Dátar (1965-67 / 1973-74)

Dátar1

Dátar í dátabúningum sínum

Dátar voru ein þeirra hljómsveita sem telja má til minnisvarða um íslenskt bítl, aðeins fáeinar aðrar sveitir eins og Hljómar og Flowers geta gert tilkall til hins sama.

Dátar voru stofnaðir vorið 1965 og komu þeir fyrst fram í lok júní, gítarleikararnir Hilmar Kristjánsson og Rúnar Gunnarsson sem einnig söng, stofnuðu sveitina og fljótlega bættist bassaleikarinn Jón Pétur Jónsson í hópinn. Lengstan tíma tók að finna trommuleikara sem þeir sættu sig við en það varð að endingu Siglfirðingurinn Stefán Jóhannsson sem hreppti hlutverkið. Allir voru Dátarnir ungir að árum eða vel innan við tvítugt.

Sveitin vakti strax athygli en hún mun hafa notið leiðsagnar Þóris Baldurssonar (eins meðlima Savanna tríósins) fyrst um sinn, reyndar fengu Dátar svo mikinn meðbyr í upphafi að þeir voru fengnir auk annarra sveita til að hita upp fyrir bresku sveitina Brian Poole and the Tremoles sem hélt tónleika í Reykjavík sumarið 1965, aðeins mánuði eftir að Dátar komu fyrst fram.

Bróðir Hilmars gítarleikara, Þráinn annaðist umboðsmennsku fyrir Dáta og var upphaflega hugmyndin að sá fyrrnefndi yrði aðal andlit sveitarinnar, Rúnar stal hins vegar senunni og varð fljótlega einn þekktasti og vinsælasti söngvari bítlaæskunnar svo aðrir meðlimir féllu nokkuð í skuggann.

Dátar 4

Dátar í myndatöku fyrir fyrri plötu sína

Sveitin skartaði í upphafi forláta dátabúningum sem hún spilaði í en því var tekið nokkuð misjafnlega og þótti einhverjum sem það væri óviðeigandi, bítlajakkar tóku því fljótlega við af dátabúningunum.

Aftur voru Dátar kallaðir til er erlend bítlasveit, The Hollies, heimsótti landið í byrjun árs 1966, fljótlega eftir það hófu meðlimir sveitarinnar að vinna að lítilli plötu. Sú var tekin upp um vorið af Pétri Steingrímssyni í Ríkisútvarpinu, og eins og títt var á þeim tíma fékk útgefandinn, Svavar Gests hjá SG-hljómplötum, utanaðkomandi aðila til að semja lögin. Það var áðurnefndur Þórir Baldursson sem samdi þrjú lög af fjórum en síðasta lagið var erlendur slagari, Cadillac.

Platan kom út snemma um sumarið og sló rækilega í gegn, sérstaklega lagið Leyndarmál sem er enn eitt af einkennislögum sjöunda áratugarins en einnig nutu lögin Alveg ær og Kling klang mikilla vinsælda og hafa bæði orðið klassík æ síðan. Aðeins erlenda lagið, Cadillac þótti eiga illa við enda sungið á ensku og reyndar fékkst það ekki spilað í Ríkisútvarpinu af sömu ástæðu. Það þarf auðvitað ekki að taka fram að platan seldist gríðarlega vel og fékk mjög góða dóma, t.d. í Vikunni.

Platan kom sveitinni og ekki síður Rúnari söngvara á toppinn í íslensku tónlistarlífi og fylgdu Dátar velgengninni eftir með mikilli spilamennsku.

Hilmar gítarleikari var ekki sáttur við sitt hlutskipti og hætti um haustið 1966 en nokkrar vikur liðu áður en nýr meðlimur kom í hans stað, hann hét Magnús Magnússon.

Ljóst var að Dátar myndu gefa út aðra plötu og var strax farið að tala um stóra plötu í því samhengi, fyrst var þó tekin upp önnur lítil fjögurra laga plata sem gefin var út af SG-hljómplötum líkt og sú fyrri.

Dátar 1966

Dátar 1966

Hún var tekin upp af Pétri Steingrímssyni um vorið 1967 og að þessu sinni voru öll lögin eftir Rúnar Gunnarsson sem þarna steig sín fyrstu skref sem lagahöfundur, Þorsteinn Eggertsson samdi hins vegar textana en hann var eins konar hirðskáld sveitarinnar.

Þegar platan kom út var öllum ljóst tvennt, annars vegar að Dátar voru komnir á næsta stig – hins vegar að Rúnar væri efnilegur lagasmiður, en lögin fjögur fengu góðar viðtökur, einkum Gvendur á eyrinni sem varð geysilega vinsælt. Platan hlaut líka einróma gagnrýni en blaðamenn Vikunnar, Vísis og Tímans gáfu henni allir góða dóma.

Þarna hefði átt að stefna í sömu áttina, Dátar voru orðnir vinsælasta hljómsveit landsins, Karl J. Sighvatsson orgelleikari hafði gengið til liðs við sveitina stuttu eftir upptökurnar og lék með þeim í frægum sveitaballatúr í kringum landið, framtíðin hefði því átt að brosa við en þá kom fyrsta áfallið og alls ekki það síðasta sem nafn Dáta er tengt við, Magnús gítarleikari tók líf sitt.

Þrátt fyrir þetta áfall ákváðu Dátar að halda samstarfinu áfram, ætlunin var að taka upp stóra plötu sem fyrr segir og var Rúnar búinn að semja um tug laga á hana, en upptökur voru áætlaðar þá um haustið. En áður en til þess kom dundi næsta áfall yfir, Karl orgelleikari hætti í sveitinni til að stofna Flowers. Þar með fannst öðrum meðlimum sveitarinnar fótunum kippt undan sér og fljótlega eftir það hættu Dátar störfum öllum að óvörum.

Dátar 1

Dátar

Meðlimir sveitarinnar fóru hver í sína áttina, Karl stofnaði Flowers sem fyrr segir, Stefán trommuleikari gekk til liðs við Hljómsveit Ragnars Bjarnason, Jón Pétur í Roof tops og skömmu síðar birtist Rúnar í Sextett Ólafs Gauks.

Þótt Dátar gæfu aldrei út stóru plötuna komu tvö af lögum Rúnars út á öðrum vettvangi, annars vegar fengu Hljómar að nota lagið Peningar á breiðskífu sína en einnig notuðu Flowers lagið Glugginn, sem varð gríðarvinsælt.

Það fór ekki mjög hátt en nokkrum árum síðar endurreisti Hilmar (sá er hafði hætt í sveitinni 1966) Dáta, aðrir meðlimir hinna nýju Dáta eða Dáta II eins og þeir kölluðust stundum, voru Grímur Bjarnason trommuleikari, Ari Brimar Gústafsson bassaleikari og Guðmundur Daði Pétursson gítarleikari. Einhverjar mannabreytingar urðu í þessari sveit, Benedikt Már Torfason gítarleikari, Pétur Hjálmarsson bassaleikari og Þorgils Baldursson gítarleikari voru á einhverjum tímapunkti í Dátum II en ekki er ljóst hvernig þeim mannabreytingum var nánar háttar. Þessi útgáfa hljómsveitarinnar starfaði til vors 1974 eða í um ár.

Reyndar eru Dátar auglýstir í dagblöðum 1977 en ekki finnast neinar nánari heimildir eða skýringar á því, hvort sveitin var endurreist á nýjan leik og þá af hverjum.

En áföllum Dáta lauk ekki við starfslok sveitarinnar og er hreint með ólíkindum hvernig örlögin hafa tekið í taumana. Eins og mörgum er kunnugt tók Rúnar söngvari líf sitt 1972 eftir andleg veikindi og áföll sem hann varð fyrir, Hilmar gerði slíkt hið sama 1978, Karl lést í bílslysi 1991 og Stefán eftir langvinn veikindi 1992. Þannig er Jón Pétur bassaleikari eini meðlimur hinna fyrri Dáta sem enn er á lífi. Það má því segja að saga Dáta, sem hafði alla burði til að verða stærsta hljómsveit sjöunda áratugarins, hafi orðið hrein harmsaga.

Engum þarf að koma á óvart að þótt útgefin lög Dáta séu aðeins átta talsins, þá hafa þau komið út á tugum safnplatna í gegnum tíðina, þar má nefna safnplötur eins og Aftur til framtíðar, Óskastundin, Bítlar og blómabörn, Óskalögin, Stóra bílakassettan og Svona var það… serían

Efni á plötum