Íslenskt söngvasafn [annað] (1915-)

Fyrsta útgáfu II. bindis Íslensks söngvasafns

Fá rit hafa haft jafn mikil áhrif á íslenska sönghefð og Íslenskt söngvasafn (Íslenzkt söngvasafn), sem kom út í tvennu lagi 1915 og 16, nema e.t.v. sálmabókin “Grallarinn” sem kom út í lok sextándu aldar að frumkvæði Guðbrands biskups Þorlákssonar.

Forsaga málsins er sú að árið 1911 kom út bókin Íslensk söngbók sem þeir bræður Halldór og Benedikt Jónassynir söfnuðu efni í, í þeirri bók voru þrjú hundruð söngtextar með svokölluðum „lagboðum“ en ekki eiginlegum lögum með nótnaskrift. Halldór vildi ganga lengra og fékk til liðs við sig Sigfús Einarsson tónskáld og þáverandi Dómkirkjuorganista til að leggja drög að bók sem hefði að geyma nótur við lög texta Íslensku söngbókarinnar, útsett af þeim síðarnefnda.

Fyrri hluti ritsins kom út árið 1915 undir nafninu Íslenskt söngvasafn. Fyrir orgel-harmóníum. I. bindi – safnað hafa Sigfús Einarsson og Halldór Jónasson, sem hafði þá að geyma helming laganna (hundrað og fimmtíu talsins), og ári síðar (1916) kom síðara bindið út með hinum hundrað og fimmtíu lögunum.

Bækurnar tvær urðu strax afar vinsælar meðal Íslendinga enda voru lögin útsett með þeim hætti að margir gátu spilað lögin á harmóníum (pumpuorgel) sem þá höfðu verið að ryðja sér til rúms á íslenskum heimilum. Lögin sem komu frá ýmsum tímum, bæði íslensk og erlend úr ýmsum áttum (ættjarðarlög, alþýðulög, klassík o.fl.) voru þá gjarnan sungin við textana og mætti helst líkja bókina við það sem síðar var kallað sönglagahefti.

Íslenskt söngvasafn – Fjárlögin

Íslenskt söngvasafn I og II varð sem fyrr segir mjög vinsælt og var prentað aftur af því er virðist í nokkur skipti og voru bækurnar síðan sameinaðar þannig að úr varð veglegt rit. Hún gekk undir ýmsum nöfnum meðal alþýðunnar, oftast var hún kölluð Fjárlögin eða Fjárlagabókin en einnig var hún kölluð Kindabókin, Ærbókin eða jafnvel Rollubókin. Skýringin á því er sú að bókarkápa hennar var myndskreytt af Ríkarði Jónssyni og á þeirri myndskreytingu sem hafði að geyma íslenskt landslag var sauðfé áberandi.

Bókin hefur lifað góðu lífi og jafnvel fram á þennan dag enda hefur hún oftsinnis verið endurútgefin, vinsældir hennar má sjálfsagt að mestu rekja til raddsetninga Sigfúsar sem þóttu vel heppnaðar. Hún hafði því miklu þýðingu fyrir iðkun alþýðusöngs í landinu einkum framan af tuttugustu öldinni og er eins konar fyrirmynd síðari bóka af sama tagi. Fyrri útgáfur bókarinnar eru nú orðnar mjög sjaldséðar en þær útgáfur sem síðar komu sjást oftar, bókin var t.d. endurútgefin 1982 og ritaði þá Jón Ásgeirsson tónskáld formála að henni og einnig var hún endurútgefin 1997.

Á allra síðustu árum hafa menn gefið þessari merku bók gaum á nýjan leik með einum eða öðrum hætti, kórar og söngfélög hafa haldið hátíðir og skemmtanir helgaðar Fjárlögunum og árið 2011 kom út platan Værð: Íslenskt söngvasafn, sem var einsöngsplata Sveins Dúu Hjörleifssonar og var að mestu helguð bókinni, sönghópurinn Fjárlaganefndin hefur einnig eins og nafn hans gefur til kynna, sérhæft sig í lögunum úr Íslensku söngvasafni. Þá kom út bók árið 2012, Nýtt söngvasafn handa heimilum og skólum: Píanóútsetningar við 226 lög, sem var að nokkru leyti byggð á bókinni. Þess má að lokum geta að Una Margrét Jónsdóttir gerði bókinni góð skil í nokkrum útvarpsþáttum í Ríkisútvarpinu árið 2016, undir yfirskriftinni Hin einu sönnu Fjárlög, þar voru mörg laga bókarinnar kynnt og sungin auk vandaðrar umfjöllunar.

Af framangreindu má hæglega sjá hvert vægi Íslensks söngvasafn hefur verið í gegnum tíðina.