Hljómsveit Rúnars Þórs (1986-)

Hljómsveit Rúnars Þórs Péturssonar

Tónlistarmaðurinn Rúnar Þór Pétursson hefur starfrækt hljómsveitir í eigin nafni síðan á níunda áratug síðustu aldar auk annarra sveita sem hann hefur starfað með en hann hefur jafnframt komið fram sem trúbador og í dúettaformi í félagi við aðra tónlistarmenn.

Fyrsta hljómsveit Rúnars Þórs í eigin nafni var líklega stofnuð árið 1986 en þá var bassaleikarinn Jón Ólafsson (Pelican o.m.fl.) með honum, hugsanlega voru þeir aðeins tveir um tíma en Rúnar lék á gítar og söng en síðan kom trommuleikarinn Steingrímur Guðmundsson einnig til sögunnar. Á næstu árum starfrækti Rúnar Þór einnig sveitir eins og Xplendid, Kynslóðina og H2O en frá og með haustinu 1989 kom föst mynd á það sem ýmist var kallað Hljómsveit Rúnars Þórs Péturssonar eða Rúnar Þór og félagar / Rúnar Þór og hljómsveit.

Jónas Björnsson trommuleikari kom inn í sveitina í stað Steingríms á haustdögum 1989 og lengi vel störfuðu þeir þrír saman, Jónas, Jón og Rúnar Þór. Tríóið lék bæði á pöbbum og stærri stöðum á höfuðborgarsvæðinu og víða um land, og er Rúnar Þór gaf út plötur (sem var á þessu tímabili á hverju ári) var þeim oft og iðulega fylgt eftir af hljómsveitinni, stundum með fulltingi aukamannskaps eins og gítarleikurunum Sigurgeiri Sigmundssyni og Tryggva J. Hübner og Þóri Úlfarssyni hljómborðsleikara.

Árið 1992 bættist gítarleikarinn Þorsteinn Magnússon (Þeyr o.fl.) við sveitina og starfaði með henni um skeið, Jón bassaleikari hætti um svipað leyti og Örn Jónsson sem m.a. hafði verið í Grafík tók sæti hans – með þessa skipan fór hljómsveitin m.a. hringferð um landið og spilaði þá mjög víða en á höfuðborgarsvæðinu léku þeir félagar mikið á Dansbarnum, áður hafði vígi þeirra í borginni verið Púlsinn við Vitastíg.

Árið 1994 var hljómsveit Rúnars Þórs aftur orðin að tríói þeirra Rúnars, Arnar og Jónasar þegar Þorsteinn hætti og vorið 1995 urðu aftur bassaleikaraskipti þegar Sigurður Árnason leysti Örn af hólmi, minna fór fyrir sveitinni um tíma opinberlega enda hafði Rúnar Þór þá nokkru fyrr hætt að gefa jafn ört út plötur, engu að síður munu þeir félagar hafa haft meira en nóg að gera. Haustið 1997 gerðist sá hörmungar atburður að Jónas trommuleikari lést af slysförum á Spáni þar sem hljómsveitin var stödd og starfaði sveitin því ekki í nokkurn tíma á eftir af eðlilegum orsökum, þegar hún tók til starfa á nýjan leik hafði Sigurður Reynisson tekið við trommunum og um tíma störfuðu þeir þrír saman, Sigurðarnir tveir Reynisson og Árnason með Rúnari Þór.

Hljómsveit Rúnars Þórs 2018

Undir lok aldarinnar var eitthvað minna um spilamennsku hjá þeim félögum í nafni hljómsveitarinnar, Rúnar Þór var heilmikið einn á ferð með gítar en stundum var Jón Ólafsson bassaleikari með honum og jafnvel einhverjir aðrir. Á nýrri öld birtist svo sveitin aftur sem Hljómsveit Rúnars Þórs og þá voru með honum Jón bassaleikari og Atli Már Rúnarsson trommuleikari sem síðar var e.t.v. þekktastur sem trymbill Helga og hljóðfæraleikaranna.

Næstu árin var sveitin töluvert á ferð í spilamennsku sinni en ekki liggur alveg ljóst fyrir hverjir skipuðu sveitina með Rúnari Þór á þeim tíma, líklegt er að hún hafi verið skipuð sama mannskap þar sem þeir félagar léku mikið fyrir norðan en Atli Már kemur þaðan. Sveitin lék því nokkuð samfleytt til ársins 2011 að minnsta kosti en þá varð nokkurt hlé á spilamennsku hennar, Rúnar Þór hafði þá einnig starfrækt um tíma tríóið GRM ásamt Gylfa Ægissyni og Megasi (Magnúsi Þór Jónssyni).

Rúnar Þór var eins og áður á ferðinni einn síns liðs næstu árin og um miðjan annan áratug 21. aldarinnar virðist sem hann hafi aftur sett saman hljómsveit sem hóf að leika stöku sinnum næstu árin en það virðist þó ekki hafa verið reglulega, síðustu árin má segja að hann hafi birst við hátíðleg tækifæri með hljómsveitum sínum en engar upplýsingar er að finna hverjir hafa skipað þá sveit með honum.

Reyndar hefur farið minna fyrir Rúnari Þór síðustu árin en hann hefur þó stöku sinnum birst með sveitum sem hann starfaði með á sínum yngri árum, s.s. Trap, Klettum og Rössum. Hljómsveit Rúnars Þórs er þó vissulega enn starfandi þó ekki leiki hún um allar helgar.