
Megas
Fjögur afmælisbörn eru á lista Glatkistunnar í dag:
Megas (Magnús Þór Jónsson) er sjötíu og átta ára á þessum degi. Megas þarf auðvitað ekki að kynna sérstaklega en hann hefur verið einn af þekktustu tónlistarmönnum þjóðarinnar allt því því að hans fyrsta plata kom út árið 1972. Síðan hafa komið út á fjórða tug platna með Meistara Megas eins og hann er stundum kallaður, hann er ekki allra og hefur alltaf verið umdeildur en í seinni tíð hafa æ fleiri tekið hann og verk hans í sátt. Umdeildir textar Megasar eru aðalsmerki hans, en lög hans og ekki síst rödd hafa verið fólki hugleikin. Meðal laga sem hann hefur samið má nefna Spáðu í mig, Komdu og skoðaðu í kistuna mína, Tvær stjörnur, Fatlafól, Krókódílamaðurinn, Reykjavíkurnætur, Paradísarfuglinn, Ragnheiður biskupsdóttir og mörg önnur. Megas hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir tónlist sína en hann hefur einnig afþakkað slíkar viðurkenningar.
Andrea Jónsdóttir fjölmiðlakona og tónlistarskríbent með meiru er sjötíu og fjögurra ára gömul í dag, hún hefur annast dagskrárgerð í útvarpi, verið plötusnúður, skrifað um tónlist í blöðum og komið að íslenskri tónlist með einum og öðrum hætti í áratugi og er iðulega nefnd Rokkamma Íslands.
Þriðja afmælisbarn dagsins skal telja Hrafnkel Orra Egilsson sellóleikara en hann er fjörutíu og níu ára gamall í dag. Hrafnkell Orri hefur leikið á mörgum plötum annarra listamanna en hefur einnig starfað með eigin sveitum t.a.m. í strengjakvartettnum Húgó, L’amour fou og Astor.
Og að síðustu er hér nefndur sjálfur Káinn (K.N.) eða Kristján Níels Júlíus Jónsson (1859-1936). Káinn bjó lungann úr ævi sinni vestan hafs enda einn þeirra þúsunda Íslendinga sem flúðu þangað á nítjándu öld. Hann varð þekktur fyrir hnittinn alþýðukveðskap sinn og margar slíkar vísur eftir hans eru varðveittar, t.d. Úr fimmtíu centa glasinu. Hljómsveitin Baggalútur gerði honum skil á plötu sinni Kveðju skilað (2020) og nokkrir aðrir tónlistarmenn s.s. Hörður Torfa, Grísalappalísa og Súkkat hafa sent frá sér lög samin við vísur hans.
Vissir þú að kór íslenskra stúdenta var starfandi í Kaupmannahöfn um aldamótin 1900?