með Óskari í áratug eða svo og stofnaði þá hljómsveit undir eigin nafni (1963), Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar sem reyndar oftast var tríó. Sú sveit starfaði allt til ársins 1986 þegar Þorsteinn hætti spilamennsku en hún var þó endurvakin þegar hann sneri aftur fram á sjónarsviðið fáeinum árum síðar. Tónlistinni sinnti hann þó ekki af eins miklum krafti og áður, en hann lést vorið 2011 eftir að hafa átt við langvinn veikindi að stríða.

Steini spil varð eins konar samnefnari fyrir gömludansabönd þess tíma og þótt tónlistin sem sveit hans flutti þótti ekki beinlínis móðins á köflum naut hann alltaf virðingar fyrir framlag sitt og var ómissandi á þorrablótum og þess konar samkomum á Suðurlandi og jafnvel miklu víðar ef svo bar undir. Steini lék sem fyrr segir á harmonikku en einnig á cordovox, sem fáir kunnu þá skil á en það var tæknileg harmonikka á statífi. Sveit hans fór t.a.m. í nokkur skipti út fyrir landsteinana til að spila fyrir Íslendinga erlendis.

Þorsteinn samdi fjölda laga og nokkur þeirra flutti sveit hans á nokkrum plötum sem komu út með henni, þeirra þekktust eru líklega Grásleppu Gvendur og Snjómokstur (Mokið meiri snjó). Þess má einnig geta að Harmonikufélag Selfoss heiðraði minningu hans með því að nefna plötu sína eftir einu laga hans, Vangaveltur, en hún kom út 2013. Þorsteinn hafði verið einn af stofnendum félagsskaparins og hafði tekið virkan þátt í starfsemi þess.