Þorsteinn Hannesson (1917-99)

Þorsteinn Hannesson

Þorsteinn Hannesson var einn af fremstu söngvurum þjóðarinnar um miðja síðustu öld en hann starfaði bæði hér- og erlendis. Hann var ennfremur einn af þeim sem hafði með stjórn Ríkisútvarpsins um langan tíma.

Þorsteinn fæddist 1917 á Siglufirði og ól þar reyndar manninn til tuttugu og fjögurra ára aldurs er hann fluttist suður til Reykjavíkur. Hann lærði þá söng hjá Sigurði Birkis og árið 1943 fór hann utan til Bretlands í söngnám hvar hann nam í London.

Hann ílengtist í London eftir nám og starfaði þar við sönglistina en þar var hann lengst fastráðinn tenórsöngvari við Covent garden óperuna (1947-54) en einnig sem gestasöngvari við The Royal Carl Rosa opera company og The Sadler‘s Wells opera company, auk gestasönghlutverka á Írlandi og Hollandi svo dæmi séu tekin. Á Bretlandsárum Þorsteins kom út ein tveggja laga 78 snúninga plata hérlendis.

Þorsteinn starfaði og bjó erlendis til 1954 en þá flutti hann aftur heim til Íslands. Hann söng eftir það mörg hlutverk við Þjóðleikhúsið auk annarra tónleikaverkefna. Þá hófst söngkennaraferill hans og hann varð yfirkennari söngdeildar Tónlistarskólans í Reykjavík um ellefu ára skeið. Meðal söngnemenda hans þar má nefna Sigurveigu Hjaltested, Gest Guðmundsson og Eið Gunnarsson.

Hann átti einnig eftir að starfa við Ríkisútvarpið, fyrst sem aðstoðartónlistarstjóri en síðan sem tónlistarstjóri auk þess að annast dagskrárgerð við stofnunina, s.s. útvarpsþáttinn Hljómplöturabb en hann var einnig þekktur fyrir lestur útvarpssagna. Þorsteinn vann ennfremur við flokkun og skráningu á hljóðritasafni Ríkisútvarpsins og hafði einnig yfirumsjón með útgáfu efni úr því safni. Hann átti þannig stóran þátt í að safna efni fyrir safnadeildina og auglýsti m.a. eftir gömlum íslenskum 78 snúninga plötum sem almenningur gaf stofnuninni og hjálpaði þannig til að Ríkisútvarpið eignaðist heildstætt tónlistarsafn með íslensku efni, sem þá var hægt að endurútgefa.

Þorsteinn Hannesson

Þorsteinn var öflugur í félagsstarfi tónlistarmanna, hann var lengi í stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands, stjórn Tónlistarskóla Kópavogs, lista- og menningarsjóðs Kópavogs og Bandalag íslenskra listamanna, hann var aukinheldur í útvarpsráði í átta ár.

Hæfileikar Þorsteins lágu ekki einungis í sönghæfileikum því að á eldri árum sínum lék hann minni hlutverk í nokkrum íslenskum kvikmyndum, þar má nefna kvikmyndirnar Atómstöðina, Skytturnar, Kristnihald undir jökli og Hvíta víkinginn.

SG-hljómplötur gaf út fjórtán laga plötu með söng Þorsteins árið 1979 en hún hafði að geyma gamlar upptökur úr fórum útvarpsins. Einnig kom út plata í flokknum Útvarpsperlur, á vegum Ríkisútvarpsins árið 2005 með söng Þorsteins en hún innihélt þrjátíu og þrjú lög úr ýmsum áttum og frá ýmsum tímum. Söng hans má einnig heyra á safnplötu með söng Guðmundar Jónssonar, Hljóðritanir frá fyrri árum: hljóðritanir 1945-1990 og safnplötunni Íslenskar hljóðperlur (1991).

Þorsteinn lést 1999.

Efni á plötum