Blúskompaníið (1967-)

Blúskompaníið 1984

Blúskompaníið er elsta blússveit landsins, brautryðjandi í blústónlist hérlendis, hefur starfað með hléum um langan tíma og er eftir því best verður komist enn starfandi.

Þeir Magnús Eiríksson gítarleikari og Erlendur Svavarsson trommuleikari höfðu starfað saman í hljómsveitinni Pónik um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar en voru hættir í þeirri sveit þegar þeir voru farnir að prófa sig áfram með blústónlist í kringum 1967. 1968 bættist Jón Garðar Elísson bassaleikari í hópinn og urðu þeir þrír kjarni þess sem síðar hlaut nafnið Blúskompaníið, stundum einnig kallað The Blues company. Hugmyndir eins og Blue goose voru lagðar til hliðar.

Sveitin hóf að leika saman blúskvöldum og í blábyrjun var Sigurður Rúnar Jónsson (Diddi fiðla) einnig með þeim félögum en hann spilaði á orgel og fiðlu. Hann hætti þó fljótlega og eftir það hóaði tríóið í menn eftir þörf og hentisemi.

Jón Garðar bassaleikari sneri sér að öðrum verkefnum eftir nokkurn tíma og tók nafni hans, Jón Kristinn Cortes við bassaleikarahlutverkinu. Erlendur trommari flutti erlendis um miðjan áttunda áratuginn og hætti þá og síðan hafa hinir og þessir trommuleikarar komið við sögu sveitarinnar. Magnús Eiríksson er því eini meðlimur Blúskompanísins sem hefur verið með frá upphafi.

Blúskompaníið lék oft í Silfurtunglinu þar sem sveitin hafði einnig æfingaaðstöðu en síðar var hún mikið viðloðandi Klúbbinn en þar var starfræktur blúsáhugamannaklúbburinn Blue note sem meðlimir sveitarinnar voru reyndar í forsvari fyrir.

Oft hefur staðið til að gefa út plötu með Blúskompaníinu en aldrei orðið af því, reyndar gengur sá orðrómur um að fullunnin plata sé til án þess að hún hafi verið gefin út, tvö lög liggja þó útgefin með sveitinni á safnplötum, annars vegar á Pop festival ´70 (1970) og hins vegar Kæra Höfn (1997).

Sem vonlegt er hafa fjölmargir komið við sögu Blúskompanísins, sumir hafa verið lengi í sveitinni á meðan aðrir hafa staldrað styttra við, hér eru nefndir Karl J. Sighvatsson orgelleikari, Magnús Kjartansson orgelleikari, Guðmundur Ingólfsson píanóleikari, Úlfar Sigmarsson orgelleikari, Kristinn Svavarsson saxófónleikari, Þórir Baldursson orgelleikari, Baldur Már Arngrímsson gítarleikari, Guðmundur Haukur Jónsson hljómborðsleikari, Björn Björnsson trommuleikari, Sigfús Óttarsson trommuleikari, Pálmi Gunnarsson bassaleikari, Sigurður Karlsson trommuleikari, Stefán Már Magnússon gítarleikari, Rúnar Georgsson saóxófnleikari, Þórir Úlfarsson hljómborðsleikari, Grétar Örvarsson orgelleikari, Eyþór Gunnarsson hljómborðsleikari, Ásgeir Óskarsson trommuleikari, Jens Hansson saxófónleikari, Benedikt Brynleifsson trommuleikari, Gunnlaugur Briem trommuleikari, Agnar Már Magnússon píanóleikari, Kristján Edelstein gítarleikari, Sigurður Sigurðsson munnhörpuleikari, Sigurður Reynisson trommuleikari, Þorsteinn Magnússon gítarleikari, Jon Kjell Seljeseth hljómborðsleikari, Tryggvi J. Hübner gítarleikari, Kristján Kristjánsson (KK) munnhörpuleikari og Birgir Baldursson trommuleikari. Þá hafa söngvarar eins og Bubbi Morthens; Hrund Ósk Árnadóttir og Ellen Kristjánsdóttir sungið með bandinu og efalaust margir fleiri, en þess má geta að aðrir meðlimir sveitarinnar hafa annast sönginn einnig.