Íslenski kórinn í Lundi (1991-)

Íslenski kórinn í Lundi

Blandaður kór skipaður Íslendingum hefur verið starfandi í Lundi í Svíþjóð síðan 1991, með litlum eða engum hléum.

Það var sumarið 1991 sem kórinn var formlega stofnaður en hann hefur frá upphafi gengið undir nafninu Íslenski kórinn í Lundi, líklega hafði hann þó óformlega verið starfandi allt frá árinu 1983. Fjölmargir hafa stjórnað þessum kór og líklega var tónlistarmaðurinn Rúnar Þórisson fyrstur til að stjórna honum en síðan hefur fjöldi fólks komið að stjórnun hans, þau eru í tímaröð Jón Ólafur Sigurðsson, Siegward Ledel, Hólmsteinn A. Brekkan, Hulda Birna Guðmundsdóttir, Ásgeir Guðjónsson, Guðrún Rútsdóttir, Svanhvít Lilja Ingólfsdóttir, Urður G. Norðdahl og Yvonne Carlström en bæði Hulda Birna og Ásgeir hafa komið oftar en einu sinni að stjórnun kórsins, Ásgeir er t.a.m. stjórnandi hans í dag.

Íslenski kórinn í Lundi hefur sent frá sér eina plötu undir nafninu Kór Íslendingafélagsins í Lundi, hún kom út árið 1993 og innihélt sextán lög úr ýmsum áttum, m.a. eftir Rúnar Þórisson þáverandi kórstjóra.

Upplýsingar eru fremur litlar um starfsemi Íslenska kórsins í Lundi en hann hefur haldið fjölda tónleika í gegnum tíðina, sungið mestmegnis íslenskt léttmeti og þjóðlög og verið meðal þeirra kóra sem sótt hafa Kóramót íslenskra kóra erlendis. Kórinn hefur m.a. haldið utan um þann viðburð (árið 2001) og það ár kom út platan Íslenskt kóramót í Lundi 2001, þar sem heyra má þrjú lög sungin af kórnum.

Efni á plötum