Rúnar Gunnarsson (1947-72)

Rúnar Gunnarsson1

Rúnar Gunnarsson

Rúnar Gunnarsson tónlistarmaður var listhneigður og hæfileikaríkur á margs konar hátt en andleg veikindi áttu eftir að binda endi á tónlistarferil hans og síðar líf.

Rúnar (Snæland) Gunnarsson fæddist vorið 1947 en lengi var nokkuð á reiki hvort hann hefði fæðst 1947 eða 48, fyrrnefnda ártalið er rétt. Rúnar hlaut tónlistarhæfileika frá móður sinni en hún kenndi honum lítillega á gítar. Hann ólst upp við klassíska tónlist að nokkru leyti og dáði Beethoven alla tíð en kom á hárréttum tíma inn í rokk og bítlatónlistina sem þá var að gerjast hérlendis sem annars staðar.

Sumarið 1965 stofnuðu Rúnar og Hilmar Kristjánsson hljómsveitina Dáta sem strax vakti athygli og aðdáun, Rúnar, þá aðeins átján ára, var þar í söngvarahlutverkinu og lék á rythmagítar.

Í kjölfarið léku Dátar víða um land og hitaði m.a. upp fyrir bresku hljómsveitina Hollies sem hingað til lands kom í ársbyrjun 1966. Síðar það sama ár leit fjögurra laga plata dagsins ljós með sveitinni en á henni var m.a. að finna lagið Leyndarmál, sem sló samstundis í gegn og hefur æ síðan verið eitt af einkennislögum íslenskrar bítlaæsku. Önnur lög plötunnar nutu ekki síður vinsælda, Alveg ær, Kling klang og Cadillac, en síðast talda lagið fékkst ekki spilað í Ríkisútvarpinu þar sem það var sungið á ensku.

Rúnar varð þjóðþekktur á svipstundu fyrir söng sinn, fékk hvarvetna góða dóma, en söngstíll hans þótti sérstæður en um leið góður.

Rúnar Gunnarsson1

Rúnar með gítarinn

Þótt hann hafi fyrst um sinn orðið þekktur fyrir sönghæfileika kom í ljós þegar næsta plata Dáta kom út, að Rúnar var einnig frábær lagasmiður en hann samdi öll fjögur lög þeirrar plötu. Þar bar hæst stórsmellinn Gvendur á eyrinni, sem líkt og Leyndarmál þykja ómissandi minnisvarðar um íslenska bítlið. Önnur lög þeirra plötu voru Fyrir þig, Hvers vegna og Konur.

Rúnar þótti ekki bara sérstæður söngvari heldur hafði hann einnig sérstæðan stíl við lagasmíðar, stíl sem fangaði en var um leið óhefðbundinn á þeim tíma. Aðrir popparar sáu hæfileika hans á þessu sviði og fólust stórsveitir þess tíma, Hljómar og Flowers eftir lögum hans á plötur sínar. Lagið Peningar á fyrstu stóru plötu Hljóma er til dæmis eftir Rúnar, og lagið Glugginn (sem upphaflega bar heitið Úr glugganum) með Flowers sem er enn einn fulltrúi bítlatímans sem hefur orðið sígildur.

Saga Dáta varð ekki mikið lengri, sveitin hætti störfum sumarið 1967 eða fljótlega eftir að seinni plata þeirra kom út, sagan segir að ástæðan hafi m.a. verið skapbrestir Rúnars en það hafi þá verið fyrstu merkin um andleg veikindi hans.  Rúnar kom þá öllum á óvart þegar hann gekk til liðs við „gömlu mennina“ í Sextett Ólafs Gauks, sem bassaleikari og söngvari en hann hafði þá aldrei leikið á bassa, þetta var liður hjá Ólafi Gauki í að yngja upp í sveitinni en samtímis Rúnari gekk Páll Valgeirsson trommari til liðs við sveitina.

Rúnar Gunnarsson 1968

Í sjónvarpssal með Sextett Ólafs Gauks 1968

Þrátt fyrir miklar vinsældir Rúnars síðustu tvö árin á undan var tíminn með Sextett Ólafs Gauks líklega hápunkturinn á ferli hans. Hann spilaði reyndar og söng tónlist sem hæfði fremur eldra fólki (Rúnar var sjálfur tvítugur þegar hér var komið sögu) en inn á milli læddi sveitin inn bítlalögum. Og þegar fjögurra laga plata með sextettnum leit dagsins ljós með söngvurunum Rúnari og Svanhildi Jakobsdóttur í fararbroddi sumarið 1968 sló slagarinn Undarlegt með unga menn samstundis í gegn en lagið samdi Rúnar sjálfur.

Sjónvarpsþættir í umsjá Ólafs Gauks urðu ekki síður til að auka enn á vinsældir þeirra og þegar út kom önnur fjögurra laga plata, og síðan stór plata áður en árið 1968 var úti, var hápunktinum náð á ferli Rúnars. Stóra platan, Fjórtán lög eftir Oddgeir Kristjánsson, innihélt svokölluð Vestmannaeyjalög eftir Oddgeir sem lést hafði tveim árum fyrr, og er leitun að plötu sem notið hefur jafn almennra vinsælda í íslenskri tónlist en nánast öll laganna hafa löngu síðan öðlast sígildi. Má í því samhengi nefna lögin Blítt og létt, Bjartar vonir vakna, Ágústnótt og Gamla gatan, allt gömul og góð Eyjalög sem Rúnar og Svanhildur eiga ekki lítinn þátt í að halda á lofti.

Sumarið 1969 hætti Rúnar skyndilega í sextettnum en það var rétt áður en tveggja mánaða túr um Þýskaland lá fyrir dyrum, Vilhjálmur Vilhjálmsson hljóp í skarðið en hann átti ekki eftir að starfa lengi með sveitinni.

Þarna var álagið á Rúnari aðeins farið að segja til sín en fljótlega átti eftir að koma í ljós að undir niðri var hann veikur á andlega sviðinu. Frá og með þessum tímapunkti má segja að leiðin hafi legið niður og er reyndar margt óljóst á tónlistarferli hans og lífi upp frá þessu.

Hann stofnaði ásamt Engilbert Jensen hljómsveitina Tilveru en staldraði síðan sjálfur stutt við þegar sveitin var komin af stað, Tilvera átti eftir að starfa um tíma og gefa út tvær plötur án Rúnars.

Rúnar Gunnarsson og Engilbert Jensen

Rúnar og Engilbert Jensen

Þannig var síðari hluti ferill Rúnars í hnotskurn, hann stoppaði stutt við á hverjum stað og eirði hvergi, samhliða þessu hafði hann farið að misnota áfengi nokkuð. Hann hóf að syngja með hljómsveitunum Haukum, Opus 4, Hljómsveit Elvars Berg og jafnvel Náttúru og hætti jafnharðan aftur. Einnig stóð til að hann myndi syngja á safnplötunni Pop festival ´70, fyrstu safnplötu Íslandssögunnar, en hann hafði ekki áhuga á því þegar til stóð.

Reyndar varð hann alveg afhuga tónlistarsköpun um tíma, helgaði sig myndlist en hann hafði teiknað og málað alla tíð. Og augljóst var að hann gekk ekki heill til skógar þegar viðtal birtist við hann í Tímanum vorið 1970, þá hafði hann nýverið komist að því eftir andlát móður sinnar að hann væri ættleiddur og væri hálfur Breti, hann var þá farinn að kalla sig Rúnar Snæland Mayberry. Hann hafði því orðið fyrir nokkrum áföllum sem smám saman höfðu haft áhrif á geðheilsu hans, sambandsslit voru ekki til að bæta ástandið og þarna mætti segja að ástandið hafi verið orðið alvarlegt. Rúnar lýsti því yfir í viðtalinu að hann væri alveg hættur í tónlistinni, hann hafði þá um skamman tíma verið í verkamannavinnu og til sjós og var að hefja störf í frystihúsinu á Kirkjusandi.

Rúnar dró sig út úr sviðsljósinu og dvaldist á geðdeild Borgarspítalans um tíma, hann var í raun að mestu gleymdur þegar tveggja laga plata birtist allt í einu tveimur árum síðar eða um vorið 1972. Það var raunverulega eina sólóplata söngvarans, tveggja laga plata með frumsömdu efni sem tekið var upp á sviðinu í skemmtistaðnum Sigtúni við Austurvöll (síðar Nasa). Hún fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu en annars fór lítið fyrir þessari plötu.

Rúnar Gunnarsson (2)

Rúnar við upptökur

Aðeins fáeinir mánuðir liðu áður en sú fregn barst að Rúnar væri látinn, hann hafði þá tekið eigin líf á tuttugasta og sjötta aldursári síðla árs 1972.

Saga Rúnars er harmræn og undirliggjandi andleg veikindi voru fljót að brjótast upp á yfirborðið þegar áföllin hvert á fætur öður dundu á honum. Eftir liggja þó nokkrar plötur og eitthvað af myndefni úr fórum Ríkissjónvarpsins um þennan mæta listamann.

Þremur árum eftir andlát Rúnars gáfu SG-hljómplötur út eins konar safnplötu með lögum hans, og 1996 kom út svipað safn á vegum Spors.

Eins og auðvelt er að ímynda sér hafa mörg laga Rúnars komið út á safnplötum sem tileinkaðar eru sjöunda áratugnum og má í því samhengi nefna Svona var það 1968 (2008), Það gefur á bátinn (1981), Gullmolar (1997), SG hljómplötur: 75 bráðskemmtileg dægurlög frá 1964 – 1982 (2014), Þrjátíu vinsælustu söngvararnir 1950-75 (1978), Óskastundin 3 (2004), Hafið lokkar og laðar (1975) og Óskalög sjómanna (2007) og þá er aðeins upptalið brot af úrvalinu.

Einnig má geta þess að Bubbi Morthens var mikill aðdáandi Rúnars og gaf hljómsveit hans og Rúnars Júlíussonar, GCD út lagið Rúnar Gunnarsson (Im memoriam) á plötu sinni frá 1991, í minningu Rúnars en texta lagsins orti Berglind Gunnarsdóttir systir Rúnars.

Efni á plötum