Íslensku tónlistarverðlaunin hafa verið veitt síðan 1993, verðlaunin eru þó ekki fyrst sinnar tegundar á Íslandi – Stjörnumessa var haldin í fáein skipti á áttunda áratug liðinnar aldar og eins hafa ýmsir fjölmiðlar gert tilraunir til slíkra verðlaunahátíða, þær hafa þó aldrei orðið langlífar. Menningarverðlaun ýmis konar eru þó undantekningar en þar er tónlist yfirleitt aðeins einn flokkur af mörgum.
Upphafið Íslensku tónlistarverðlaunanna má rekja til Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) en þar voru Stefán Hjörleifsson og Eiður Arnarsson við nám og komu þeim á laggirnar. Fyrstu árin var hátíðin eilítið laus í reipunum meðan verið var að þróa hugmyndina, einkum var á reiki hvernig flokkunin innan verðlaunanna ættu að vera og reyndar er hátíðin ennþá umdeild, og flokkarnir mismargir ár frá ári og í stöðugri þróun. Fyrst um sinn voru t.d. einungis veitt verðlaun í flokki „léttari“ tónlistar en smám saman hafa flokkar djasstónlistar og klassíkur (sígild og samtímatónlist) bæst við. Á síðustu árum hefur hátíðin því komist í fastari skorður.
Frá og með 2002 hefur Samtónn annast stjórn verðlaunanna, og frá 2001 hefur framkvæmdastjóri haldið utan um verkefnið, Einar Bárðarson 2001-04, Berglind María Tómasdóttir 2005-06 og Pétur Grétarsson frá árinu 2007.
Frá upphafi hafa Íslensku tónlistarverðlaunin heiðrað árlega tónlistarmann sem þykir hafa skarað fram úr og helgað ævi sinni tónlistinni.
Hér að neðan má sjá hverjum Íslensku tónlistarverðlaunin hafa fallið í skaut frá upphafi og er athygli vakin á því að við hvert ártal er í raun vísað til ársins á undan, þ.e. verðlaunahátíðin 1994 veitir viðurkenningar fyrir 1993 og svo koll af kolli. Hér gefst ekki rúm til að fjalla um allar tilnefningar.

Björgvin Halldórsson
1994
Fyrstu heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna féllu í skaut stórsöngvaranum Björgvini Halldórssyni. Á þessari fyrstu hátíð voru einungis veitt verðlaun í popp- og rokkgeiranum en það átti eftir að breytast. Segja má að hljómsveitin Todmobile hafi verið ótvíræður sigurvegari þessarar fyrstu hátíðar en flest verðlaun, fimm talsins, féllu í þeirra skaut. Þetta var í eina skiptið sem verðlaun fyrir „endurgerð ársins“ voru veitt en þar er átt við gamalt lag í nýjum búningi, annars féllu verðlaunin sem hér segir:
Lag ársins (popp/rokk): Stúlkan (lag Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, texti Andrea Gylfadóttir) í flutningi Todmobile
Plata ársins (popp/rokk): Bubbi Morthens – Það er gott að elska
Flytjandi ársins (popp/rokk): Todmobile
Söngvari ársins: Daníel Ágúst Haraldsson
Söngkona ársins: Björk Guðmundsdóttir
Hljómborðsleikari ársins: Eyþór Gunnarsson
Bassaleikari ársins: Eiður Arnarsson
Trommuleikari ársins: Gunnlaugur Briem
Gítarleikari ársins : Guðmundur Pétursson
Hljóðfæraleikari (önnur hljóðfæri): Sigtryggur Baldvinsson slagverksleikari
Lagahöfundur ársins: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson
Textahöfundur ársins: Andrea Gylfadóttir
Bjartasta vonin: Orri Harðarson
Endurgerð ársins: Jet Black Joe – Starlight

Ragnar Bjarnason
1995
1995 varð Ragnar Bjarnason annar í röð stórsöngvara til að hljóta heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna en verðlaun skiptust nokkuð jafnar nú en árið áður, Jet Black Joe hlaut þrenn verðlaun eins og Spoon en Todmobil-liðar hlutu tvenn. Í þetta skiptið voru tvenn verðlaun veitt björtustu voninni, hljómsveitar- og einstaklingsverðlaun. Nýr flokkur, djassleikari ársins leit dagsins ljós og átti sá flokkur eftir að verða stærri. Verðlaun voru sem hér segir:
Lag ársins (popp/rokk): Higher and higher (lag Gunnar Bjarni Ragnarsson, texti Páll Rósinkrans) í flutningi Jet Black Joe
Plata ársins (popp/rokk): Unun – Æ
Flytjandi ársins (popp/rokk): Jet Black Joe
Söngvari ársins: Páll Rósinkrans
Söngkona ársins: Emilíana Torrini
Hljómborðsleikari ársins: Jón Ólafsson
Bassaleikari ársins: Eiður Arnarsson
Trommuleikari ársins: Gunnlaugur Briem
Gítarleikari ársins: Guðmundur Pétursson
Hljóðfæraleikari ársins (önnur hljóðfæri): Kristján Kristjánsson kassagítar
Lagahöfundur ársins: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson
Textahöfundur ársins: Andrea Gylfadóttir
Bjartasta vonin: Spoon
Bjartasta vonin (einstaklingur): Emilíana Torrini
Djassleikari ársins: Eyþór Gunnarsson

Guðmundur Steingrímsson
1996
Í þriðja sinn sem Íslensku tónlistarverðlaunin voru veitt (1996) féllu heiðursverðlaunin í skaut Guðmundi Steingrímssyni slagverksleikara, sem fyrr var popp- og rokkgeirinn lang fyrirferðamestur en auk djassleikara ársins sem bæst hafði í hópinn árið áður voru nú einnig veitt verðlaun fyrir bestu plötuna í klassíkinni. Í stað hljóðfæraleikara ársins (önnur hljóðfæri) var nú kjörinn blásturshljóðfæraleikari ársins.
Björk Guðmundsdóttir hafði yfirburði þetta árið með útgáfu plötunnar Post, en alls hlaut hún fimm verðlaun, annars urðu verðlaunaafhendingar sem hér segir:
Lag ársins (popp/rokk): Army of me, samið og flutt af Björk Guðmundsdóttur
Plata ársins (popp/rokk): Björk Guðmundsdóttir – Post
Flytjandi ársins (popp/rokk): Björk Guðmundsdóttir
Söngvari ársins: Páll Óskar Hjálmtýsson
Söngkona ársins: Björk Guðmundsdóttir
Hljómborðsleikari ársins: Eyþór Gunnarsson
Bassaleikari ársins: Jóhann Ásmundsson
Trommuleikari ársins: Gunnlaugur Briem
Gítarleikari ársins: Guðmundur Pétursson
Blásturshljóðfæraleikari ársins: Óskar Guðjónsson saxófónleikari
Lagahöfundur ársins: Björk Guðmundsdóttir
Textahöfundur ársins: Kristján Kristjánsson (KK)
Bjartasta vonin: Botnleðja
Djassleikari ársins: Eyþór Gunnarsson píanóleikari
Plata ársins (klassík): Kristinn Sigmundsson og Jónas Ingimundarson – Schwangesang

Gunnar Þórðarson
1997
Íslensku tónlistarverðlaunin voru haldin í fjórða skiptið 1997 og var Gunnar Þórðarson tónlistarmaður og tónskáld nú handhafi heiðursverðlauna hátíðarinnar. Að öðru leyti má segja að Botnleðja (sem hafði unnið Músíktilraunir og gefið út plötu í kjölfarið) hafi verið sigurvegari þetta árið, en sveitin hlaut þrenn verðlaun. Safnplata tengd verðlaununum kom út og bar heitið Íslensku tónlistarverðlaunin 1997. Fyrirkomulag hátíðarinnar var hið sama og árið áður og skiptust verðlaun með eftirfarandi hætti:
Lag ársins (popp/rokk): Hausverkun, samið og flutt af Botnleðju
Plata ársins (popp/rokk): Botnleðja – Fólk er fífl
Flytjandi ársins (popp/rokk): Botnleðja
Söngvari ársins: Páll Rósinkrans
Söngkona ársins: Emilíana Torrini
Hljómborðsleikari ársins: Eyþór Gunnarsson
Bassaleikari ársins: Eiður Arnarsson
Trommuleikari ársins: Gunnlaugur Briem
Gítarleikari ársins: Friðrik Karlsson
Blásturshljóðfæraleikari ársins: Óskar Guðjónsson saxófónleikari
Lagahöfundur ársins: Máni Svavarsson, Friðrik Sturluson og Stefán Hilmarsson
Textahöfundur ársins: Megas
Bjartasta vonin: Anna Halldórsdóttir
Djassleikari ársins: Sigurður Flosason saxófónleikari
Plata ársins (klassík): Kristinn Árnason – Northern light/Sor ponce

Jón Múli Árnason
1998
Íslensku tónlistarverðlaunin voru haldin með pomp og prakt 1998 og hlaut Jón Múli Árnason leik-, tónskáld og djasstónlistarfrömuður heiðursverðlaunin að þessu sinni. Það bar helst til tíðinda að Björk endurtók leikinn frá því tveimur árum áður og hlaut flest verðlaun, hún hafði gefið út plötuna Homogenic á árinu. Tveir nýir verðlaunaflokkar litu dagsins ljós að þessu sinni, hljómsveit ársins og tónlistarviðburður ársins en verðlaun skiptust með þessum hætti:
Lag ársins (popp/rokk): Jóga, flutt og samið af Björk Guðmundsdóttur
Plata ársins (popp/rokk): Björk Guðmundsdóttir – Homogenic
Flytjandi ársins: Björk Guðmundsdóttir
Hljómsveit ársins: Maus
Söngvari ársins: Daníel Ágúst Haraldsson
Söngkona ársins: Björk Guðmundsdóttir
Hljómborðsleikari ársins: Jón Ólafsson
Bassaleikari ársins: Jakob Smári Magnússon
Trommuleikari ársins: Gunnlaugur Briem
Gítarleikari ársins: Friðrik Karlsson
Blásturshljóðfæraleikari ársins: Óskar Guðjónsson saxófónleikari
Lagahöfundur ársins: Björk Guðmundsdóttir
Textahöfundur ársins: Megas
Bjartasta vonin: Subterranean
Djassleikari ársins: Óskar Guðjónsson
Plata ársins (klassík): Bryndís Halla Gylfadóttir og Steinunn B. Ragnarsdóttir – Ljóð án orða
Tónlistarviðburður ársins: endurkoma Nýdanskrar

Magnús Eiríksson
1999
Árið 1999 var hátíðin haldin í sjötta skipti og fékk Magnús Eiríksson tónlistarmaður, tónskáld og textasmiður heiðursverðlaun að þessu sinni. Áberandi var að enginn skar sig úr hvað verðlaun snerti, aðeins hljómsveitirnar Botnleðja og Ensími hlutu tvenn verðlaun hvor. Annars skiptust verðlaun þannig:
Lag ársins (popp/rokk): Atari, samið og flutt af hljómsveitinni Ensími
Plata ársins (popp/rokk): Botnleðja – Magnyl
Flytjandi ársins (popp/rokk): Björk Guðmundsdóttir
Hljómsveit ársins (popp/rokk): Botnleðja
Söngvari ársins: Egill Ólafsson
Söngkona ársins: Selma Björnsdóttir
Hljómborðsleikari ársins: Eyþór Gunnarsson
Bassaleikari ársins: Skúli Sverrisson
Trommuleikari ársins: Matthías M.D. Hemstock
Gítarleikari ársins: Friðrik Karlsson
Blásturshljóðfæraleikari ársins: Jóel Pálsson saxófónleikari
Lagahöfundur ársins: Björn Jr. Friðbjörnsson
Textahöfundur ársins: Súkkat
Bjartasta vonin: Ensími
Djassleikari ársins: Eyþór Gunnarsson
Plata ársins (klassík): Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú) – Klassík
Tónlistarviðburður ársins: Popp í Reykjavík

Bubbi Morthens
2000
Íslensku tónlistarverðlaunin heiðruðu Bubba Morthens tónlistarmann fyrir sitt framlag til tónlistargyðjunnar árið 2000 en þetta var jafnframt síðasta skipti sem sérstök verðlaun voru veitt fyrir hljóðfæraleik. Að öðru leyti var þetta ár hljómsveitarinnar Sigur rósar, sveitin hlaut alls fimm verðlaun en verðlaun skiptust þannig:
Lag ársins (popp/rokk): Okkar nótt (lag Guðmundur Jónsson, texti Stefán Hilmarsson), flutt af Sálinni hans Jóns míns
Plata ársins (popp/rokk): Sigur rós – Ágætis byrjun
Flytjandi ársins (popp/rokk): Selma Björnsdóttir
Hljómsveit ársins (popp/rokk): Sigur rós
Söngvari ársisn (popp/rokk): Jón Þór Birgisson
Söngkona ársins (popp/rokk): Emilíana Torrini
Hljómborðsleikari ársins: Eyþór Gunnarsson
Bassaleikari ársins: Haraldur Þorsteinsson
Trommuleikari ársins: Daníel Þorsteinsson
Gítarleikari ársins: Jón Þór Birgisson
Blásturhljóðfæraleikari ársins: Jóel Pálsson saxófónleikari
Lagahöfundur ársins: Sigur rós
Textahöfundur ársins: Birgir Örn Steinarsson
Bjartasta vonin: Múm
Djassleikari ársins: Eyþór Gunnarsson
Plata ársins (klassík): Sinfóníuhljómsveit Íslands – Finlandia
Tónlistarviðburður ársins: Sálin hans Jóns míns 12. ágúst 1999
2001
Árið 2001 féllu Íslensku tónlistarverðlaunin niður, að sögn vegna áhugaleysis.

Jónas Ingimundarson
2002
Jónas Ingimundarson píanóleikari hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2002. Nokkrar breytingar höfðu orðið á flokkun verðlauna og þeim fækkað úr sautján í fjórtán, aukinheldur höfðu nú djass- og klassíski flokkurinn (sígild og samtímatónlist) hlotið meira vægi en innan þeirra hafði útnefningum verið fjölgað. Ennfremur voru nú veitt verðlaun fyrir plötu ársins í flokknum „Annað“. XXX Rottweiler hundar urðu hvað fyrirferðamestir hvað verðlaun snertir þetta árið verðlaunaskiptingin varð með eftirfarandi hætti:
Lag ársins (popp/rokk): Á nýjum stað (lag Guðmundar Jónssonar við texta Stefáns Hilmarssonar) flutt af hljómsveitinni Sálin hans Jóns míns
Plata ársins (popp/rokk): XXX Rottweiler hundar – XXX Rottweiler hundar
Flytjandi ársins (popp/rokk): XXX Rottweiler hundar
Söngvari ársins: Stefán Hilmarsson
Söngkona ársins: Björk Guðmundsdóttir
Myndband ársins: Sigur rós – Viðrar vel til loftárása
Bjartasta vonin: XXX Rottweiler hundar
Tónverk ársins (djass): Serenity eftur Hilmar Jensson
Plata ársins (djass): Jóel Pálsson – Klif
Flytjandi ársins (djass): Sigurður Flosason
Plata ársins (sígild/samtímatónlist): Finnur Bjarnason og Örn Magnússon – Jón Leifs: söngvar
Flytjandi ársins (sígild/samtímatónlist): Hörður Áskelsson og Mótettukórinn
Tónverk ársins (sígild/samtímatónlist): Víólukonsert eftir Kjartan Ólafsson
Plata ársins (annað): Jagúar – Get the funk out

Ingibjörg Þorbergs
2003
Árið 2003 féllu heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna í skaut Ingibjargar Þorbergs en hún var fyrst kvenna til að hljóta þá viðurkenningu. Enginn skar sig sérstaklega úr hvað verðlaunaafhendingar varðaði en tveir nýir flokkar, poppstjarna ársins og hvatningarverðlaun Samtóns, litu dagsins ljós. Verðlaun skiptust sem hér segir:
Lag ársins (popp/rokk): Julietta 2 (lag Ske, texti Guðmundur Steingrímsson, Eiríkur Þórleifsson, Juri Hashimoto og Sawa), flutt af hljómsveitinni Ske
Plata ársins (popp/rokk): Sigur rós – ( )
Flytjandi ársins (popp/rokk): Sigur rós
Söngvari ársins: Arnar Guðjónsson
Söngkona ársins: Hera Hjartardóttir
Myndband ársins: Singapore Sling – Listen
Bjartasta vonin: Búdrýgindi
Poppstjarna ársins: Birgitta Haukdal
Tónverk ársins (djass): Weeping rock eftir Skúla Sverrisson og Eyvind Kang
Plata ársins (djass): Jóel Pálsson – Septett
Flytjandi ársins (djass): Óskar Guðjónsson og Skúli Sverrisson
Plata ársins (sígild/samtímatónlist): Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Kari Kropsu – Baldr e. Jón Leifs
Flytjandi ársins (sígild/samtímatónlist): Hamrahlíðarkórinn undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur
Tónverk ársins (sígild/samtímatónlist): Barn er oss fætt eftir John Speight
Plata ársins (annað): Óskar Guðjónsson og Skúli Sverrisson – Eftir þögn
Hvatningarverðlaun Samtóns: Hr. Örlygur
Vefsetur ársins: bjork.com

Jórunn Viðar
2004
Svo virðist sem aðstandendur Íslensku tónlistarverðlaunanna hafi áttað sig á vægi kvenna í íslenskri tónlist því annað árið í röð hlaut kona heiðursverðlaunin þegar Jórunn Viðar hlaut þau 2004, en hátíðin var þá haldin í tíunda skiptið. Ein ný viðurkenning leit dagsins ljós að þessu sinni, útrásarverðlaunin Reykjavík/Loftbrú sem er styrkur veittur aðila í tónlistarútrás.
Ekkert eitt stóð upp úr að þessu sinni, Tómas R. Einarsson hlaut þó tvenn verðlaun í djassgeiranum eins og Eivör Pálsdóttir í popp/rokk flokknum. Viðurkenningar ársins féllu sem hér segir:
Lag ársins (popp/rokk): Ást (lag Magnúsar Þórs Sigmundssonar við ljóð Sigurðar Nordal), flutt af Ragnheiði Gröndal
Plata ársins (popp/rokk): Mínus – Halldór Laxness
Flytjandi ársins (popp/rokk): Eivör Pálsdóttir
Söngvari ársins (popp/rokk): Stefán Hilmarsson
Söngkona ársins (popp/rokk): Eivör Pálsdóttir
Myndband ársins: Sigur rós – #1#
Bjartasta vonin: Ragnheiður Gröndal
Poppstjarna ársins: Birgitta Haukdal
Tónverk ársins (djass): Bros eftir Tómas R. Einarsson
Plata ársins (djass): Tómas R. Einarsson – Havana
Flytjandi ársins (djass): Björn Thoroddsen
Plata ársins (sígild/samtímatónlist): Kammersveit Reykjavíkur – Brandenborgarkonsertar Bach
Flytjandi ársins (sígild/samtímatónlist): Sinfóníuhljómsveit Íslands og konsertmeistararnir Guðný Guðmundsdóttir og Sigrún Eðvaldsdóttir
Tónverk ársins (sígild/samtímatónlist): Konsert fyrir klarinettur og blásarasveit eftir Tryggva M. Baldvinsson
Plata ársins (ýmis tónlist): Guðrún Gunnarsdóttir – Óður til Ellyjar
Hvatningarverðlaun Samtóns: Tónlist.is
Útflutningsverðlaunin Reykjavík/loftbrú: Mínus

Helga Ingólfsdóttir
2005
Árið 2005 hlaut Helga Ingólfsdóttir semballeikari heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna. Þetta ár bættust við nokkrir flokkar sem tengdust plötum ársins í hinum ýmsum tegundum tónlistar. Einnig voru nú veitt verðlaun í fyrsta skipti fyrir besta plötuumslagið. Verðlaun og viðurkenningar urðu með þessum hætti:
Lag ársins (popp/rokk) Murr Murr (eftir Örn Elías Guðmundsson (Mugison), flutt af Mugison
Plata ársins (popp): Mugison – Mugimama, is this Mugimusic?
Plata ársins (rokk): Hjálmar – Hljóðlega af stað
Plata ársins (dægurtónlist): Ragnheiður Gröndal – Vetrarljóð
Plata ársins (ýmis tónlist): Ellen Kristjánsdóttir – Sálmar
Flytjandi ársins: Jagúar
Söngvari ársins: Páll Rósinkrans
Söngkona ársins: Ragnheiður Gröndal
Myndband ársins: Björk Guðmundsdóttir – Oceana
Bjartasta vonin: Hjálmar
Umslag ársins: Mugison – Mugimama, is this monkey music?
Plata ársins (djass): Sammi & Tómas R & stórsveitin Jagúar – Dansaðu fíflið þitt dansaðu!
Tónverk ársins (djass): Ástin eftir Tómas R. Einarsson
Flytjandi ársins (djass): Samúel Jón Samúelsson og stórsveitin Jagúar
Tónverk ársins (sígild/samtímatónlist): Sinfónía eftir Þórð Magnússon
Plata ársins (sígild/samtímatónlist): Bryndís Halla Gylfadóttir og Edda Erlendsdóttir – Verk fyrir selló og píanó
Flytjandi ársins (sígild/samtímatónlist): Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari
Bjartasta vonin (sígild/samtímatónlist): Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari
Hvatningarverðlaun Samtóns: Ágúst Einarsson fyrir bókina Hagræn áhrif tónlistar
Útflutningsverðlaunin Reykjavík/loftbrú: Barði Jóhannesson og Bang Gang

Guðmundur Jónsson
2006
Árið 2006 hlaut Guðmundur Jónsson stórsöngvari heiðurverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna, Emilíana Torrini hlaut flest verðlaun en önnur verðlaun og viðurkenningar skiptust eftirfarandi:
Lag og texti ársins: Pabbi þarf að vinna, samið og flutt af Baggalúti og Rúnari Júlíussyni
Plata ársins (fjölbreytt tónlist): Emilíana Torrini – Fisherman‘s woman
Plata ársins (rokk/jaðar): Sigur rós – Takk
Plata ársins (dægurtónlist): Bubbi Morthens – Ást / …í 6 skrefa fjarlægð frá paradís
Plata ársins (ýmis tónlist): Benni Hemm Hemm – Benni Hemm Hemm
Flytjandi ársins: Sigur rós
Söngvari ársisn: Bubbi Morthens
Söngkona ársins: Emilíana Torrini
Myndband ársins: Emilíana Torrini – Sunny road
Bjartasta vonin: Benni Hemm Hemm
Umslag ársins: Sigur rós – Takk
Plata ársins (djass): Kvartett Sigurðar Flosasonar – Leiðin heim
Tónverk ársins (djass): Cold front – Cold front
Flytjandi ársins (djass): Stórsveit Reykjavíkur
Tónverk ársins (sígild/samtímatónlist): Ardente eftir Hauk Tómasson
Plata ársins (sígild/samtímatónlist): Helga Ingólfsdóttir – Frá strönd til fjarlægra stranda
Flytjandi ársins (sígild/samtímatónlist): Íslenska óperan fyrir flutning á Tökin hert eftir Benjamin Britten
Hvatningarverðlaun Samtóns: Kópavogsbær

Ólafur Gaukur Þórhallsson
2007
Á Íslensku tónlistarverðlaununum 2007 hlaut Ólafur Gaukur Þórhallsson gítarleikari og tónlistarmaður heiðursverðlaunin en tvenns konar nýjar vinsældakosningar litu nú dagsins ljós, annars vegar kjör vinsælasta lagsins á Tónlist.is og hins vegar kosning vinsælasta flytjandans á Vísir.is. Plata var gefin út í tenglum við Íslensku tónlistarverðlaunin að þessu sinni og hét hún Íslensku tónlistarverðlaunin 2006: The Icelandic Music Awards. Skipting verðlauna varð eftirfarandi:
Lag ársins (fjölbreytt tónlist): Ghostigial – Not clean
Plata ársins (popp): Hafdís Huld – Dirty paper cup
Plata ársins (dægurtónlist): Baggalútur – Aparnir í Eden
Plata ársins (rokk/jaðar): Pétur Ben. – Wine for my weakness
Plata ársins (ýmis tónlist): Skúli Sverrisson – Sería
Flytjandi ársins: Björgvin Halldórsson
Söngvari ársins: Bubbi Morthens
Söngkona ársins: Lay Low
Myndband ársins: Reynir Lyngdal og Trabant fyrir Trabant – the one
Bjartasta vonin: Elfa Rún Kristinsdóttir fiðluleikari
Umslag ársins: Villi Warén fyrir Lay Low – Please don‘t hate me
Plata ársins (djass): Jóel Pálsson – Varp
Tónverk ársins (djass): Líf eftir Einar Val Scheving
Flytjandi ársins (djass): Útlendingahersveitin
Tónverk ársins (sígild/samtímatónlist): Fiðlukonsert eftir Áskel Másson
Plata ársins (sígild/samtímatónlist): Voces Thules – Þorlákstíðir
Flytjandi ársins (sígild/samtímatónlist): Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari
Hvatningarverðlaun Samtóns: Hannes Smárason
Vinsælasta lagið á Tónlist.is: Jeff Who – Barfly
Vinsælasti flytjandinn á Vísir.is: Lay Low

Rúnar Júlíusson
2008
Íslensku tónlistarverðlaunin voru veitt í fjórtánda skiptið árið 2008 og hlaut Rúnar Júlíusson heiðurverðlaunatitilinn það árið. Verðlaun skiptust almennt nokkuð jafnt en árið var klárlega ár Páls Óskars Hjálmtýssonar. Rykið var dustað af tveimur flokkum sem ekki höfðu verið verðlaunaðir um árabil, laga- og textahöfundar ársins en einnig voru nú veitt verðlaun fyrir kvikmynda- og sjónvarpstónlist. Eftirtalin verðlaun voru veitt 2008:
Lag ársins (fjölbreytt tónlist): Verum í sambandi (e. Snorra Helgason og Berg Ebba Benediktsson), flutt af Sprengjuhöllinni
Plata ársins (rokk/jaðar): Mugison – Mugiboogie
Plata ársins (popp/dægurtónlist): Megas og Senuþjófarnir – Frágangur/Hold er mold
Plata ársins (ýmis tónlist): Ólöf Arnalds – Við og við
Flytjandi ársins (fjölbreytt tónlist): Björk Guðmundsdóttir
Söngvari ársins: Páll Óskar Hjálmtýsson
Söngkona ársins: Björk Guðmundsdóttir
Myndband ársins: Gísli Darri og Bjarki Rafn fyrir The great unrest með Mugison
Bjartasta vonin: Hjaltalín
Lagahöfundur ársins: Högni Egilsson
Textahöfundur ársins: Bergur Ebbi Benediktsson
Kvikmynda/sjónvarpstónlist ársins: Pétur Ben. fyrir kvikmyndina Foreldrar
Plötuumslag ársins: Alli metall og Kjartan Hallur fyrir Mugison – Mugiboogie
Plata ársins (djass): Einar Scheving – Cycles
Tónverk ársins (djass): Daboli eftir Agnar Má Magnússon
Flytjandi ársins (djass): Sigurður Flosason
Tónverk ársins (sígild/samtímatónlist): Apocrypha eftir Huga Guðmundsson
Plata ársins (sígild/samtímatónlist): Kammerkórinn Carmina – Melódía
Flytjandi ársins (sígild/samtímatónlist): Kammersveitin Ísafold
Hvatningarverðlaun Samtóns: Björgólfur Guðmundsson
Verðlaun Tónlist.is: Páll Óskar Hjálmtýsson
Vinsældarverðlaun Visir.is: Páll Óskar Hjálmtýsson
Útflutningsverðlaun Reykjavík/loftbrú: Kvartett Sigurðar Flosasonar og Jóels Pálssonar

Ingólfur Guðbrandsson
2009
Að þessu sinni hlaut Ingólfur Guðbrandsson tónlistarfrömuður heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna, flokkum hafði nú verið fækkað nokkuð en verðlaun skiptust sem hér segir:
Lag ársins (popp/rokk): Þú komst við hjartað í mér eftir Pál Óskar Hjálmtýsson, Þorgrím Haraldsson (Togga) og Bjarka Jónsson
Plata (popp/rokk) ársins: Sigur rós – Með suð í eyrum við spilum endalaust
Tónlistarflytjandi ársins: Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari
Rödd ársins: Emilíana Torrini
Myndband ársins: Björk og Encyclopedia Pictura – Wanderlust
Bjartast vonin: Agent fresco
Höfundar ársins: Sigur rós – Með suð í eyrum við spilum endalaust
Umslag ársins: Kate von Harreveld og Helgi Þórsson fyrir plötu Evil Madness – Demoni paradise
Plata ársins (djass): Ómar Guðjónsson – Fram af
Tónverk ársins: ORA eftir Áskel Másson
Plata ársins (sígild/samtímatónlist): Jóhann Jóhannsson – Fordlandia
Hvatningarverðlaun Samtóns: Músíktilraunir
Verðlaun Tónlist.is: Baggalútur
Vinsældarverðlaun Visir.is: Baggalútur
Útflutningsverðlaun Reykjavík/loftbrú: Mugison

Jón Nordal
2010
Jón Nordal tónskáld hlaut heiðursnafnbót Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2010 en þau voru þá veitt í sextánda skipti. Enn fækkaði verðlaunaflokkum hátíðarinnar en skipting verðlauna varð eftirfarandi:
Lag ársins (popp/rokk): Dreamin‘ eftir Rósu Birgittu Ísfeld og Einar Tönsberg, flutt af höfundum (undir nafninu Feldberg)
Plata ársins (popp/rokk): Hjaltalín – Terminal
Tónlistarflytjandi ársins: Davíð Þór Jónsson hljómborðsleikari
Rödd ársins: Sigríður Thorlacius
Bjartasta vonin: Sudden Weather change
Höfundur ársins: Daníel Bjarnason – Processions
Umslag ársins: Arnar Ingi Viðarsson, Kári Halldórsson og Kolbeinn Hugi Höskuldsson fyrir Retrön – Swordplay and guitarslay
Plata ársins (djass): ADHD – Adhd
Tónverk ársins: Bow to string eftir Daníel Bjarnason
Plata ársins (sígild/samtímatónlist): Edda Erlendsdóttir og Sinfóníuhljómsveit Íslands – Haydn píanókonsertar
Vinsældakosning Tónlist.is: Dikta
Verðlaun Tónlist.is: Ólöf Arnalds
Útflutningsverðlaun Reykjavík/loftbrú: Emilíana Torrini

Þórir Baldursson
2011
Árið 2011 var Þórir Baldursson tónlistarmaður heiðraður fyrir framlag sitt á Íslensku tónlistarverðlaununum en þetta árið bar svo til að enginn skaraði fram úr við verðlaunaafhendingar. Skipting verðlauna var eftirfarandi:
Lag ársins (popp/rokk): Hamingjan er hér eftir Jónas Sigurðsson, flutt af höfundi
Plata ársins (popp/rokk): Jónsi – Go
Flytjandi ársins: Ágúst Ólafsson söngvari og Gerrit Schuil píanóleikari
Rödd ársins: Kristinn Sigmundsson
Bjartasta vonin: Ari Bragi Kárason trompetleikari
Tónhöfundur ársins: Ólöf Arnalds – Innundir skinni
Textahöfundur ársins: Bjartmar Guðlaugsson
Umslag ársins: Sigurður Eggertsson fyrir Orgelkvartettinn Apparat – Pólýfónía
Plata ársins (jazz): Jóel Pálsson – Horn
Tónverk ársins: Anna Þorvaldsdóttir – Hrím
Hljómplata ársins (sígild/samtímatónlist): Kammerkórinn Carmina, Nordic Affect og Árni Heimir Ingólfsson –
Hymnodia Sacra: Íslenskt sálmasafn frá 18. öld
Vinsældakosning Tónlist.is: Dikta
Verðlaun Tónlist.is: Iceland Airwaves
Útflutningsverðlaun Reykjavík/loftbrú: Mezzoforte

Magnús Þór Jónsson (Megas)
2012
2011 var klárlega ár Mugisons en hann hlaut flest verðlauna á hátíðinni sem haldin var á hlaupársdaginn, 29. febrúar 2012, hann hafði hlotið flestar tilnefningar ásamt Gus Gus. Megas (Magnús Þór Jónsson) hlaut heiðursverðlaunin að þessu sinni, það vakti nokkra athygli fáum dögum fyrir hátíðina í sjónvarpsviðtali þegar hann upplýsti að hann hefði í raun fengið viðurkenninguna nokkrum árum áður en neitað að taka við henni þar sem hann vildi ekki taka í höndina á þáverandi ráðherra, Finni Ingólfssyni, sem þá átti að veita verðlaunin.
Nokkuð hafði fjölgað aftur í flokkum á tónlistarhátíðinni og t.a.m. voru nú veitt verðlaun eftir nokkurt hlé fyrir besta myndbandið, skipting verðlaunanna varð hins vegar eftirfarandi:
Plata ársins (popp/rokk): Mugison – Haglél
Lag ársins (popp/rokk): Stingum af – Mugison
Lagahöfundur ársins (popp/rokk): Mugison
Textahöfundur ársins: Mugison
Söngvari ársins (popp/rokk/djass/blús): Daníel Ágúst Haraldsson
Söngkona ársins (popp/rokk/djass/blús): Andrea Gylfadóttir
Bjartasta vonin (popp/rokk/blús) (valið á Rás 2): Of monsters and men
Umslag ársins: Hjálmar – Órar (hannað af Bobby Breiðholt og Joninu de la Rosa)
Flytjandi ársins (popp/rokk/djass/blús): Björk
Tónlistarmyndband ársins: Sóley – Smashed birds (í leikstjórn Ingibjargar Birgisdóttur)
Vinsældakosning mbl.is: Mugison
Tónlistarviðburður ársins: Biophilia Bjarkar í Hörpu
Plata ársins (djass/blús): Stórsveit Reykjavíkur – HAK
Tónhöfundur ársins (djass/blús): Sigurður Flosason
Tónverk ársins (djass/blús): Austurver eftir Kjartan Valdemarsson (af plötunni HAK með Stórsveit Reykjavíkur)
Hljómplata ársins (sígild/samtímatónlist): Anna Þorvaldsdóttir – Rizhoma
Tónverk ársins (sígild/samtímatónlist): Moldarljós eftir Hauk Tómasson
Tónhöfundur ársins (sígild/samtímatónlist): Anna Þorvaldsdóttir
Flytjandi ársins (sígild/samtímatónlist): Víkingur Heiðar Ólafsson
Söngvari ársins (sígild/samtímatónlist): Kristinn Sigmundsson
Söngkona ársins (sígild/samtímatónlist): Sigrún Hjálmtýsdóttir
Bjartasta vonin (sígild/samtímatónlist/djass) (valið á Rás 1): Benedikt Kristjánsson
Sérstök viðurkenning dómnefndar: Einar Scheving – Land míns föður

Þorgerður Ingólfsdóttir
2013
Þegar Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir árið 2012 voru veitt snemma árs 2013 í Silfurbergi í Hörpu, var fátt sem kom á óvart. Ásgeir Trausti og Retro Stefson voru óneitanlega áberandi á sviðinu í popp/rokk flokknum en Víkingur Heiðar Ólafsson kom, sá og sigraði í klassíkinni. Annars komu heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna að þessu sinni í hlut Þorgerðar Ingólfsdóttur fyrir starf sitt í þágu íslenskrar tónlistar og ekki síst fyrir framlag sitt sem stjórnandi Hamrahlíðarkórsins, sem hún hefur stýrt frá stofnun 1967.
Annars féllu verðlaunin sem hér segir:
Plata ársins (popp/rokk): Ásgeir Trausti – Dýrð í dauðaþögn
Lag ársins (popp/rokk): Retro Stefson – Glow
Lagahöfundur ársins (popp/rokk): Moses Hightower
Textahöfundur ársins: Andri Ólafsson og Steingrímur Teague (Moses Hightower)
Söngvari ársins (popp/rokk/djass/blús): Valdimar Guðmundsson
Söngkona ársins (popp/rokk/djass/blús): Andrea Gylfadóttir
Bjartasta vonin (popp/rokk/blús): Ásgeir Trausti
Umslag ársins: Ojba Rasta – Ojba Rasta (hannað af Ragnari Fjalar Lárussyni)
Flytjandi ársins (popp/rokk/djass/blús): Retro Stefson
Tónlistarmyndband ársins: Retro Stefson – Glow (í leikstjórn Magnúsar Leifssonar)
Tónlistarviðburður ársins: Reykjavík Midsummer Music
Plata ársins (djass/blús): Skúli Sverrisson og Óskar Guðjónsson – The box tree
Tónhöfundur ársins (djass/blús): Agnar Már Magnússon
Tónverk ársins (djass/blús): Bjartur eftir Tómas R. Einarsson
Hljómplata ársins (sígild/samtímatónlist): Kristinn Sigmundsson og Víkingur Heiðar Ólafsson – Vetrarferðin
Tónverk ársins (sígild/samtímatónlist): Orkestur eftir Huga Guðmundsson
Tónhöfundur ársins (sígild/samtímatónlist): Daníel Bjarnason
Flytjandi ársins (sígild/samtímatónlist): Víkingur Heiðar Ólafsson
Söngvari ársins (sígild/samtímatónlist): Gissur Páll Gissurarson
Söngkona ársins (sígild/samtímatónlist): Hulda Björk Garðarsdóttir
Bjartasta vonin (sígild/samtímatónlist/djass): Jóhann Már Nardeau trompetleikari
Upptökustjóri ársins: Guðmundur Kristinn Jónsson
Lítill fugl (afhent þeim fjölmiðlamanni sem þykir hafa stutt vel við íslenska tónlist): Ólafur Páll Gunnarsson
Vinsældakosning Tónlist.is: Ásgeir Trausti
Netkosning Tónlist.is: Ásgeir Trausti
Sérstök viðurkenning Loftbrúar fyrir góðan árangur erlendis: Sólstafir
Nýsköpunarverðlaun Rogastans: Reykjavík Midsummer Music
Sérstök viðurkenning dómnefndar: Kjuregej Alexandra fyrir plötuna Lævirkinn
Íslensku tónlistarverðlaunin hafa fyrir löngu öðlast sess meðal tónlistaráhugafólks og er sýnir ágætlega þverskurðinn af því sem íslenskt tónlistarfólk er að gera, einkum eftir að vægi djass og sígildrar/samtímatónlistar var aukið. Þau hafa þó oft verið umdeild einmitt vegna flokkunar tónlistarinnar, og orðið tilefni blaðaskrifa. Einnig þótti mönnum um tíma vægi popptónlistarinnar á kostnað annarrar tónlistar heldur mikið, Jón Þórarinsson tónskáld ritaði t.a.m. blaðagrein 1997 þar sem hann gagnrýndi notkun á hugtakinu Íslensku tónlistarverðlaunin þar sem hátíðin næði einungis til popptónlistar en á sama tíma voru verðlaun veitt fyrir íslenska tónlist í tengslum við menningarverðlaun DV, þar voru eingöngu „æðri“ tónlistarmenn heiðraðir. Þess má geta að DV kom einnig að Íslensku tónlistarverðlaununum á þeim tíma.
Fjarvera tónlistarmanna á Íslensku tónlistarverðlaununum hefur einnig verið fólki hugleikin, Megas hefur t.a.m. aðeins einu sinni verið viðstaddur hátíðina og Bubbi Morthens sjaldan þrátt fyrir tilnefningar og verðlaun. Einnig hefur Björk Guðmundsdóttir sjaldnast mætt á hana en fáir hafa unnið jafn oft til verðlauna og hún.
Verðlaunagripir hátíðarinnar voru einnig umdeildir um tíma (fyrir aldamótin) en þeir þóttu frámunalega ljótir, kallaðir kuðungarnir og voru unnir úr gifsi, þeir áttu til að brotna við minnstu snertingu og í einhverjum tilfellum komust þeir aldrei út úr húsinu sem hátíðin var haldin í.
Þrátt fyrir allt hefur umgjörð Íslensku tónlistarverðlaunin breyst til batnaðar, brugðist hefur verið við gagnrýni og nú er svo komið að flestir eru sáttir við hátíðina. Það verður þó væntanlega alltaf þannig að hægt verður að gagnrýna einstök smáatriði, t.d. að verið sé að sjónvarpa úr hálftómum tónleikasal, að verið sé að keppa í listum og svo framvegis en verðlaunahátíð á borð við Íslensku tónlistarverðlaunin á og mun alltaf eiga rétt á sér.