Hljóðhamar [hljóðver] (1991-98)

Hljóðverið Hljóðhamar var starfrækt um nokkurra ára skeið á tíunda áratug síðustu aldar en fyrirtækið bauð jafnframt upp á yfirfærslu tónlistar á stafrænt form.

Svo virðist sem Hljóðhamar hafi starfað á árunum 1991 til 1998, fyrst í eigu Guðmundar Guðjónssonar og Rafns Jónssonar en síðar einvörðungu Guðmundar þegar Rafn stofnaði sitt eigið hljóðvers- og útgáfufyrirtæki 1994. Fjöldinn allur af plötum voru hljóðritaðar í Hljóðhamri og hér má nefna efni með tónlistarfólki og hljómsveitum eins og Páli Óskari Hjálmtýssyni, Woofer, Botnleðju, Pálma Gunnarssyni, Orra Harðarsyni, Megasukki, Önnu Halldórsdóttur, Dead sea apple, KK & Magnúsi, PPPönk, Grafík og Rabba (Rafni Jónssyni) svo nokkur dæmi séu tekin.

Einnig var boðið upp á yfirfærslu efnis á geisladiska, t.d. af vínylplötum en það var þá líklega fyrsta þjónusta sinnar tegundar hérlendis, einnig gat fólk komið inn af götunni og hljóðritað eigin söng við karaoke útgáfur laga.

Hljóðhamar var fyrst staðsett við Leifsgötu 12 en flutti síðar í Höfðatún þar sem það var eftirleiðis. Fyrirtækið virðist hafa hætt störfum árið 1998 en þó eru heimildir um Kristján Edelstein hafi starfrækt hljóðver undir sama nafni árið 2005 – líklega á Akureyri. Óskað er eftir frekari upplýsingum um það.