De Vunderfoolz (1986)

De Vunderfoolz1

De Vunderfoolz

De Vunderfoolz (stundum einnig nefnd Mickey Dean and the Vunderfoolz) starfaði sumarið 1986, ætlaði sér stóra hluti en lognaðist út af áður en nokkuð gerðist í þeirra málum.

Sveitin var stofnuð vorið 1986 og allan tímann voru meðlimir sveitarinnar parið Mike Pollock söngvari og gítarleikari (Utangarðsmenn, Bodies o.fl.) og Jóhanna St. Hjálmtýsdóttir söngkona (systir Diddúar og Páls Óskars), Hlynur Höskuldsson bassaleikari, Eyjólfur Jóhannsson gítarleikari (SSSól o.fl.), Úlfar Úlfarsson trommuleikari og Magnús Jónsson hljómborðsleikari. Það vakti sérstaka athygli að Hlynur bassaleikari sveitarinnar skyldi vera einhentur en hann spilaði með sérsmíðaða leðurhlíf með bassanögl á.

Byrjunin lofaði góðu, sveitin var öflug í spilamennskunni, fékk prýðilega dóma hér heima og hafði plön um að skoða möguleika sína erlendis, einkum í Bandaríkjunum þar sem Mike hafði sambönd. Þar við bættist að lag með sveitinni, Citified kom út á safnplötunni Geyser: anthology of the Icelandic independent music scene of the eighties, sem Grammið stóð fyrir ásamt bandarískri plötuútgáfu, í því skyni að kynna íslenska tónlist erlendis.

Það leit því allt vel út þegar Mike fór út til Bandaríkjanna um haustið til að afla og tryggja frekari sambönd til undirbúnings útrásarinnar, ekkert gerðist þó í málinu og smám saman fjaraði undan sveitinni og næsta vor höfðu þeir Magnús, Hlynur og Úlfar stofnað aðra sveit, Barbie, og þá var draumurinn búinn. Eftir stendur þó minnisvarðinn á Geyser-plötunni, sem hlaut ágæta dóma hérlendis sem og í Bandaríkjunum þar sem Billboard fjallaði sérstaklega um sveitina í umfjöllun sinni um plötuna.