Afmælisbörn 29. apríl 2023

Snorri Sigfús Birgisson

Afmælisbörn dagsins eru eftirfarandi:

Snorri Sigfús Birgisson píanóleikari og tónskáld er sextíu og níu ára gamall í dag. Snorri nam píanóleik hér heima og í Bandaríkjunum en tónsmíðanámi í Noregi og Hollandi. Hann starfaði í Frakklandi og Bretlandi áður en hann kom aftur heim 1980. Snorri starfar í dag sem tónskáld, tónlistarkennari, stjórnandi og píanóleikari, hefur gefið út nokkrar plötur einn og í samstarfi við aðra, m.a. tónverkið Stúlkan í turninum sem hann samdi við sögu Jónasar Hallgrímssonar, í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands.

Frosti Kr. Logason tónlistar- og fjölmiðlamaður er fjörutíu og fimm ára gamall á þessum degi. Frosti hefur leikið á gítar með ýmsum sveitum og er Mínus þeirra þekktust en einnig hefur hann leikið með Ungblóði, Mínusbarða og Ghostigital svo einhverjar séu nefndar. Þá hefur hann einnig starfað sem blaða- og dagskrárgerðarmaður í útvarpi, sjónvarpi og fleiri miðlum.

Þá átti Kristinn Vilhelmsson tónlistarmaður þennan afmælisdag einnig en hann lést 2004. Kristinn (fæddur 1929) lék á bassa með fjöldanum öllum af hljómsveitum um og eftir miðja síðustu öld og má þeirra á meðal nefna Hljómsveit og Tríó Ólafs Gauks, Neó kvartettinn, Fjóra fjöruga og Leiktríóið, hann starfaði einnig sem tónlistarmaður í Danmörku en hann fluttist þangað snemma á sjöunda áratugnum. Kristinn lék inn á nokkrar plötur með hljómsveitum sínum.

Vissir þú að á Akranesi starfaði eitt sinn hljómsveit undir nafninu Magnús?