Rútur Hannesson (1920-84)

Rútur Hannesson

Rútur Hannesson

Rútur (Kristinn) Hanneson var harmonikkuleikari af gamla skólanum, hann starfrækti hljómsveitir um árabil sem sérhæfðu sig í gömlu dönsunum en hann lék einnig á saxófón, píanó og orgel.

Rútur fæddist 1920 á Stokkseyri en fluttist ungur til Hafnarfjarðar þar sem hann bjó síðan. Hann nam tónlist á yngri árum og hafði gert hana að aðalstarfi sautján ára gamall, sem hljóðfæraleikari í hljómsveitum eins og Hljómsveit Magnúsar Randrup, Hljómsveit Árna Ísleifs, Hljómsveit Baldurs Kristjánssonar, Hljómsveit Aage Lorange og Hljómsveit Ásgeirs Sverrissonar en hann rak einnig eigin sveitir sem fyrr segir. Rútur lék ennfremur á samkomum harmonikkuleikara, ýmist einn eða með öðrum.

Rútur kom nokkuð að hafnfirsku tónlistarlífi, til að mynda var hann organisti í Fríkirkjunni í Hafnarfirði, var einn af stofnendum Lúðrasveitar Hafnarfjarðar og kom eitthvað að stjórnun Karlakórsins Þrasta í Firðinum. Hann var líka einn af stofnendum Félags harmonikkuunnenda og kenndi á harmonikku og píanó við ýmsa tónlistarskóla.

Rútur lést síðsumars 1984 en hann hafði þá átt í erfiðum veikindum um nokkurra mánaða skeið. Hann var faðir Alla Rúts.