Örvar Kristjánsson (1937-2014)

Örvar Kristjánsson 2

Örvar Kristjánsson

Örvar Kristjánsson er einn allra þekktasti harmonikkuleikari íslenskrar tónlistarsögu, og klárlega sá afkastamesti þegar kemur að plötuútgáfu en eftir hann liggja fjölmargar harmonikkuplötur.

Örvar fæddist 1937 í Reykjavík en bjó öll bernskuárin í Hornafirði hjá fósturforeldrum, hann fékk snemma áhuga á tónlist og var farinn að prófa sig áfram með harmonikku bróður síns sjö og átta ára gamall, og frægt er að hann lék fyrst opinberlega á nikkuna að kvöldi fermingardags síns. Örvar var sjálfmenntaður á hljóðfærið og var farinn að leika á hefðbundnum sveitaböllum þess tíma löngu fyrir tvítugt.

Hann fór suður til Reykjavíkur til að læra bifvélavirkjun, sem hann átti eftir að starfa við næstu áratugina ásamt sjómennsku en samhliða þessu lék hann með ýmsum hljómsveitum bæði á Reykjavíkursvæðinu og á Höfn en þangað fluttist hann aftur að námi loknu. Engar heimildir er þó að finna um sveitir sem Örvar lék með fyrr en 1962 en þá lék hann með Brúartríóinu sem kennt var við Brú í Hrútarfirði.

Reyndar segir ekki meira af hljómsveitamálum Örvars í bili fyrr en á Akureyri nokkrum árum síðar en þá var hann skilinn við eiginkonu sína og fluttur norður. Þar lék hann með sveitum eins og Hunangi, Tilfelli og Tríói Birgis Marinónssonar, auk þess að starfrækja tríó undir eigin nafni. Alla tíð spilaði Örvar mikið á böllum og öðrum samkomum, ýmis einn með nikkuna eða með hljómsveit.

Á Akureyrarárum sínum gaf Örvar út sínar fyrstu plötur en sú fyrsta kom út 1972 og bar einfaldlega nafn hans. Tónaútgáfan kom að útgáfunni og fékk þessi fyrsta plata hans ágætar viðtökur, til að mynda fína dóma í Tímanum. Pétur Steingrímsson tók plötuna upp en Örvar samdi sjálfur tvö laga hennar en að öðru leyti komu lögin úr ýmsum áttum, það fyrirkomulag átti eftir að ríkja á næstu plötum hans. Akureyskir tónlistarmenn sáu um flutning tónlistarinnar ásamt Örvari sjálfum.

Næsta plata kom út þremur árum síðar, 1975 og hét Dönsum dátt. Sama fyrirkomulag var með þessa plötu og hina fyrri, en í blaðaviðtali síðar var haft eftir Örvari að á þessum tveimur fyrstu plötum hefði hann notast við harmonikkur sem hann hefði ekki verið vanur og gæðin væru eftir því. Ekki birtist nein gagnrýni um þessa plötu í fjölmiðlum þess tíma fremur en um þá næstu, plötuna Örvar Kristjánsson (sem bar nafn hans líkt og fyrsta platan), en hún kom út 1979. Sú plata var hljóðrituð í nýju hljóðveri í Hafnarfirði, Hljóðrita, en að öðru leyti var fyrirkomulagið hið sama og áður. Sú breyting varð hins vegar á þessari plötu að Örvar var nú farinn að syngja sjálfur í sumum laganna, og naut lagið Fram í heiðanna ró almennra vinsælda í óskalagaþáttum ríkisútvarpsins og víðar, og fleiri laganna fengu reyndar spilun í útvarpinu.

Örvar var fluttur suður til Reykjavíkur um það leyti sem þriðja platan kom út og kann það að vera ástæðan fyrir því að platan var tekin upp í Hljóðrita, en hann var þá skilinn við konu sína og á næstu árum átti hann eftir að búa víðs vegar um sunna- og vestanvert landið, m.a. á Suðurnesjunum og Vestfjörðum.

Örvar Kristjánsson1

Í sjónvarpssal

Á næstu fjórum árum átti Örvar eftir að verða mun afkastameiri á útgáfusviðinu en fimm plötur komu út á jafnmörgum árum frá árinu 1979. 1980 kom platan Þig mun aldrei iðra þess út á vegum Tónaútgáfunnar á Akureyri en það var síðasta platan á vegum þeirrar útgáfu í bili enda var Örvar þá fluttur suður eins og fyrr segir. Á þeirri plötu er að finna lagið Komdu inn í kofann minn sem er eitt þeirra laga sem hefur æ síðan verið eitt af einkennislögum hans ásamt Fram í heiðanna ró, Við förum bara fetið, Hlín Rósalín og ekki síst Sunnanvindur, sem kom út á næstu plötu á eftir. Platan Þig mun aldrei iðrast þess var gefin út í um tvö þúsund eintökum, þar af um fimm hundruð á snældum.

Næst kom út platan Sunnanvindur en titillag þeirrar plötu varð eitt af vinsælustu lögum landsins árið 1981. Þetta var fyrsta plata Örvars sem unnin var alveg sunnan heiða, Þórður Árnason Stuðmaður annaðist upptökustjórn og útsetningar en Edward Marx tók upp í Hljóðrita. Og fleiri Stuðmenn komu við sögu þessarar plötu, Ásgeir trommari, Tómas bassaleikari og Þórður sjálfur á gítar, auk Guðmundar Ingólfssonar sem lék á píanó. Vinsældir plötunnar skiluðu Örvari lagi á tvöföldu safnplötunni Næst á dagskrá á vegum Steina (1982).

Fálkinn hafði gefið Sunnanvinds-plötuna út og gerði tveggja ára samning við Örvar og því kom önnur plata út ári síðar á vegum útgáfunnar og hlaut hún titilinn Heyr mitt ljúfasta lag. Sú plata var í höndum Sigurðar Rúnars Jónssonar (Didda fiðlu) í Stúdíó Stemmu og Vilhjálms Guðjónssonar upptökustjóra en undirleikurinn var í höndum hljómsveitarinnar Galdrakarla. Þrátt fyrir að lagið Við förum bara fetið nyti nokkurra vinsælda fékk platan ekki eins góðar viðtökur og sú sem á undan kom, hún hlaut til dæmis slaka dóma í DV og mjög slæma í Vikunni en ágæta í Morgunblaðinu.

Síðasta platan í bili í þessari útgáfuhrinu kom út 1983 á vegum Tónaútgáfunnar á Akureyri og hét Ánægjustund. Hún var að öllu leyti unnin á Akureyri en hlaut ekki sömu athygli og tvær síðustu plötur Örvars. Um það leyti bjó hann fyrir vestan, líklega á Bolungarvík.

Á þessum síðustu árum hafði Örvar víða komið við í tónlistarlegum skilningi, hann starfaði í ýmsum minni og stærri hljómsveitum, til að mynda með hljómsveitinni Glæsi í Glæsibæ en auk þess starfrækti hann sveit undir eigin nafni á þessum árum, aukinheldur var hann hluti af hópnum Haustfagnaður sem fór með skemmtun um landið.

1984 flutti Örvar til Færeyja og starfaði þar um fjögurra ára skeið, þar vann hann ýmist við fag sitt, bifvélavirkjun eða á sjó en var einnig við spilamennsku í eyjunum, var í hljómsveitum þar meðal annars með Óskari Guðnasyni, sem hann átti eftir að leika inn á plötu hjá síðar (2001).

Ekki gaf hann út plötur á Færeyjaárum sínum en þegar hann kom aftur heim til Íslands 1988 hóf hann þegar undirbúning næstu plötu, Frjálsir fuglar, en sú plata kom út á vegum Steina 1989. Sigurður Ingi Ásgeirsson hjá Stúdíó Gný annaðist upptökuþáttinn en platan var tekin upp um sumarið 1989. Þessi plata hlaut víðast ágætar viðtökur, bæði í Morgunblaðinu og DV fékk hún góða dóma, en þarna voru liðin sex ár frá síðustu plötu.

Örvar stofnaði nýja sveit undir nafninu Hljómsveit Örvars Kristjánssonar, kom fram einnig ásamt sonum sínum undir nafninu Örvarseplin (1988) en meðal barna hans eru tónlistamennirnir Grétar, Karl og Atli Örvarssynir, sem allir hafa gert það gott í tónlistarlífinu hér heima. Örvar var einnig virkur í samfélagi harmonikkuleikara, kom reglulega fram með Félagi harmonikkuunnenda og gerði tónlistina að aðalstarfi frá 1990.

Þótt ekki kæmi út plata með Örvari 1991 þá lék hann á tveimur plötum sem út komu það ár, annars vegar harmonikkusafnplötunni Harmonikkutónum, hins vegar plötunni Birtir af degi, sem hafði að geyma lög við ljóð eftir Björn Stefán Guðmundsson frá Reynikeldu.

Ný plata kom út 1992 og hét hún Rósir, sú plata kom út á vegum Axels Einarssonar hjá Stöðinni en hlaut ekki þá athygli sem margar plötur hans á undan höfðu fengið, gestasöngvarar komu við sögu á Rósum og hljóðfæraleikarar komu úr ýmsum áttum.

Örvar bjó á Suðurnesjunum og síðar á höfuðborgarsvæðinu þegar hér var komið sögu, og frá og með haustinu 1994 bjó hann hálft árið á Kanaríeyjum, lék þar sex kvöld vikunnar fyrir gesti Klörubars, sem margir Íslendingar þekkja, og síðar reyndar einnig á sambærilegum norskum bar. Hér heima starfrækti hann sem fyrr á sumrin eigin sveitir, t.d. hljómsveitina Sýslumenn en einnig kom Tríó Birgis Marinóssonar saman á nýjan leik eftir margra ára hlé.

örvar Kristjánsson

Örvar með nikkuna

Nú leið líka orðið lengra á milli platna Örvars og sú næsta, safnplatan Stefnumót, kom út fimm árum síðar (1997) undir merkjum Spor. Tvennt var það sem var ástæða fyrir útgáfu plötunnar, annars vegar sextíu ára afmæli Örvars og svo tuttugu og fimm ára útgáfuafmæli en aldarfjórðungur var þá liðinn frá fyrstu plötu hans. Á plötunni var að finna lög frá ferli hans.

Lítið fór fyrir Örvari á útgáfusviðinu þessi árin en hann lék þó á safnplötunni Kæra Höfn, sem út kom 1997 og einnig fyrrgreindri plötu Óskars Guðnasonar, hún hét Lífsins línudans og kom út 2001. Það sama ár kom út lag með honum á safnplötunni Óskalögin 5.

Næsta plata Örvars bar nokkurn keim af Kanaríeyjabúsetu hans en hún hlaut titilinn Í suðurlöndum og innihélt lög sem hæfðu efninu. Birgir Jóhann Birgisson var Örvari innan handar við gerð plötunnar, sem kom út árið 2006, auk þess sem Grétar sonur hans og Kristján sonarsonur hans komu að verkinu, einnig komu söngkonurnar Sigríður Beinteinsdóttir og Sigrún Eva Ármannsdóttir við sögu plötunnar. Um svipað leyti lék Örvar á plötu sem Bjarni Tryggvason gaf út og hét Svartar rósir en sú plata var einmitt hljóðrituð á Kanaríeyjum.

2007 kom út enn ein platan, Gullmolar: gefið út í tilefni af 70 ára afmæli Örvars Kristjánssonar, og eins og titillinn bendir til var þarna um að ræða afmælisplötu vegna sjötugs afmælis hans. Eins og á plötunni sem kom út ári fyrr var Birgir Jóhann allt í öllu og annaðist allan hljóðfæraleik utan harmonikkunnar.

Og enn ein platan átti eftir að líta dagsins ljós áður en yfir lauk, safnplatan 18 gullkorn með Örvari Kristjánssyni komu út hjá EG tónum árið 2010, þar var að finna áður útgefin lög.

Örvar lék á nikkuna þar til alveg undir það síðasta en hann lést vorið 2014, þá átti hann einungis einn dag í 77 ára afmæli sitt. Eftir þennan afkastamikla harmonikkuleikara liggja þrettán plötur auk efnis á plötum annarra, einnig skipta tónleikar og böll, þar sem hann stóð ýmist einn á sviði eða með hljómsveit, hundruðum eða þúsundum.

Efni á plötum