Sigurður Þórðarson [1] (1895-1968)

Sigurður Þórðarson

Sigurður Þórðarson tónskáld og kórstjórnandi vann mikið og merkilegt starf í íslensku tónlistarsamfélagi um margra áratuga skeið á síðustu öld en hann var m.a. stofnandi og stjórnandi Karlakórs Reykjavíkur auk þess sem hann samdi fjöldann allan af þekktum lögum og tónverkum.

Sigurður fæddist vorið 1895 en hann var frá bænum Söndum í Dýrafirði. Segja má að hann hafi alist upp við tónlist þótt ekki hafi verið hljóðfæri á æskuheimilinu en þar var hins vegar mikið sungið og reyndar áttu menn frekar von á því að Sigurður yrði söngvari fremur en eitthvað annað, t.d. var hann kominn í kór aðeins um þrettán ára gamall (ein heimild segir ellefu ára) þegar hann gekk til liðs við karlakórinn Svani á Þingeyri. Um svipað leyti eignaðist hann sitt fyrsta hljóðfæri, munnhörpu og fljótlega einnig fiðlu og síðar harmonium.

Móðir hans mun eitthvað hafa kennt Sigurði á harmonium-hljóðfærið en hann naut einnig leiðsagnar hjá Bjarna Péturssyni orgnista í sveitinni þegar hann fór í nám við héraðsskólann á Núpi í Dýrafirði, hann gerðist svo organisti í sveitinni og um það leyti varð hann staðráðinn í að mennta sig í tónlist. Sigurður hafði byrjað að semja um fermingu og á Núpi gerðist það að lag eftir hann var sungið af nemendum skólans en þar var alltaf mikil áhersla lögð á söng.

Árið 1911 fór Sigurður til Reykjavíkur til að nema tónlist, hann lærði fyrst á fiðlu hjá Þórarni Guðmundssyni og Oscari Johansen, og svo einnig píanóleik hjá Önnu Pétursson, tónfræði hjá Sigfúsi Einarssyni og söng hjá Sigurði Birkis og Guðrúnu Reykholt en hann hafði bjarta tenór rödd og hafði á þeim tímapunkti hug á að gerast söngvari.

Í Reykjavík gekk Sigurður einnig í Verzlunarskóla Íslands sem þá var tiltölulega nýstofnaður, og lauk þaðan verslunarprófi 1915. Í skólanum stjórnaði hann kór í fyrsta sinn, það var tvöfaldur kvartett sem líklega var fyrsti Verzlunarskólakórinn. Eftir námið flutti Sigurður til Akureyrar og vann þar við skrifstofustörf veturinn 1915-16 og stofnaði þar litla hljómsveit þar sem hann var fiðluleikari en það var að öllum líkindum fyrsta hljómsveitin sem starfaði í bænum.

Sigurður á yngri árum

Eftir veturinn á Akureyri var komið að því að fara utan til náms en það var aðallega að áeggjan Páls Ísólfssonar sem þá var einnig á leið utan, Sigurður hlaut styrk frá alþingi og tók einnig lán til að komast til Leipzig í Þýskalandi en þar átti hann eftir að dvelja um tveggja ára skeið ásamt Páli og Jóni Leifs einnig. Sigurður lærði þar aðallega á fiðlu en þegar peningarnir dugðu ekki lengur til kom hann aftur heim án þess að ljúka tónlistarnámi.

Hér heima fór hann að vinna almenn verslunar- og skrifstofustörf en kenndi einnig söng við Miðbæjarskólann og Kvennaskólann, hann stjórnaði einnig kór við síðarnefnda skólann en var samhliða því að kenna á píanó, fiðlu og svo tónfræði. Hann lék jafnframt á fiðlu með Hljómsveit Reykjavíkur undir stjórn Þórarins Guðmundssonar en sú sveit var stofnuð 1921.

Það var svo árið 1923 sem hjólin fóru að snúast fyrir alvöru hjá Sigurði en hann tók þá við stjórn Karlakórsins Þrasta í Hafnarfirði. Hann stjórnaði Þröstum í um tvö ár en eftir að kórinn hélt tónleika í Reykjavík hrifust menn af söng hans og í framhaldinu var Sigurður vélaður til að taka þátt í stofnun nýs karlakórs í Reykjavík haustið 1925, sem var svo formlega stofnaður snemma árs 1926 og hlaut þá nafnið Karlakór Reykjavíkur. Þá um sumarið fór hann til Þýskalands og Austurríkis og nam kórstjórnun. Sigurður stjórnaði báðum kórunum um hríð en var svo með Reykjavíkur-kórinn eingöngu eftir það. Reyndar átti hann eftir að stýra þeim kór allt til ársins 1963 eða í um þrjátíu og sjö ár (fyrir utan eitt ár sem hann átti við vanheilsu að stríða). Veturinn 1928-29 stjórnaði Sigurður reyndar einnig Karlakór iðnaðarmanna en hann kenndi þá söng í Iðnskólanum um það leyti.

Sigurður naut alla tíð mikillar virðingar sem stjórnandi Karlakórs Reykjavíkur og á tæplega fjörutíu ára kórstjóratíð sinni söng kórinn á mörg hundruð tónleikum bæði hér heima og erlendis en hann fór í sex ferðir erlendis í stjóratíð Sigurðar og söng á erlendum vettvangi á hundrað og þrjátíu tónleikum, oftast á slóðum Vestur-Íslendinga en þar naut hann mikillar virðingar fyrir starf sitt, einnig söng kórinn víða um Evrópu. Árið 1960 þegar kórinn hélt upp á 35 ára afmæli sitt var talað um að Sigurður hefði stjórnað 2500 æfingum hjá honum. Sigurður var ekki aðeins fær stjórnandi heldur var hann einnig duglegur að láta kórinn syngja verk eftir íslensk tónskáld, bæði hér heima og erlendis og átti því þátt í að kynna íslenska tónlist erlendis. Þannig fengu tónskáld eins og Karl O. Runólfsson, Björgvin Guðmundsson, Hallgrímur Helgason, Jón Leifs og Árni Björnsson verðskuldaða athygli sem þeir hefðu ella ekki fengið, kórinn flutti verk eftir þessi tónskáld sem aðrir starfandi íslenskir kórar litu ekki við.

Sigurður fer yfir málin á kóræfingu 1960

Kórinn flutti einnig verk eftir Sigurð sjálfan en hann skapaði sér smám saman nafn sem tónskáld, samdi tónlist af ýmsu tagi, allt frá einsöngs- og kórlögum upp í stærri kórverk eins og kantötur (Alþingiskantata, Skálholtskantata), óperur (Sigurður Fáfnisbani) og messur (Hátíðarmessa 1945)  svo ekki sé minnst á fyrstu íslensku óperettuna, Í álögum (við texta Dagfinns Sveinbjörnssonar) sem byggð var á íslenskum þjóðsögum og frumflutt var vorið 1944, hluti hennar var gefinn út á plötu nokkrum árum síðar. Þá raddsetti hann töluvert af þjóðlögum (m.a. úr safni sr. Bjarna Þorsteinssonar) og passíusálmalögum og voru þau síðarnefndu gefin út á bók. Sönglagahefti voru jafnframt gefin út með lögum Sigurðar en meðal þekktra sönglaga hans má nefna Sjá dagar koma, Að jólum, Ísland, Ísland, ég vil syngja, Mamma, Stjarna stjörnum fegri og Sofðu, sofðu litla barnið blíða en síðast talda lagið samdi hann um barn sitt sem dó ungt en Sigurður og eiginkona hans eignuðust tvö börn sem bæði dóu ung.

Karlakór Reykjavíkur sendi frá sér fjölda platna í stjórnartíð Sigurðar og komu þær fyrstu út 1933 þegar sex 78 snúninga plötur litu dagsins ljós, sjö í viðbót komu út 1937 og á þremur þeirra söng Stefán Íslandi einsöng með kórnum. Sex aðrar plötur með kórnum komu út árið 1953 og þrjár til viðbótar sem ekki liggur fyrir ártal á, og þegar 45 snúninga plöturnar komu til sögunnar um miðjan sjötta áratuginn komu út fjórar slíkar og svo þrjár stórar plötur (breiðskífur) í kringum og upp úr 1960. Guðmundur Jónsson var áberandi sem einsöngvari á plötum kórsins en mikið af því sem kórinn söng inn á plötur og á tónleikum raddsetti Sigurður sjálfur.

Sigurður kom svo við sögu á fleiri plötum á ferli sínum, hann stjórnaði t.a.m. blönduðum 80 manna kór sem söng inn á fimm plötur, þ.á.m. lög úr Alþingiskantötu hans, árið 1933 en þar var einnig að finna útgáfu af þjóðsöng Íslendinga sem Ríkisútvarpið notaði í áratugi við dagskrárlok á kvöldin. Eitthvað af þessu efni var endurútgefið á sjöunda áratugnum. Hér má einnig nefna að Þjóðhátíðarkórinn svokallaði (settur saman úr nokkrum kórum fyrir lýðveldishátíðina 1944 hefur einnig komið við sögu á plötum en Sigurður var einn stjórnenda hans, þá hafa mörg lög Karlakórs Reykjavíkur verið endurútgefin á hvers kyns safnútgáfum í gegnum árin.

Sigurður Þórðarson

Sem fyrr segir starfaði Sigurður fyrst um sinn við verslunar- og skrifstofustörf en þegar stóð fyrir dyrum að halda hér veglega hátíð í tilefni af þúsund ára afmæli alþingis árið 1930 var hann settur í undirbúningsnefnd fyrir hátíðarhöldin og hélt þar ásamt öðrum utan um hæfnispróf fyrir söngfólk sem þar átti að syngja. Um svipað leyti stóð yfir undirbúningur fyrir stofnun Ríkisútvarpsins í fullum gangi og fljótlega eftir að það tók til starfa var Sigurður ráðinn skrifstofustjóri hjá stofnuninni í ársbyrjun 1931 en áður hafði hann þá verið bókari þar um hríð. Skrifstofustjórastarfinu gegndi hann allt til ársins 1966, þá sjötíu og eins árs gamall en á því þrjátíu og fimm ára tímabili sinnti hann oft starfi útvarpsstjóra í forföllum og afleysingum. Innan Útvarpsins voru ýmis fleiri störf á herðum Sigurðar, hann stjórnaði t.d. Útvarpskórnum í upphafi, sat þar í ýmsum nefndum og ráðum og þannig mætti sjálfsagt lengi telja.

Sigurður gegndi samhliða öðrum störfum ýmsum félagsstörfum í tónlistarsamfélaginu, hann var lengi í söngmálaráði Sambands íslenskra karlakóra og um tíma einnig aðalsöngstjóri sambandsins, þá var hann einnig einn af stofnendum Tónskáldafélags Íslands og um skeið jafnframt formaður þess félags.

Sigurður hafði ætlað sér að starfsævi sinni lokinni 1966 að helga sig meira tónsmíðum en lítill tími gafst til þess því hann lést haustið 1968 sjötíu og þriggja ára gamall eftir stutt veikindi, honum hafði þó tekist að ljúka óperu sinni um Sigurð Fáfnisbana. Eftirmæli um hann voru óvenju mörg í fjölmiðlum þess tíma enda hafði hann notið mikillar virðingar sem kórstjórnandi, tónskáld og skrifstofustjóri Útvarpsins. Þess merki hafði einnig mátt sjá í því að Sigurður hafði verið heiðraður með margs konar og ólíkum hætti í lifanda lífi, hann hafði t.a.m. hlotið fálkaorðuna fyrir starf sitt að tónlistarmálum, verið gerður að heiðursfélaga í Karlakór Reykjavíkur, Sambandi íslenskra karlakóra, Tónskáldafélagi Íslands og Þjóðræknisfélagi Íslands og auk þess hlotið heiðursborgaratitil í Winnipeg borg, hlotið Buffalo Hunt orðuna (æðsta heiðursmerki Manitoba fylkis) og orðu hins heilaga kirkjuráðs (frá páfa). Sigurður hafði jafnframt verið heiðraður á stórafmælum, á 50 og 70 ára afmæli hans voru haldnir afmælistónleikar honum til heiðurs þar sem eingöngu voru sungin og leikin tónverk eftir hann, þar komu m.a. fram einsöngvarar, kórar og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þess má og geta að árið 1979 kom út ævisaga Sigurðar skráð af Gunnari M. Magnúss, undir heitinu Sigurðar bók Þórðarsonar.

Efni á plötum