Tríó Guðmundar Ingólfssonar (1965-91)

Tríó Guðmundar Ingólfssonar og Björk

Tríó Guðmundar Ingólfssonar píanóleikara var í rauninni mörg tríó sem voru starfaði á ýmsum tímum frá miðjum sjöunda áratug síðustu aldar allt til andláts Guðmundar sumarið 1991, stundum gekk það undir nafninu Jazztríó Guðmundar Ingólfssonar eða jafnvel Jazzgrallararnir. Frægasta útgáfa tríósins er án nokkurs vafa sú sem lék með söngkonunni Björku Guðmundsdóttur á plötunni Gling gló en sú plata er söluhæsta djassplata Íslandssögunnar og með söluhæstu plötum íslenskrar tónlistarsögu en hún selst enn í dag jafnt og þétt.

Fyrsta tríóið sem Guðmundur starfrækti lék á efri hæð skemmtistaðarins Glaumbæjar veturinn 1965-66, engar upplýsingar liggja fyrir um hverjir skipuðu sveitina með Guðmundi þá en hún kom síðan aftur fram í lok árs 1966 og í nokkur skipti 1967 sé tekið mið af dagblaðaauglýsingum þess tíma.

Næst var Guðmundur með tríó haustið 1971 og lék sú sveit í nokkur skipti. Ekki liggur heldur fyrir hverjir voru með honum í sveitinni í það skiptið.

Það var svo 1977 sem Guðmundur Ingólfsson kom fram með tríó sem starfaði samfleytt til 1991 en skipan þess var nokkuð breytileg, einkum framan af. Fyrst um sinn voru Pálmi Gunnarsson bassaleikari og Guðmundur Steingrímsson trommuleikari í tríóinu með honum en síðan komu ýmsir við sögu næstu árin, Gunnar Hrafnsson, Tómas R. Einarsson, Skúli Sverrisson og Árni Scheving bassaleikarar og trommuleikararnir Sigurður Karlsson, Birgir Baldursson og Alfreð Alfreðsson.

Föst skipan komst á tríóið um miðjan níunda áratuginn en þá voru í því nafnarnir Ingólfsson og Steingrímsson, og ungur bassaleikari Þórður Högnason og áttu þeir eftir að starfa saman þar til yfir lauk. Tríóið lék bæði á djasshátíðum og stökum tónleikum t.d. á vegum Jazzvakningar, m.a. í Djúpinu. Fjölmargir gestaspilarar léku með tríóinu við ýmis tækifæri og hér eru nefndir Viðar Alfreðsson, Rúnar Georgsson, Björn Thoroddsen, Reynir Sigurðsson, Helgi Guðmundsson og Lárus H. Grímsson. Einnig komu ýmsir söngvarar, s.s. Hjördís Geirsdóttir, Oktavía Stefánsdóttir og Andrea Gylfadóttir, fram með þeim.

Hópurinn tekur á móti gullplötum fyrir góða plötusölu

1986 kom Tríó Guðmundar Ingólfssonar ásamt saxófónleikaranum Stefáni Stefánssyni lítillega við sögu á plötu Megasar, Í góðri trú. Það var svo 1987 sem Jónas Jónasson fékk tríóið og Björku Guðmundsdóttur þáverandi söngkonu Sykurmolanna til samstarfs í útvarpsþætti en hún hafði tekið lagið með þeim á Jazzvakningaruppákomum, þar með var kominn vettvangur fyrir frekara samstarf en uppátækið í útvarpinu þótti takast vel.

Það varð þó ekki alveg strax sem af því samstarfi varð þar eð verkefnin voru ærin, tríóið fór í tónleikaferðalög um Evrópu, spilaði bæði í Skandinavíu, Danmörku, Færeyjum og Vestur- og Austur-Þýskalandi (þar sem Haukur Morthens söng með þeim), auk þess sem tríóið lék á sólóplötu Guðmundar, Þjóðlegum fróðleik, sem út kom 1988 og fékk frábærar viðtökur.

Haustið 1990 var komið að framhaldi samstarfsins við Björku Guðmundsdóttur en þá héldu þau tónleika á Hótel Borg og léku þar gömul vinsæl dægurlög frá sjötta og sjöunda áratugnum í djassútsetningum, valin í félagi við Megas og Vernharð Linnet, þetta voru lög sem söngvarar eins og Alfreð Clausen, Adda Örnólfs, Ingibjörg Þorbergs og Erla Þorsteins höfðu áður gert skil. Tónleikarnir þóttust taka mjög vel og spilað var fyrir troðfullu húsi, þeir voru teknir upp í því skyni að hægt væri að gefa þá út en upptökurnar reyndust ónothæfar, tríóið fór hins vegar í stúdíó Sýrland og tók upp heilmikið efni á sextán tímum undir stjórn Tómasar M. Tómassonar, sem einnig hljóðblandaði.

Valin voru fjórtán lög til útgáfu á vínylplötuformi en tvö aukalög voru á geislaplötuútgáfu hennar, Ruby baby og I can‘t help loving that man sem tekin höfðu verið upp fyrir þátt Ólafs Þórðarsonar, Djasskaffi á Rás, hin lögin voru öll með íslenskum textum. Óskar Jónasson hannaði og teiknaði umslag plötunnar sem hlaut nafnið Gling gló eftir einu laga hennar. Smekkleysa gaf plötuna út hér heima en OLI (One little indian) fyrir alþjóðamarkað.

Í kjölfar útgáfu Gling gló voru haldnir útgáfutónleikar í Íslensku óperunni þar sem margir þurftu frá að hverfa en tríóið var einnig mjög duglegt að koma fram næstu mánuðina og var þá Björk einnig með, hún átti þó ekki alltaf heimangengt vegna annarra starfa og söng Linda Gísladóttir með tríóinu a.m.k. einu sinni.

Platan fékk strax frábærar móttökur og dóma, var t.a.m. kjörin plata ársins árið 1990 á DV. Platan hefur selst í á þriðja hundrað þúsund eintaka og margsinnis verið endurútgefin á cd, vínyl og snælduformi, jafnvel á tvöfaldri vínylplötu í takmörkuðu númeruðu upplagi (þúsund eintökum). Einnig eru til nokkrar ólöglegar sjóræningjaútgáfur af plötunni, auk tveggja DVD útgáfa undir nafninu Gling gló live og Gling glo live at The Hotel Borg.

Saga Tríós Guðmundar Ingólfssonar hlaut þó óvæntan og skyndilegan endi síðsumars 1991 þegar Guðmundur lést en hann var þá aðeins fimmtíu og tveggja ára gamall, sveitin kom síðast fram á árlegri djasshátíð á Egilsstöðum í lok júní.

Með Guðmundi hvarf frábær djasspíanisti úr íslensku tónlistarlífi og tríó sömuleiðis. Plötur hans sem og tríósins hafa verið margendurútgefnar sem fyrr segir.

Efni á plötum