Afmælisbörn 19. maí 2024

Garðar Guðmundsson

Í dag eru á skrá Glatkistunnar fimm afmælisbörn:

Ólafur Vignir Albertsson píanóleikari er áttatíu og átta ára gamall á þessum degi, enginn veit hversu oft hann lék undir við „síðasta lag fyrir fréttir“ en mun vera þó vera oftar en nokkur annar. Ólafur nam píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík en lauk síðan framhaldsnámi í London í kjölfarið. Hann var lengi skólastjóri Tónlistarskólans í Mosfellsbæ og hefur leikið inn á nokkra tugi hljómplatna undir söng kóra og einsöngvara.

Gísli Már Jóhannsson kántrísöngvari eða Gis Johannsson eins og hann kallar sig, er fimmtíu og sjö ára gamall. Hann gaf út tvær sólóplötur fljótlega eftir aldamót og eina að auki með hljómsveit sinni The Big city. Hann vakti athygli fyrir enska útgáfu af laginu Traustur vinur en lítið hefur spurst til hans á kántrísviðinu síðustu árin. Hann býr í Bandaríkjunum.

Garðar Guðmundsson söngvari er áttatíu og tveggja ára gamall á þessum degi. Garðar er einn af fyrstu rokksöngvurum Íslands og gerði garðinn frægan með sveitum eins og Gosum, Flamingó kvintettnum, J.J. kvintettnum, Rokkbræðrum og Tónum svo aðeins fáeinar séu nefndar en hann var einnig áberandi þegar „týnda kynslóðin“ kom til sögunnar á nýjan leik með rokksýningum á Hótel Íslandi og víðar.

Hafsteinn Þórólfsson tónlistarmaður og tónskáld er fjörutíu og sjö ára gamall í dag, flestir þekkja hann eflaust best sem söngvara en hann söng m.a. Gay pride lagið 2003 (Ég er eins og ég er), þá hefur hann verið meðal þátttakenda í undankeppni Eurovision og sungið á nokkrum plötum – t.a.m. Eyjalög en Hafsteinn er ættaður úr Vestmannaeyjum og er sonur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis og tónlistarmanns.

Þá hefði Siguróli Geirsson kórstjóri og organisti (f. 1950) einnig átt þennan afmælisdag en hann lést árið 2001 aðeins ríflega fimmtugur. Siguróli var menntaður tónmennta- og blásarakennari og stundaði framhaldsnám í Þýskalandi m.a. í orgelleik. Hann kenndi tónlist víða um ævi sína en var þekktastur fyrir störf sín sem organisti víða um Suðurnesin, auk þess sem hann stjórnaði lúðrasveitum og kórum, m.a. Æskulýðskór Keflavíkurkirkju, Karlakórnum Þröstum, Selkórnum, Karlakór Keflavíkur, Barnakór Grindavíkurkirkju o.fl.

Vissir þú að Dátar hituðu upp fyrir bresku hljómsveitina Hollies þegar hún kom hingað til lands á sínum tíma?