Jana (1969-70 / 2002)

Jana

Ekki fór mikið fyrir ísfirsku hljómsveitinni Jönu á sínum tíma en þeir vöktu þó nokkra athygli þegar sveitin keppti í hljómsveitakeppni í Húsafelli um verslunarmannahelgina 1970 og lenti þar í öðru sæti, þá hafði sveitin líklega verið starfandi í um eitt ár að minnsta kosti.

Ekki finnast miklar upplýsingar um sveitina en sumarið 1969 voru í henni Rúnar Þór Pétursson sem upphaflega hafði leikið á gítar í sveitinni en fært sig yfir á trommurnar en fyrri trymbill sveitarinnar, Rúnar Vilbergsson var þá líklega kominn á gítar. Þá voru einnig í Jönu þeir Ólafur Guðmundsson söngvari og Bjarni Hauksson [bassaleikari?].

Sveitin var endurlífguð 2002 og spilaði þá á heimaslóðum, þá var sveitin skipuð þeim Rúnari Vilbergssyni, Erni Jónssyni, Þórarni Gíslasyni og Kolbrúnu Sveinbjörnsdóttur söngkonu, auk Rúnars Þórs en ekki liggur fyrir hvort sú skipan sé sú sama og ríflega þrjátíu árum fyrr.