Rabbi (1954-2004)

Rafn Jónsson

Rafn Jónsson

Rafn Jónsson tónlistarmaður (f. 1954) eða Rabbi eins og hann var iðulega nefndur, á rætur sínar að rekja til Vestfjarða og starfaði hann lengst af á Ísafirði þótt fæddur sé á Suðureyri við Súgandafjörð. Rafn var á Ísafirði trommuleikari í hljómsveitum eins og Perlunni/Útför Rabba Jóns, Náð, Ýr (sem gaf út plötuna Ýr er skýr/Ýr var það heillin (1975)), Danshljómsveit Vestfjarða og Grafík (sem gaf út fjölda platna á árunum 1981-87).

Eftir að Rafn fluttist suður til Reykjavíkur starfaði hann m.a. í hljómsveitunum Haukum, Bítlavinafélaginu, Sálinni hans Jóns míns og Galíleó svo dæmi séu tekin. Allar þessar sveitir hafa gefið út plötur nema sú síðastnefnda sem átti þó nokkur lög á safnplötum.

1991 gaf Rabbi út sína fyrstu sólóplötu, plötuna Andartak. Á henni samdi hann öll lög og flesta texta, stjórnaði einnig upptökum og útsetti. Hann var ennfremur upptökumaður, ásamt fleirum en um þetta leyti rak Rabbi hljóðverið Hljóðhamar.

1993 kom út önnur plata, Ef ég hefði vængi, en hún var gefin út til styrktar MND félaginu á Íslandi en Rabbi hafði þá sjálfur greinst með þann illvíga sjúkdóm. Lag af plötunni rataði á safnplötuna Já takk (1994). Í tengslum við útgáfu plötunnar starfrækti hann hljómsveitina Rabbi og co. en sú sveit kemur að einhverju leyti við sögu á plötunni.

Rabbi setti síðan á stofn eigið hljóðver og útgáfufyrirtæki 1994 undir nafninu R&R músík og dró sig að miklu leyti sjálfur út úr sviðsljósi hljómsveita en starfaði með fjölmörgum tónlistarmönnum í kjölfarið í tengslum við fyrirtæki sitt. Meðal hljómsveita og tónlistarmanna má nefna Botnleðju, Buttercup, Sixties, Noise, Hörð Torfa, Sign, Sverri Stormsker, Kristján Kristjánsson og marga fleiri. Einnig hafa synir Rabba, Ragnar og Egill fengist mikið við tónlist og var Ragnar til dæmis einungis ellefu ára þegar hann gaf út sína fyrstu plötu undir merkjum föður síns.

Ennfremur vann Rabbi plötu með Rúnari Þórissyni gítarleikara en þeir höfðu verið í hljómsveitinni Grafík á árum áður, sú plata kom út árið 2000 og hét Í álögum. Hún fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu og vildu sumir skilgreina hana hreinlega sem Grafíkplötu.

Rabbi lést sumarið 2004 eftir erfiða baráttu við sjúkdóm sinn og kom út þriðja sólóplata hans eftir andlát hans en hún bar heitið Fuglar geta ekki flogið á tunglinu (2004), hún hafði verið langt komin í vinnslu er hann féll frá og luku synir hans vinnunni að honum látnum, Rabbi lék sjálfur að einhverju leyti á trommur á plötunni og var öll tónlistin eftir hann sjálfan. Platan hlaut mjög góða dóma í Morgunblaðinu og ágæta í Popplandi á Rás 2 en hún hafði að einhverju leyti verið tekin upp í Abbey road stúdíóinu.

Fjölmörg lög með Rabba og hljómsveitum hans hafa ratað inn á safnplötur í gegnum tíðina.

Efni á plötum