J.J. Quintet (1959-73)

JJ og Rúnar

J.J. og Rúnar 1962

Hljómsveit Jóns Erlings Jónssonar, J.J. Quintet/t (stundum einnig sextett þegar við átti) starfaði í á annan áratug og var meðal fremstu danshljómsveit landsins, m.a. mitt í þeim tónlistarhrærigraut sem sjöundi áratugurinn bauð upp á. Ýmsir söngvarar áttu eftir að koma við sögu sveitarinnar eins og venja var á þessum árum, og var hún iðulega kennd við þá s.s. J.J. Quintet og Þór, J.J. Quintet og Einar o.s.frv.

Það var 1959 sem Jón Erlings Jónsson píanóleikari (J.J.), Þorkell Snævar Árnason gítarleikari (og söngvari) og Þór Nielsen söngvari og gítarleikari sem áður höfðu starfað saman í hljómsveitinni Eron, stofnuðu J.J. Quintet en aðrir stofnmeðlimir munu hafa verið Þorleifur Gíslason saxófónleikari, Ólafur Benediktsson trommuleikari og Hilmar Arnar Hilmarsson bassaleikari.

Þannig skipuð starfaði sveitin í um tvö ár en þá hætti Þór söngvari og við tók Rúnar Guðjónsson. Hann söng með þeim næstu tvö árin en auk þess lék Bragi Einarsson saxófónleikari með þeim stundum. Um þetta leyti fóru J.J. Quintet og Rúnar til Færeyja en sveitin var jafnframt fyrsta erlenda sveitin sem heimsótti eyjarnar fyrir utan Hauk Morthens og hljómsveit hans, sem hafði farið þangað ári fyrr.

Vorið 1963 urðu miklar mannabreytingar í J.J. Quintet og má segja að Jón Erlings hafi skipt nánast um áhöfn eins og títt var með hljómsveitastjóra þess konar sveita, nýir meðlimir voru Haraldur Örn Arngrímsson gítarleikari, Rafn Sigurðsson bassaleikari, Benedikt Pálsson trommuleikari og Hans Kristjánsson saxófónleikari auk þess sem söngvarinn Einar Lúthersson tók við söngnum af Rúnari, um tíma kallaðist sveitin því J.J. Quintet og Einar.

JJ og Garðar

J. J. og Garðar

Önnur slík „skipting“ átti sér stað líklega 1965 eða 66 en þá komu nýir inn í hópinn, Finnur Torfi Stefánsson gítarleikari, Axel Einarsson bassaleikari og Garðar Guðmundsson söngvari, Benedikt og Jón voru áfram í bandinu en þeir Finnur Torfi og Axel voru þarna ekki orðnir tvítugir. Þannig skipuð virðist sem J.J. Quintet og Garðar hafi starfað til áramóta 1967-68 en þá hætti Garðar söngvari og hætti reyndar öllum söng um árabil.

Svo virðist sem eitthvert hlé hafi orðið á starfsemi sveitarinnar þarna um tíma og 1970 hafi hún byrjað aftur, meðlimir hennar voru þá auk Jóns, Hans Kristjánsson bassa- og saxófónleikari, Gunnar Ingólfsson trommuleikari og Bertha Biering söngkona. Gunnar Gunnarsson gítarleikari gæti einnig hafa verið í sveitinni á þessum tímapunkti. Þessi útgáfa sveitarinnar (J.J. Quintet og Bertha) starfaði líklega til 1972-73 og hætti þá.

Þar með má segja að sögu J.J. Quintet ljúki endanlega eftir liðlega tólf ára sögu. Sú saga hefur ekki staðið alveg samfleytt, auk hlésins fyrir síðustu útgáfu sveitarinnar hafa án nokkurs vafa verið aðrar styttri pásur.

JJ og Bertha

J.J. Quintet og Bertha

Víst er að fleiri meðlimir komu við sögu kvintettsins um skemmri tíma og alls urðu þeir á fjórða tug, Hörður Karlsson gítarleikari, Andrés Indriðason gítarleikari, Gunnar Þór Kárason trommuleikari, Jón Sigurðsson bassaleikari, Baldur Már Arngrímsson gítarleikari, Pétur Gunnarsson trommuleikari, Gunnar Bernburg bassaleikari, Júlíus Sigurðsson saxófónleikari, Sveinn Ingason gítarleikari, Reynir Harðarson trommuleikari og Jón Ármannsson gítarleikari munu allt vera dæmi um slíkt. Ekki liggur þó nákvæmlega fyrir hvenær fyrrgreindir meðlimir koma við sögu en allar ábendingar og upplýsingar um það eru vel þegnar.

J.J. Quintet var alla tíð fyrst og fremst danshljómsveit en elti síður strauma sem síðar komu, þannig þótti sveitin alltaf vera nokkuð á skjön við ungar bítlasveitir sem þá voru að ryðjast inn á markaðinn en hafði fyrir vikið ærið nóg að gera á árshátíðum, þorrablótum og þess konar samkomum sem sóttar voru af fólki á öllum aldri.

Einhverjar upptökur voru gerðar með sveitinni á sínum tíma en sveitin lék aldrei inn á plötur.