Afmælisbörn 10. apríl 2023

Bjarni Lárentsínusson

Tvö afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar á þessum degi.

Tryggvi G. Hansen torfhleðslu-, tónlistar- og fjöllistamaður er sextíu og sjö ára gamall í dag en hann hefur verið þekktastur síðustu árin fyrir að búa í tjaldi í jaðri höfuðborgarsvæðisins. Tryggvi á þó einnig tónlistarferil að baki en þrjár plötur komu út tengdar honum á tíunda áratug 20. aldarinnar, tvær sólósnældur og ein plata með Seiðbandinu sem bar hinn frábæra titil Vúbbið era koma. Tryggvi hefur aukinheldur birst á fáeinum plötum annarra listamanna.

Einnig hefði Bjarni (Ragnar) Lárentsínusson söngvari og lúðrasveitamaður átt afmæli á þessum degi en hann lést árið 2020. Bjarni, sem var fæddur árið 1931 söng og lék með hljómsveitum á sínum yngri árum, söng með kórum og kom stundum fram sem einsöngvari en hann sendi frá sér söngdúettaplötu ásamt Njáli Þorgeirssyni árið 1985, þá starfaði hann með Lúðrasveit í yfir sextíu ár.

Vissir þú að bókin Íslenskt söngvasafn hefur yfirleitt gengið undir nafninu Fjárlögin vegna myndskreytingar af sauðfé á forsíðunni?