Dá (1983-86)

Dá

Hljómsveitin Dá starfaði í rúmlega tvö ár á höfuðborgarsvæðinu og vakti nokkra athygli fyrir frambærilega söngkonu og óvenjulega hljóðfæraskipan.

Dá var stofnuð haustið 1983 og voru meðlimir í upphafi þeir Heimir Barðason bassaleikari og Helgi Pétursson hljómborðsleikari sem höfðu áður verið í Jonee Jonee, þeir fengu til liðs við sig fljótlega annan bassaleikara sem hét Hlynur Höskuldsson og Kristmund Jónasson trommuleikara en þeir höfðu löngu áður verið saman í hljómsveitinni Dýpt.

Þannig skipuð byrjaði sveitin en fljótlega eftir áramótin 1984-85 bættist gítarleikarinn Eyjólfur Jóhannsson í hópinn og í febrúar 1985 kom söngkonan Jóhanna Steinunn Hjálmtýsdóttir, en hún gekk iðulega undir nafninu Hanna Steina.

Sveitin lék ekki oft opinberlega en vakti þeim mun meiri athygli þegar hún kom fram, Hanna Steina þótti hafa mikið raddsvið og vera hörku söngkona enda systir þeirra Diddúar og Páls Óskars, en Dá þótti ekki síður athyglisverð fyrir þá staðreynd að innihalda tvo bassaleikara.

Tónlist Dár var illskilgreinanleg, þótti þung og nýbylgjukennd og ekki líkleg til vinsælda en var meira á sömu línu og Kukl og aðrar sambærilegar sveitir á þeim tíma. Sveitin kom fram í einhver skipti ásamt dansflokki en saman unnu þau saman tón- og dansverk.

Einhverjar mannabreytingar urðu í þessu sex manna bandi, Heimir var hættur um haustið 1985, Helgi hljómborðsleikari hafði þá einnig leikið eitthvað stopult með sveitinni en sæti hans tók Magnús Jónsson í lokin.

Dá virðist hafa verið starfandi þar til í ársbyrjun 1986.