Sigurjón Steinsson (1929-2017)

Sigurjón Steinsson

Sigurjón Steinsson var harmonikkuleikari, alþýðulistamaður sem lék á dansleikjum á yngri árum, hann tók aftur upp nikkuna á efri árum og gaf þá út plötu með harmonikkutónlist.

Sigurjón eða Ninni eins og hann var iðulega kallaður var fæddur í Stíflu í Fljótum 1929 og bjó þar framan af ævi, það var svo árið 1961 sem hann fluttist til Siglufjarðar og starfaði þar sem vörubílstjóri alla tíð síðan en hann var orðinn áttatíu og fimm ára gamall þegar hann lagði bílnum. Sigurjón hafði fyrst komist í kynni við harmonikku hjá eldri systur sinni og þegar hann fermdist hlaut hann slíkt hljóðfæri í fermingargjöf. Hann var alveg sjálflærður á harmonikkuna og lék á dansleikjum víða um sveitir, hann munaði t.d. ekkert um að fara á Ólafsfjörð yfir Lágheiðina á skíðum með nikkuna á bakinu þegar svo bar undir.

Sigurjón hætti harmonikkuiðkan þegar hann fluttist á Siglufjörð og byrjaði ekki aftur að spila fyrr en á tíunda áratugnum fljótlega eftir að Félag harmonikuunenda á Siglufirði var stofnað 1993, hann var virkur í starfi félagsins eftir það og lék lengi með hljómsveit þess á hinum ýmsum samkomum.

Sigurjón með nikkuna

Sigurjón var á eldri árum fastur liður í starfsemi Síldarminjasafnsins á Siglufirði en þar lék hann á harmonikku fyrir gesti og gangandi og á skemmtunum og hátíðum tengdum því, til að auka á stemninguna. Hann var jafnframt virkur í hljómsveitastarfi á Siglufirði síðustu æviárin því hann var harmonikkuleikari í hljómsveitinni Heldrimönnum sem skipuð var meðlimum á svipuðu reki. Sú sveit gaf út plötu árið 2010 og um svipað leyti hafði Sigurjón sjálfur sent frá sér plötu þar sem hann lék ýmis harmonikkulög, platan bar nafnið Dansið þið sveinar en því miður eru upplýsingar um þá útgáfu mjög af skornum skammti. Hann lék einnig síðustu árin í tríói sem ekki finnast upplýsingar um hvað hét.

Sigurjón lést vorið 2017.

Efni á plötum