Haukar [2] (1962-78)

Haukar 1969

Hljómsveitin Haukar hefur iðulega haft á sér hálf goðsagnakenndan blæ, tvennt er þá tínt til – annars vegar að sveitin hafi verið mikil djammsveit sem hafi farið mikinn á sviðinu í fíflaskap og gleði, hins vegar allar mannabreytingarnar í henni en Haukar hljóta að gera tilkall til fyrsta sætisins þegar kemur að fjölda meðlima meðan hún starfaði en eitthvað á áttunda tug tónlistarmanna og -kvenna komu þar við sögu – talan 74 hefur verið nefnd í því samhengi. Haukar sendu frá sér tvær breiðskífur og eina smáskífu en var kannski aldrei tekin alveg alvarlega, þar spilar sveitaballagleðin og skortur á frumsömdu efni klárlega sína rullu.

Margar sögur fara af því hvenær Haukar voru stofnaðir og eru þær allt frá því að sveitin hafi verið sett á laggirnar vorið 1959 á Blönduósi og allt til 1965 og þá í Reykjavík, flest bendir þó til að hún sé stofnuð árið 1962 af Helga Steingrímssyni en auk hans voru í upphaflegu útgáfunni þeir Ásgeir Jónsson, Einar Þorkelsson og Hængur Þorsteinsson, Hallbjörn Kristjánsson hefur einnig verið nefndur í því samhengi en ekki liggja fyrir upplýsingar um hljóðfæraskipanina aðrar en þær að Helgi lék á gítar. Líklegt er að sveitin hafi verið stofnuð norðanlands en Helgi var ættaður úr Hrútafirðinum, Haukar störfuðu þó nánast alla tíð á höfuðborgarsvæðinu og gerði út þaðan.

Lítið liggur fyrir um Hauka þessi fyrstu ár sem hún starfaði, sveitin átti þó á þessum upphafsárum í erjum við samnefnda húsvíska hljómsveit um nafnið en þeim ágreiningi lauk með því að hin sveitin tók upp nafnið Húsavíkur-Haukar. Ekki er víst að Haukar hafi starfað alveg samfleytt á sjöunda áratugnum, allavega eru vísbendingar um að hún hafi verið endurreist eftir nokkurt hlé laust eftir miðjan áratuginn – hugsanlega árið 1967 eftir að Helgi hafði þá um tíma starfað með hljómsveitinni Örnum. Þegar sú útgáfa varð til var Guðmundur Ingólfsson píanóleikari (hinn eini sanni) í sveitinni með Helga og á þeim tíma voru Haukar líklega um tíma tríó. Haukar léku á þeim árum oftsinnis í Glaumbæ en fóru jafnframt heilmikið út á land líka til að leika á sveitaböllum sem síðar urðu hálfgerð sérgrein þeirra félaga.

Haukar 1971

Undir lok sjöunda áratugarins fór svo að bera á þeim mannabreytingum sem síðan settu svip sinn á Hauka, sumarið 1969 lék Vilhjálmur Vilhjálmsson bassaleikari og söngvari með sveitinni en hann var þá orðinn landsþekktur, en auk þess voru Gunnar Ingólfsson trommuleikari (bróðir Guðmundar) og Hjörtur Blöndal [söngvari?] í sveitinni, einnig söng Rúnar Guðjónsson eitthvað með Haukum þá um haustið.

Haustið 1969 urðu eins konar þáttaskil í Haukum en þá gekk bassaleikarinn Gunnlaugur Melsteð í sveitina, þá voru þar fyrir Helgi gítarleikari og Guðmundur píanóleikari en Ólafur Bachmann trommuleikari hafði þá einnig gengið til liðs við sveitina. Helga Sigþórsdóttir þáverandi eiginkona Guðmundar söng með Haukum og gekk sveitin því um tíma undir nafninu Haukar og Helga en hún spilaði mikið í Sigtúni við Austurvöll og Röðli á þessum árum og reyndar mörgum fleiri stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Og á næstu árum urðu enn breytingar á skipan sveitarinnar, norski gítarleikarinn Sven Arve Hovland leysti Helga af um tíma og einnig kom Helgi Hjálmarsson hljómborðsleikari inn fyrir Guðmund árið 1971 og um svipað leyti hættu Helga og Ólafur einnig og í þeirra stað komu Engilbert Jensen söngvari og trommuleikari (Hljómar o.fl.) og Sveinn Guðjónsson hljómborðsleikari en þeir Gunnlaugur, Sveinn og Engilbert sungu allir. Og fleiri komu og höfðu stutta viðdvöl í Haukum á þessum árum, Finnur Torfi Stefánsson gítarleikari (Óðmenn o.fl.) og Arnþór Jónsson söngvari (Addi rokk) voru meðal þeirra.

Upp frá þessu tók við það tímabil sem sveitin er hvað þekktust fyrir, gleði og fíflaskap og taumlausa spilamennsku bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landsbyggðinni. Í hönd fór svokölluð „brennivínstónlistar-spilamennska“ þar sem lögð var áhersla á leika þá tónlist sem fólkið vildi dansa við og fylgdi því hvorki mikill metnaður í spilamennsku né stífar æfingar heldur einkenndust böll sveitarinnar fyrst og fremst af gleði þar sem ekki mátti sjá hvorir skemmtu sér betur, dansleikjagestir eða hljómsveitin. Sveitin fékk það orð á sig að taka þær skemmtanir alla leið, þ.e. það mætti ekki sjá hvorir drykkju meira hljómsveitin eða gestirnir en Haukameðlimir þvertóku reyndar fyrir það – eini munurinn á þeim og öðrum hljómsveitum á þeim tíma væri að þeir væru ekkert að pukrast með áfengið heldur hefðu þeir flöskurnar sýnilegar á sviðinu öfugt við aðra. Sagan segir reyndar að hin raunverulega ástæða fyrir að sveitin lék svo lengi á Röðli hafi verið sú að þeir voru spila upp í drykkjuskuldir hljómsveitarmeðlima. Þorsteinn Eggertsson sem ferðaðist með sveitinni um tíma sagði síðar í viðtali við Dr. Gunna: „þegar ég var að ferðast með Dátum út á landi vorum við með eina flösku, sem gekk á milli manna í rútunni. Þegar ég fór með Haukum var ein flaska á mann.“

Haukar á sviði 1972

Drjúgur tími fór í fíflaskap á sviðinu á milli laga og þar var Helgi gítarleikari og stofnandi sveitarinnar fremstur í flokki og talaði út í eitt en hann söng hins vegar aldrei – hans hlutverk var að halda stuðinu gangandi milli laga með grófum húmor sem þætti eflaust ekki boðlegur í dag. Á dansleik í Víkurröst á Dalvík sumarið 1971 hafði úr fundist á ballinu og Helgi tilkynnti það með þeim hætti að fundist hefði kvenmannsúr, 64 karata, þeir sem þykjast eiga það eru beðnir að koma hér upp að sviðinu og mynda einfalda röð. Hljómsveitin sneri einnig oft út úr textum þekktra laga og húsganga í flutningi sínum og sneru þeim upp í klám eða groddahúmor enda spiluðu þeir jafnt þekkta vinsældatónlist og barnagælur í bland við jólalög, skottís, valsa, ræla og annað. Um það leyti voru Haukar orðnir að atvinnuhljómsveit, þ.e. meðlimir hennar störfuðu eingöngu við ballspilamennsku og þannig var það næstu árin. Vegna þess fjárfesti sveitin í hljómsveitarbíl sem gekk undir nafninu Haukurinn en sá bíll var hálfgert skrapatól og í engu líkur þeim hljómsveitarútum sem síðar voru notaðar í þessum bransa. Þrátt fyrir atvinnumennskuna æfði hljómsveitin lítið sem ekkert – bæði var það vegna þess að sveitin spilaði flest kvöld vikunnar og því var ekkert svigrúm til æfinga – tók því ekki, og svo einnig að hún hafði ekkert húsnæði til umráða. Í þau fáu skipti sem Haukar æfðu var þegar nýir hljómsveitarmeðlimir beinlínis fóru fram á það, þá var húsnæði leigt kannski í eitt eftirmiðdegi og ein æfing tekin – og svo spilað á balli um kvöldið.

Haukar 1973

Árið 1972 hætti Engilbert trommari og kom Rafn Haraldsson inn í Hauka í hans stað en Sven Arve var þá orðinn fastur liðsmaður sveitarinnar einnig en ásamt því að leika á gítar lék hann líka á munnhörpu og trompet sem gaf möguleika á fjölbreytileika, um það leyti var sveitin farin að leika í Klúbbnum og var orðin ein af vinsælli hljómsveitum landsins án þess þó að hafa gefið nokkurt út og var t.d. fengin til að spila á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um sumarið. Sveitin varð einnig svo fræg að fara utan til spilamennsku, þannig lék hún á balli Íslendingafélagsins í Lúxemborg (fyrir tilstuðlan Vilhjálms Vilhjálmssonar sem þá bjó þar) en einnig fór sveitin til New York og lék fyrir Íslendinga þar. Fyrir þá ferð auglýstu Haukar ball með sveitinni í Morgunblaðinu (eins og títt var þá) með orðunum „Summet Hótel New York – Það verða hinir síungu HAUKAR, sem skemmta í kvöld. Sætaferð með Loftleiðum. Mætum öll og gerum allt vitlaust.“ Um svipað leyti auglýstu þeir í dagblöðunum að fólk í skátabúningum fengi frítt inn á böllin hjá þeim – og kannski mætti segja að þeir hafi verið á undan sinni samtíð í auglýsingamennsku og markaðssetningu en sveitin var á þeim tíma með Ámunda Ámundason sem umboðsmann sem vafalaust hafði eitthvað um þessi mál að gera.

Mannabreytingar héldu áfram innan Hauka, haustið 1973 gekk Rúnar Georgsson saxófónleikari til liðs við sveitina í stað Sveins hljómborðsleikara en staldraði ekki lengi við, í kjölfarið varð sveitin kvartett um nokkurra mánaða skeið áður en Kristján Guðmundsson hljómborðsleikari kom inn. Vinsældir Hauka voru umtalsverðar og t.d. fengu þeir félagar um þúsund manns á dansleik á útihátíð um miðjan júli 1974, sem hlaut nafnið Húnaversgleði en á þeirri hátíð voru Haukar og Hljómar aðalnúmerin, sveitin lék svo um verslunarmannahelgina í Vatnsfirði.

Haukar

Í upphafi árs 1975 hætti Helgi gítarleikari og stofnandi Hauka í sveitinni en hann var þá að stofna umboðs- og útgáfufyrirtækið Demant í samstarfi við fleiri, Gunnlaugur tók við hljómsveitarstjórnuninni í kjölfarið. Einhverjir héldu að Haukar myndu leggja upp laupana en svo varð ekki og um sumarið hljóðritaði sveitin loks efni sem kom út á tveggja laga smáskífu síðsumars undir merkjum Hljómaútgáfu þeirra Gunnars Þórðarsonar og Rúnars Júl., lögin Þrjú tonn af sandi / Let´s start again (eftir Kristján hljómborðsleikara) fengu misjafna dóma blaðanna en hljómurinn á henni þótti mjög slakur, fyrrnefnda lagið Þrjú tonn af sandi (Return to sender) naut þó mikilla vinsælda og heyrist jafnvel enn leikið í útvarpi. Lögin tvö komu svo út á safnplötunni Eitthvað sætt, sama haust. Engilbert Jensen söng raddir á smáskífunni og var eitthvað að koma fram með Haukum á dansleikjum en var ekki fastur liðsmaður sveitarinnar.

Haukar voru nú komnir á bragðið og hófu nú að vinna að því að safna og æfa efni á breiðskífu sem áætlað var að hljóðrita í London, eitthvað sömdu þeir sjálfur en fengu einnig efni frá Magnúsi og Jóhanni, Einari Vilberg, Axel Einarssyni og fleirum. Áður en til upptökuferlisins kom birtust þær fréttir vorið 1976 að Kristján hljómborðsleikari væri að hætta í Haukum til að ganga til liðs við nýja sveit, Celsius og í kjölfarið ætluðu Rafn trommuleikari og Sven Arve einnig að snúa sér að öðru þannig að eftir stóð Gunnlaugur bassaleikari og söngvari einn og ekkert benti til annars en að sveitin myndi hætta störfum um sumarið, sveitin var um það leyti húshljómsveit á skemmtistaðnum Sesar en var einnig að leika á dansleikjum um land allt um sumarið, fór jafnvel til Spánar og lék þar fyrir Íslendinga. Gunnlaugur var reyndar ekki alveg tilbúinn að hætta, hann fékk Magnús Kjartansson með sér í að hljóðrita efnið sem sveitin hafði verið tilbúin með og einnig komu inn í það verkefni Sven Arve, Rafn Jónsson trommuleikari (Ýr o.fl.) og Rúnar Þórisson gítarleikari. Ætlunin var svo að fara af stað aftur eftir upptökuferlið með nýja hljómsveit undir Hauka-nafninu. Reyndar seinkaði upptökunum eitthvað og þeir félagar léku á dansleikjum um verslunarmannahelgina í Árnesi með nýju hljómsveitarskipanina en strax að þeirri törn lokinni fór hin nýja sveit í Hljóðrita í Hafnarfirði þar sem tíu lög voru hljóðrituð. Gunnlaugur hafði þá ákveðið að gefa plötuna út í eigin nafni ásamt Birgi Viðari Halldórssyni sem þá var hótelstjóri í Vestmannaeyjum. Eftir að upptökunum lauk fór sveitin af stað á nýjan leik og lék víða um land en Sven Arve lék þá eitthvað með þeim einnig en var iðulega kynntur sem gestur, meðlimir sveitarinnar voru þá Gunnlaugur, Magnús, Rafn og Rúnar.

Haukar um 1975

Platan kom út fyrir jólin undir titlinum Fyrst á röngunni… og fékk ágætar viðtökur, þannig hlaut hún ágæta dóma í Morgunblaðinu og Dagblaðinu en slakari í Vísi. Nokkur laganna nutu vinsælda en tvö þeirra Fiskurinn hennar Stínu (e. Jóhann G. Jóhannsson) og Ferðin mín til Frakklands (e. Magnús Kjartansson) urðu í sérflokki hvað það varðar og hafa fyrir löngu orðið sígild í íslenskri tónlistarsögu, Fiskurinn hennar Stínu hefur jafnframt margsinnis gengið í endurnýjun lífdaga með flytjendum eins og Sixties, Sniglabandinu, Felix Bergssyni, Joe Gæ band, Jógvan Hansen og fleirum. Á plötunni var einnig að finna eitt instrumental (ósungið) lag, Ave Maria e. Schubert en sveitin hafði haft það lag sem lokalag á dansleikjum sínum. Platan fékk jafnframt ágæta kynningu í sjónvarpsþætti sem sýndur var um jólin undir nafninu Rokkveita ríkisins.

Haukar voru í nokkurra vikna fríi eftir jól og áramót og birtust aftur í febrúar 1977 og var sveitin þá mikið breytt, Magnús, Rafn og Rúnar voru þá horfnir á braut en í þeirra stað voru komnir þeir Ingólfur Sigurðsson trommuleikari, Valgeir Skagfjörð hljómborðsleikari, Sven Arve og Engilbert auk Gunnlaugs. Þannig skipuð starfaði sveitin í nokkra mánuði en fór svo í upptökur á nýrri plötu um vorið áður en þeir félagar birtust aftur í júní til að herja á sveitaballamarkaðinn. Áætlað var að nýja plata sveitarinnar kæmi út um sumarið en nokkur dráttur varð á að það gengi eftir, fyrst urðu tafir í framleiðsluferlinu ytra (í plötupressunni) en síðan varð verkfall opinberra starfsmanna hér heima til þess að útgáfan tafðist enn fremur svo platan kom ekki út fyrr en um haustið. Sveitin spilaði þó heilmikið um sumarið, lék m.a. á Húnaversgleði í júlí og svo í Árnesi um verslunarmannahelgina, ástæðan fyrir því að Árnes var svo vinsæll staður um verslunarmannahelgarnar á þessum tíma má rekja til þess að stutt var af hálendinu í gegnum Þjórsárdalinn niður í Árnes en mikill fjöldi ungs fólks starfaði þá við að reisa virkjanir í Sigöldu, Vatnsfelli, Hrauneyjum og víðar á því svæði. Haukar voru um tíma í samstarfi við Rúnar Júlíusson og fóru um undir yfirskriftinni „Á fleygiferð“ en Rúnar var þá nýbúinn að senda frá sér sólóefni.

Haukar 1978

Þegar Haukaplatan, …svo á réttunni, kom loks út síðla hausts 1977 var Valgeir hættur í sveitinni en hann hafði samið flest laganna á henni, í hans stað var Guðmundur Benediktsson (Mánar o.fl.) kominn á hljómborðið. Útgefandi plötunnar var útgáfufyrirtækið Haukur sem stofnað var sérstaklega utan um útgáfuna, platan hlaut mjög misjafna dóma – slaka í Þjóðviljanum, varla nema sæmilega í Dagblaðinu en þokkalega í Æskunni og Tímanum, hún þótti öllu rólegri og ekki eins skemmtileg og fyrri platan en lagið Austur fyrir fjall naut einna helst vinsælda af henni.

Í hönd fór nokkurra mánaða tímabil fyrri hluta ársins 1978 þar sem mikil hreyfing var á mannskapnum, svo mikil að um vorið höfðu þrír hljómborðsleikarar og þrír trommuleikarar staldrað við í Haukum um skamma hríð frá áramótunum, þeirra á meðal voru Pétur Hjaltested hljómborðsleikari og Ásgeir Óskarsson trommuleikari. Þegar sveitin kom fram í sjónvarpsþættinum Hér sé stuð um vorið 1978 voru enn komnir nýir menn í sveitina, það voru þeir Davíð Karlsson trommuleikari og Jóhannes Johnsen hljómborðsleikari, hér var svo komið sögu að nauðsynlegt þótti að gera samstarfssamning við nýja meðlimi svo þeir hlypu ekki á brott við fyrsta tækifæri, aðrir meðlimir voru þá þeir Gunnlaugur, Sven Arve og Engilbert.

Plönin voru nú að spila að minnsta kosti fram á haust (1978) og sjá svo til, og það gerðu Haukar um sumarið og voru þá í samstarfi við hina dönsku nektardansmær Susan sem baðaði sig í bala og var orðin æði hrein um haustið. Haukar léku um verslunarmannahelgina á Borgarfjarðargleði ásamt hljómsveitinni Póker en eftir það fór minna fyrir sveitinni og þegar haustaði hættu Engilbert og Sven Arve og eftir stóð Gunnlaugur og tveir nýir liðsmenn, Tryggvi J. Hübner gítarleikari og Ólafur Kolbeins trommuleikari, einnig lék Pétur Hjaltested hljómborðsleikari með sveitinni stundum. Eftirspurnin var orðin minni um það leyti og þá lagði sveitin niður atvinnumennskuna og tók bara gigg þegar þau buðust en meðlimir hennar höfðu þá haft spilamennskuna að aðalatvinnu í um sex ár. Gunnlaugur sneri sér að iðngrein sinni, hárskeranum, hann fór að klippa og hóf að leika með hljómsveitinni Freeport um haustið og lauk þar með sögu Hauka. Segja má að endalok Hauka tengist einnig ótímabæru fráfalli Gunnlaugs en hann lést ári síðar með sviplegum hætti, um verslunarmannahelgina 1979 þegar Freeport var á leið til Reykjavíkur eftir spilamennsku.

Haukar

Saga Hauka er um margt mjög merkileg og margir vilja meina að sveitin beri nokkra ábyrgð á því tímabili sem kennt hefur verið við „brennivínstónlistina“ á böllum, vinsældatónlistin hafði verið að breytast mikið undir lok sjöunda áratugarins og var þá orðin töluvert þyngri, hljómsveitir léku progrokk eða hipparokk sem einkenndust nokkuð af löngum sólóköflum og lítt dansvænum lögum sem gátu tekið allt að korter í flutningi á meðan hljómsveitirnar svifu um margar hverjar í eigin reyk- og skýjaheimi. Haukar áttu sinn þátt í að breyta því aftur með tónlistarvali sínu, dansvænu léttpoppi og -rokki sem allir gátu samsamað sig við, drukkið sitt áfengi og skemmt sér að hætti hússins – jafnvel mætti segja að sveitin hafi átt sinn þátt í að bjarga sveitaballinu á sínum tíma. Þess vegna naut sveitin líka mikilla vinsælda, hún spilaði mikið á skemmtistöðum borgarinnar og á skólaböllum á virkum kvöldum en um helgar úti á landi og hafði þar oft betur í samkeppninni við mun stærri númer og klárlega má rekja þær vinsældir til prógramms sveitarinnar og skemmtilegheita hennar. Segja má að Haukar hafi svo lagt línurnar fyrir gleðipoppið sem var áberandi í ballsenunni á níunda áratugnum.

Í umfjöllun um Hauka hér að ofan eru „einungis“ taldir upp rétt ríflega þrjátíu meðlimir sveitarinnar en þeir munu skv. heimildum vera sjötíu og fjórir alls, Helgi Steingrímsson mun hafa haldið eins konar bókhald utan um það. Auk þeirra sem hér eru taldir að framan koma eftirfarandi nöfn (í stafrófsröð) upp í heimildum en sá listi er þó engan veginn tæmandi og því vantar enn upplýsingar um þrjátíu meðlimi Hauka: Axel Einarsson, Birgir Hrafnsson, Erla Traustadóttir, Friðrik Theódórsson, Gunnar Ormslev, Gunnar Þórðarson, Halldór Kristinsson, Helgi Ólafsson, Hlöðver Smári Haraldsson, Jóhann Helgason, Jón Erling Jónsson, Kristinn Svavarsson, Linda Taylor og Þórir Steingrímsson.

Lögin Ferðin mín til Frakklands, Fiskurinn hennar Stínu og Þrjú tonn af sandi hafa sem fyrr segir notið vinsælda í gegnum tíðina og þau lög má finna á tugum safnplatna sem komið hafa út.

Efni á plötum