
Sigurður Þórðarson
Fjögur afmælisbörn eru á lista Glatkistunnar í dag:
Söngkonan Hjördís Geirsdóttir er sjötíu og níu ára, hún á að baki gæfuríkan söngferil, fyrst með Söngsystrum en síðar með sveitum eins og Caroll quintet, Safír sextett og Hljómsveit Karls Lilliendahl áður en hún hóf að syngja með hljómsveit bróður síns, Gissurar Geirs. Aðrar sveitir má nefna, t.d. Leikhústríóið, Neistar, Þrívídd og Hljómsveit Jóns Sigurðssonar en einnig starfrækti Hjördís eigin sveit, Hljómsveit Hjördísar Geirs. Tvær sólóplötur hafa komið út með henni.
Sigurður Þórðarson (f. 1895) kórstjórnandi og tónskáld átti einnig afmæli á þessum degi en hann lést 1968. Hann var sjálfur kominn í karlakór aðeins ellefu ára gamall, lærði á harmóníum, píanó og fiðlu en fór auk þess erlendis til að læra kórstjórnun. Hann stýrði Karlakór Reykjavíkur lengst af eða frá 1926-62 en einnig stýrði hann Kórum Verzlunarskólans og Kvennaskólans, Karlakór iðnaðarmanna og Karlakórnum Þröstum í skemmri tíma.
Arnar Þór Gíslason trommuleikari og hljóðfærasali úr Hafnafirði fagnar í dag fjörutíu og fimm ára afmæli. Það hefur varla hljómsveit stigið á svið á Íslandi svo Arnar sé ekki þar bak við trommusettið en meðal sveita sem hann hefur starfað með má nefna Stolíu, Írafár, Dr. Spock, Ensími, Súrefni og Pollapönk svo aðeins fáeinar þekktar séu nefndar. Þá hefur hann leikið inn á ógrynni platna með hinu og þessu tónlistarfólki.
Þá er að síðustu nefndur Örvar Kristjánsson harmonikkuleikari (1937-2014) sem átti þennan afmælisdag líka, hann gaf út fjöldann allan af plötum, lék á plötum annarra auk þess að spila með hinum ýmsu hljómsveitum, auk eigin sveita. Síðustu tuttugu árin dvaldi hann hluta ársins á Kanaríeyjum þar sem hann lék á pöbbum.
Vissir þú að Unnar Gísli Sigurmundsson (Júníus Meyvant) var eitt sinn í kristilegri rokkhljómsveit sem bar nafnið Jack London?