Tryggvi Gunnar Hansen (1956-)

Tryggvi G. Hansen

Fjöllistamaðurinn Tryggvi Gunnar Hansen á tónlistarferil að baki en á tíunda áratugnum kom hann að útgáfu þriggja platna.

Tryggvi er fæddur á Akureyri 1956 og bjó nyrðra lengi vel, þar hófst myndlistaferill hans og hann varð einnig þekktur fyrir grjóthleðslufærni sína en hann hefur komið að ýmsum grjóthleðsluverkefnum í gegnum tíðina. Þá hefur hann starfað sem dagskrárgerðarmaður í útvarpi, blaðaútgefandi og grafískur hönnuður.

Tryggvi, sem var forðum öflugur í starfi ásatrúarmanna, hafði verið að kveða rímur frá unglingsárum og hóf síðar að vinna með bókmenntaarfinn með ýmsum hætti, m.a. með því að blanda saman rímnakveðskap og raftónlist. Það fyrsta sem fjölmiðlar fjölluðu um Tryggva sem tónlistarmann var þegar hann flutti Völuspá með aðstoð örtölvu árið 1982 og tveimur árum síðar kom hann nokkuð við sögu á safnkassettu sem bar titilinn Bani 1. Mörgum árum síðar stofnaði hann tónlistarhópinn Seiðbandið (um miðjan tíunda áratuginn) sem sérhæfði sig í slíkum kokteil raftónlistar og forns kveðskaps.

Um svipað leyti (1995) sendi Tryggvi frá sér sjaldséða snældu sem bar titilinn Seiður, þar sem hann sótti einnig í bókmenntaarfinn en að þessu sinni voru eddukvæðin atkvæðamest, einkum Völuspá og Hávamál.

Tryggvi G. Hansen

Þremur árum síðar (1998) sendi Seiðbandið ásamt Tryggva (TH) frá sér plötuna Vúbbið era koma: Íslensk raf og danskvæði. Sú plata hlaut ekkert sérstaka almenna athygli en fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu og DV. Það sama ár kom út önnur snælda með Tryggva einum en hún bar heitið Inuals dansar en þar var raftónlistarmaðurinn Biogen (Sigurbjörn Þorgrímsson) honum innan handar. Snældan fékk nokkuð jákvæða dóma í Morgunblaðinu.

Lítið hefur spurst til tónlistariðkunar Tryggva eftir það, hann birtist sem gestur á plötu Hallvarðs Ásgeirsonar, Los Casas, og söng kvæðið um Ólaf Liljurós á samnorrænni safnplötu með flytjendum frá Íslandi, Grænlandi, Færeyjum og Lapplandi (World music from the cold seas) árið 2015 en að öðru leyti hefur hann lítt verið viðloðandi tónlist.

Tryggvi hefur hin síðustu ár verið þekktastur fyrir að búa í tjaldi í skóglendi í útjaðri höfuðborgarsvæðisins, sem er svolítið í anda lífsspeki hans.

Efni á plötum