Garðar Guðmundsson (1942-)

Garðar Guðmundsson

Garðar Guðmundsson er af fyrstu kynslóð rokksöngvara hér á landi og þótti sækja stíl sinn til Tommy Steele og Cliff Richards, hann söng með nokkrum af vinsælustu hljómsveitum gullaldartímabils rokksins. Garðar hætti söng um lok sjöunda áratugarins en birtist aftur löngu síðar þegar gullaldarárin voru rifjuð upp á rokksýningum á Broadway og slíkum skemmtistöðum og þá má segja að síðari hluti söngferils Garðars hafi hafist og hann hefur verið að syngja rokk langt fram á áttræðisaldurinn.

Garðar Víðir Guðmundsson er fæddur í Reykjavík 1942 en hann var aðeins fimmtán ára þegar hann kom fram með Hljómsveit Aage Lorange í Silfurtunglinu við Snorrabraut en þá tíðkuðust eins konar kynningar á ungum og efnilegum rokk- og dægurlagasöngvurum. Tveimur árum síðar, vorið 1959, kom hann aftur fram með Hljómsveit Árna Ísleifs og var þá auglýstur sem rokksöngvari, sama sumar kom hann fram með Rondó kvartettnum á dansleik en einnig hafði hann þá sungið með Fjórum jafnfljótum og Hljómsveit Skapta Ólafssonar.

Næstu árin hélt hann áfram að syngja á dansleikjum og rokkhátíðum, t.a.m. á söngvarakynningu með KK-sextettnum og á balli með Diskó kvintettnum en þá var hann farinn að skapa sér stíl sem eins konar Tommy Steele eftirherma en sá breski var þá vinsæll rokksöngvari. Í blaðaviðtali löngu síðar kvaðst Garðar hafa séð kvikmyndina The Tommy Steele story alls níu sinnum í Austurbæjarbíói.

Síðsumars 1961 hóf Garðar að syngja fastráðinn með hljómsveit en það var Flamingo kvintettinn sem hann starfaði með fram að áramótum. Sumarið 1962 gekk hann til liðs við Pónik og söng með þeirri sveit í nokkra mánuði en það var svo með Tónum sem hann varð einna þekktastur, þá var Shadows rokkið komið til sögunnar og var þá Tommy Steele lagður til hliðar og söngstíll Cliff Richards tekinn upp. Þegar Garðar hætti að syngja með Tónum tóku Gosar við og með þeirri sveit söng hann líklega lengst, hann kom einnig eitthvað fram með hljómsveitinni Geislum en síðasta sveit hans var J.J. kvintettinn sem hann starfaði með til áramótanna 1967-68 þegar hann hætti söng – í bili.

Garðar hvarf því að mestu úr sviðsljósinu, sinnti reyndar um tíma umboðsmennsku fyrir hljómsveitir en að öðru leyti dró hann sig í hlé algjörlega frá tónlistinni, hann varð reyndar nokkuð áberandi á félagslega sviðinu, hann stofnaði t.a.m. íþróttafélagið Gróttu á Seltjarnarnesi, var einn af stofnendum Taflfélags Seltirninga og varð kunnur knattspyrnudómari, aðalstarf hans var hins vegar til margra ára verslunarstjórastaða í Litaveri.

Árið 1976 setti Haukur Morthens á fót dagskrá þar sem hljómsveit hans lék á dansleikjum sem voru helgaðir „gömlu dögunum“ eins og það var orðað í auglýsingum, Garðar var þar meðal söngvara en segja má að þessi dagskrá hafi verið undanfari þeirra tónlistarhátíða sem nutu mikilla vinsælda einkum á níunda og tíunda áratugnum og höfðuðu til fortíðarþrár fólks á miðjum aldri.

Garðar á yngri árum

Það var einmitt á einni allra fyrstu slíku rokkhátíðinni sem haldin var vorið 1983 á veitingastaðnum Broadway sem segja má að síðari hluti söngferils Garðars hafi hafist, sú sýning naut mikilla vinsælda og var einnig farið með hana norður yfir heiðar. Þetta kveikti í Garðari og varð til þess að hann stofnaði tríóið Rokkbræður ásamt öðrum rokkhetjum fyrri ára, Stefáni Jónssyni oftast kenndan við Lúdó sextett og Þorstein Eggertsson rokksöngvara sem einnig var kunnur textahöfundur. Rokkbræður gáfu út eina plötu haustið 1985 og starfaði í fáein ár, það var í fyrsta sinn sem söngrödd Garðars heyrðist á plötu.

Garðar starfaði með fleiri hljómsveitum í kjölfarið, Burkar og Garðar var ein þeirra, sem og Ó.M. og Garðar sem einnig gekk undir nafninu Stuðbandið, og Stuðgæjar sem var mini-útgáfa af Stuðbandinu. Stuðbandið og Stuðgæjar hafa í raun starfað nánast fram á þennan dag en allar þessar sveitir voru í gamla rokkinu frá sjötta og sjöunda áratugnum.

Íslendingar á miðjum aldri höfðu fengið smjörþefinn af tónlistarhátíðum tengdum gullaldarárum rokksins og veitingamenn sáu fram á ýmis tækifæri í þeim efnum, þar sem boðið var upp á söngskemmtanir (oft með borðhaldi og dansleik á eftir). Garðar kom fram á mörgum slíkum rokkhátíðum og langt fram á nýja öld, Rokk ´93, Rokkstjörnur Íslands, Laugardagskvöldið á Gili, American graffiti, Rokk og ról í 50 ár og Frumherjar rokksins eru dæmi um slíkar sýningar á stöðum eins og Hótel Íslandi, Þórscafé, Salnum, Austubæ, Salnum og víðar. Hann hefur jafnframt sungið við annars konar tækifæri s.s. styrktartónleikum, jólatónleikum o.fl.

Garðar hefur einnig komið að gullaldartíma rokksins með annars konar hætti, hann var t.a.m. lengi með útvarpsþætti um rokkið á Aðalstöðinni, Útvarpi Rót og fleiri stöðvum. Ein plata (líklega óopinber útgáfa) hefur litið dagsins ljós með söng Garðars, hún ber titilinn Rokkárin: upptökur frá 1985-1998 en upplýsingar eru afar takmarkaðar um þá útgáfu, þá sendi hann frá sér lag í eigin nafni á safnplötunni Lagasafnið no. 5: Anno 1996 og auk þess sendi Stuðbandið frá sér lag á safnplötunni Lagasafnið 1: Frumafl árið 1992.

Efni á plötum