Afmælisbörn 10. janúar 2017

fridrik-omar-

Friðrik Ómar Hjörleifsson

Í dag eru tvö afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

Sverrir Guðjónsson kontratenór er sextíu og sjö ára, hann var snemma viðloðandi tónlist á æskustöðvum sínum á Hellissandi, söng sjö ára á söngskemmtun við undirleik föður síns (Guðjóns Matthíassonar) og söng inn á tvær litlar plötur aðeins tólf ára gamall. Hann nam söng hér heima og á Bretlandseyjum og hefur síðan sungið inn á fjölmargar plötur, bæði undir eigin nafni og annarra, sem einsöngvari. Hann er einn af stofnendum Voces Thules. Sverrir söng með sveitum á yngri árum s.s. Pónik og þjóðlagatríóinu Þremil. Þess má geta að Sverrir lék á trommur á nokkrum plötum sem Guðjón faðir hans kom að, en Sverrir var þá barn að aldri, um tólf ára gamall.

Friðrik Ómar Hjörleifsson söngvari frá Dalvík er þrjátíu og sex ára í dag. Fyrst heyrðist til Friðriks þegar hann gaf út jólasnælduna Jólasalat ´97 og ári síðar plötuna Hegg ekki af mér hælinn. Síðan hefur komið út um tugur platna ýmis í formi sólóverkefna eða dúettaplatna ásamt Jógvan Hansen og Guðrúnu Gunnarsdóttur. Friðrik Ómar söng einnig Eurovision framlag Íslendinga, This is my life (Fullkomið líf) 2008 ásamt Regínu Ósk og Eurobandinu og hefur verið tíður gestur í Eurovision, Landslaginu, Ljósalaginu og Sæluvikukeppninni undanfarin ár.