Rúnar Júlíusson (1945-2008)

Rúnar Júlíusson

Rúnar Júlíusson

Guðmundur Rúnar Júlíusson (f. 1945) er líklega einn fremsti tónlistarmaður Íslendinga í gegnum tíðina. Hann er fæddur og uppalinn í Keflavík og á sínum yngri árum stóð val hans milli tónlistar og knattspyrnu en hann valdi fyrri kostinn og sér væntanlega ekki eftir því, hann sneri þó ekki alveg bakinu við knattspyrnuna.

Það er e.t.v. fyrst og fremst Gunnari Þórðarsyni að þakka að Rúnar lagði tónlistina fyrir sig. Gunnar “plataði” Rúnar í nýja hljómsveit sem hann hafði þá stofnað (Hljómar) og kenndi honum á bassann sem síðar varð aðalhljóðfæri hans. Hann hefur þó einnig samið tónlist og sungið enda gefið út fjölda sólóplatna. Heimildir segja að fyrsta lagið sem hann söng opinberlega hafi verið It’s alright mama sem Elvis Presley hafði áður gert frægt.

Fyrsta hljómsveit Rúnars var semsagt Hljómar (stofnuð 1963), sem reyndar á tímabili gekk undir nafninu Thor’s hammer þegar hún reyndi fyrir sér erlendis. Sveitin naut mikilla vinsælda meðal íslenskrar æsku enda fyrsta íslenska bítlasveitin og hafði því mikil og margþætt áhrif á íslenska tónlistarsögu. Rúnar hafði í fyrstu fremur hægt um sig á sviðinu en smám saman varð það aðalsmerki hans að klifra upp á hátalarastæðurnar og spila þar, gjarnan ber að ofan, þegar feimnin hvarf. Rúnar varð því í senn frægur tónlistarmaður og kyntákn, hann var í þeirri eftirsóknarverðu stöðu að vera fremstur í flokki bítla á landinu, vera kærasti Maríu Baldursdóttur sem varð fegurðardrottning Íslands 1969 og var einnig efnilegur knattspyrnumaður. Þarna er Rúnar líklega á hátindi frægðar sinna og 1970 var hann kjörinn poppstjarna ársins á Íslandi í kosningu Karnabæjar og Vikunnar.

1969 hættu Hljómar þegar Trúbrot var stofnuð og tók sú sveit við hlutverki fyrrnefndu sveitarinnar sem fremsta og vinsælasta sveit landsins og hélt þeim titli næstu árin eða þar til Hljómar voru endurvaktir 1973 í kjölfar andláts Trúbrots. Samhliða því stofnuðu þeir Gunnar Þórðar hljómplötuútgáfu samnefnda sveitinni og gaf hljómplötuútgáfan Hljómar út næstu plötur sveitarinnar sem og fyrstu plötu Rúnars sjálfs, smáskífuna Come into my life/Let’s go dancing sem kom út 1975, hún fékk prýðilega dóma í Alþýðublaðinu og þar með var sólóferill Rúnars hafinn. Hann lagði þó áfram megin áherslu á hljómsveitirnar, Hljómar breyttu nú nafni sínu í Lónlí blú bojs og tóku upp léttari tónlistarstefnu og sveitin varð vinsæl á sveitaböllum eins og fyrri sveitirnar höfðu reyndar líka verið. Hljómar (útgáfufyrirtækið) leið undir lok 1975 í kjölfar ósættis milli þeirra Gunnars en Lónlí blú bojs starfaði þó til 1976. Þá stofnaði Rúnar útgáfufyrirtækið Geimstein og í framhaldi af því eigin hljómsveit ásamt Maríu Baldursdóttur unnustu sinni og fleirum, sem bar sama nafn – Geimsteinn. Sú sveit átti eftir að spila á böllum næstu árum og gefa út nokkrar plötur.

Fyrsta breiðskífa Rúnars, Hvað dreymdi sveininn no. 999, kom út undir merkjum nýja útgáfufyrirtækisins 1976 og á þeirri plötu má m.a. heyra upptöku af laginu Ó Jesú bróðir besti, með Rúnari fimm eða sex ára, sem afi hans hafði tekið upp á segulband. Rúnar tileinkar honum einmitt plötuna. Á umslagi plötunnar er fyrri hliðin (fordyrið) nefnd “Hvað dreymdi sveininn. Draumur nr. 999” en síðari hliðin (Bakdyr) “Málmtréð í skóginum”. Þegar platan var endurútgefin var plötuumslagið með breyttu sniði, í stað þess að vera silfurlitað og brúnt var það svart og hvítt auk þess sem myndin sem prýtt hafði bakhlið fyrri útgáfunnar, var nú bæði á fram- og bakhlið umslagsins. Platan hlaut fremur neikvæða umfjöllun í bók Jens Guðmundssonar, Poppbókinni sem út kom nokkrum árum síðar en það hefur væntanlega ekki stöðvað Rúnar, þótt næsta sólóplata kæmi reyndar ekki út fyrr en 1983 enda vann hann þá að tónlist með Áhöfninni á Halastjörnunni, sveit sem naut gífurlegra vinsælda á árunum 1980 – 83 þótt ekki væri um að ræða metnaðarfull tónlist.

Rúnar Júl1

Á áttunda áratugnum

Næsta plata Rúnars, Síðbúin kveðja, kom síðan út 1983 en það var fyrsta platan sem tekin var upp í hljóðveri sem Rúnar hafði þá núverið sett á stofn (1982) en það hlaut nafnið Upptökuheimili Geimsteins. Platan Síðbúin kveðja hafði að geyma lög og texta eftir Tim Hardin sem þá var nýlátinn og var gefin út í minningu hans en Rúnar naut aðstoðar Maríu, Þóris bróður hennar og Harold Weeler. Platan var síðan endurútgefin 1994 og endurhljóðblönduð við sama tækifæri.

Þriðja breiðskífa Rúnars bar nafn hans, hét einfaldlega Rúnar Júl. og kom út 1985. Á þeirri plötu var m.a. að finna syrpu með Hljómalögum og náði hún nokkrum vinsældum. Þórir Baldursson var hægri hönd Rúnars á þessari plötu eins og oft og vann að upptökum með honum auk þess sem hann hljóðblandaði.

Næsta plata kom ekki út fyrr en fimm árum síðar en það var platan Á ýmsum aldri og hafði hún að geyma lög Rúnars frá ýmsum tímum ferils hans, flest af fyrstu plötunni. Það var því eiginleg safnplata.

Rúnar hóf samstarf við Bubbi Morthens árið 1991 þegar þeir stofnuðu hljómsveitina GCD en sú sveit átti eftir að starfa næstu fjögur árin og gaf út á þeim tíma þrjár plötur. Platan Rúnar & Otis var hins vegar næst á sólóútgáfudagskrá Rúnars en þá plötu vann hann með Larry Otis árið 1992, félaga sínum sem gegnt hafði herþjónustu á Keflavíkurflugvelli um miðjan sjöunda áratuginn, þeir höfðu kynnst í gegnum spilamennsku Hljóma á vellinum. E.t.v. má því segja að ekki sé um eiginlega sólóplötu að ræða.

1993 fór Rúnar í samstarf með Hemma Gunn. en þeir höfðu unnið saman á nokkrum plötum með Gylfa Ægissyni og Áhöfninni á Halastjörnunni. Þeir gáfu nú saman út plötuna Hemmi Gunn og Rúnni Júl syngja fyrir börnin, það er þó ekki í fyrsta og eina skiptið sem Rúnar hefur sungið inn á barnaplötur því hann hafði áður gefið út og unnið nokkrar slíkar með Gylfa, Hemma og fleirum þar sem þeir tóku gömul ævintýri upp á sína arma.

Það má eiginlega segja að Rúnar hafi farið fyrst almennilega af stað á sólóplötuferlinu eftir að GCD hætti störfum 1995 því að varð hann gríðarlega afkastamikill. Það ár, 1995, kom út safnplatan G hliðin en á henni var t.d. að finna lög með Geimsteini og Unun, en síðarnefnda lagið hafði einungis komið út á safnplötunni Smekkleysa í hálfa öld (1994).

Um þetta leyti hafði komið í ljós að Rúnar hafði meðfæddan hjartagalla og þurfti því að gangast undir aðgerð sem heppnaðist vel, velunnarar héldu styrktartónleikaa og í kjölfarið kom út platan Með stuð í hjarta (1996).

Næsta plata kom síðan út árið eftir og bar titilinn Rokk og rólegheit, þá plötu vann Jens Hansson með Rúnari (við upptökur og hljóðblöndun) en auk þess komu synir Rúnars, Júlíus og Baldur við sögu en þeir hafa yfirleitt sett fingraför sín á plötur Rúnars eftir að þeir komust til vits og ára, þeir eru ennfremur frambærilegir tónlistarmenn og hafa gefið út sólóefni og með hljómsveitum sínum. Á plötunni Rokk og rólegheit er m.a. að finna lag Rúnars við texta Megasar.

Um þetta leyti (1997) kom út plata Dr. Gunna og vina hans, Abbababb, en á þeirri plötu söng Rúnar gestarödd í laginu Hr. Rokk og fýlustrákurinn en Hr. Rokk er auðvitað enginn annar en Rúnar sjálfur. Það lag naut töluverða vinsælda. Þeir Dr. Gunni höfðu reyndar unnið örlítið saman áður, þegar Rúnar söng lagið Hann mun aldrei gleym’enni sem hljómsveitin Unun flutti, og naut töluverðra vinsælda.

Næsta plata Rúnars, Farandsskugginn kom út 1998 en þar kom Sverrir Ólafsson Stormsker heilmikið við sögu, t.d. við útsetningar en einnig voru þeir Tryggvi Hübner og Kristján Hreinsson áberandi á plötunni, t.d. við textasmíðar. Rúnar samdi eftir sem áður lögin á plötunni, sem hlaut fremur jákvæða dóma, einkum í tímaritinu Fókus.

Næst á dagskrá var tvöföld safnplata frá ferli Rúnars, Dulbúin gæfa í tugatali (1999). Lögin sem voru 52 talsins voru valin af Júlíusi syni Rúnars og voru frá öllum tímum, frá Hljómum, Trúbrot og öðrum hljómsveitum Rúnars, auk sólóferils hans. Við kynningu á plötu þessari kom fram að plata hefði komið frá Rúnari eða hljómsveitum hans á hverju ári frá 1965, utan 1973. Platan hlaut þokkalega dóma í tímaritinu Fókus.

Önnur tvöföld plata kom út árið eftir, aldamótaárið 2000 en í þetta skiptið var ekki um safnplötu að ræða. Hún fékk nafnið Reykjanesbrautin og vísar titillinn til tvöföldunar Reykjanesbrautarinnar sem þá stóð fyrir dyrum. Á plötunni var m.a. að finna lag sem þeir Gunnar Þórðar unnu saman en slíkt hafði ekki gerst síðan á Lónlí blú bojs árunum. Platan fékk ágæta dóma í tímaritinu Fókus.

Næsta plata Rúnars, Leið yfir, kom út 2001. Að henni unnu þeir Júlíus sonur hans og Guðmundur Kristinn Jónsson sem þá var að hasla sér völl í tónlistarheiminum, með Rúnari en um þetta leyti átti útgáfufyrirtækið Geimsteinn 25 ára afmæli og taldist mönnum að Rúnar hefði samið um eða yfir þrjú hundruð lög á ferlinum þegar hér var komið sögu.

Hér var þó ekkert numið staðar heldur hélt Rúnar áfram sólóferli sínum og næsta plata kom út næsta ár (2002) og bar heitið Það þarf fólk eins og þig. Titillag plötunnar náði nokkrum vinsældum og platan hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu og þokkalega í tímaritinu Sándi. Rúnar naut aðstoðar Júlíusar og hljómsveitarinnar Fálka frá Keflavík en áðurnefndur Guðmundur Kristinn var í henni, þeir sveitarmeðlimir áttu síðar eftir að skipa hljómsveitina Hjálma.
Þetta sama ár kom einnig út platan Sungið og leikið með Rújú og gellunum en þar er eins konar fjölskyldu/barnaplata, sem hann vann ásamt nánustu fjölskyldu sinni, auk þess sem Guðmundur Kristinn og félagar komu við sögu.

Rúnar Júlíusson1

Rúnar Júl.

2004 kom næsta plata, Trúbrotin 13, sem Rúnar gaf út í minningu foreldra sinna. Platan fékk góðar viðtökur og hlaut til að mynda mjög góða dóma í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Þarna var Rúnar búinn að finna sér samstarfsmenn, Guðmund Kristin og félaga hans í Hjálmum, sem hafa unnið með honum æ síðan, til dæmis á næstu plötu, Blæbrigðum lífsins (2005) en hún var einnig helguð minningu foreldra Rúnars eins og platan á undan.

Blæbrigði lífsins fékk nokkuð jákvæða gagnrýni í Morgunblaðinu. Plöturnar Trúbrotin 13 og Blæbrigði lífsins hafa á sér vissan trúarlegan blæ. Á árinu 2005 var Rúnar sæmdur nafnbótinni heiðursverðlaunahafi útvarpsstöðvarinnar XFM, hlaut nafnbótina listamaður Reykjanesbæjar og það sama ár kom út bókin Herra Rokk sem þeir Rúnar og Ásgeir Tómasson poppfræðingur unnu saman að. Rúnar kom ennfremur fram ásamt Sigurði Guðmundssyni á tónleikum til heiðurs Herði Torfasyni þetta haust og kom afraksturinn síðan út á plötu árið eftir undir nafninu Hörður Torfason: Heiðurstónleikar 10.09.05.

Og enn hélt Rúnar áfram að gefa út plötur, Nostalgía (2006) var næst á dagskrá en hún hafði að geyma gömul lög sem Rúnar tók upp á sína arma, lög sem hafa af einhverjum ástæðum verið í uppáhaldi hjá honum. Nostalgía fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu.

Næsta ár, 2007 komu út tvær plötur með Rúnari. Snákar í garðinum var hin dæmigerða Rúnarsplata og hlaut mjög góða dóma í Morgunblaðinu en einnig kom út jólaplatan Jólaóður þar sem Rúnar syngur ásamt Schola cantorum sem þarna syngur undir stjórn mágs Rúnars, Þóris Baldurssonar. Platan fékk einnig mjög góða dóma í Morgunblaðinu en á plötunni er að finna ýmis gömul jólalög. Í upphafi árs 2008 hlaut Rúnar síðan heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna sem eru líklega einn mesti heiður sem íslenskum tónlistarmönnum getur hlotnast, þau verðlaun hlaut hann fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar.

Rúnar hefur alltaf verið duglegur að spila opinberlega og hefur ætíð starfrækt eigin hljómsveitir þó þær standi ekki endilega í útgáfumálum. Hljómsveitin Geimsteinn hefur til dæmis alltaf verið starfandi þótt með hléum sé og einnig hefur Rúnar haldið úti Rokksveit Rúnars Júl. ásamt sonum sínum, þar er skipan meðlima reyndar eitthvað á reiki. Menn geta verið sammála því að þótt margt af því sem Rúnar hefur gert í tónlistarsköpun sinni í gegnum tíðina sé misgott, að þá hefur hann alltaf haldið sínu striki og er einhver virtasti tónlistarmaður Íslandssögunnar, hann hefur ennfremur almennt gengið undir heiðursnafnbótinni eilífðartöffari og ekki síður í seinni tíð en þegar hann stóð á hátalaraboxum sviðsins í Glaumbæ eða annars staðar með Hljómum.

Rúnar lést 5. desember 2008 af völdum hjartaáfalls og var mikill sjónarsviptir af þessum litríka tónlistarmanni. Um svipað leyti kom úr þriggja platna safn með lögum Rúnars, Söngvar um lífið 1966 – 2008 en á henni var að finna úrval laga sem þeir feðgar Rúnar, Júlíus og Baldur höfðu valið, á plötuumslagi segir að safnið hafi sérstaklega verið gefið út í tengslum við heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna og að móðir Rúnars, Guðrún Bergmann, hefði orðið 100 ára á árinu. Platan fékk frábæra dóma í Fréttablaðinu.

Minningartónleikar voru haldnir 2. maí 2009 um Rúnar og voru þeir gefnir út á tvöfaldri plötu um haustið af Geimsteini undir titlinum Minningartónleikar Rúnar Júlíusson 2. maí í Laugardalshöll. Á þeim tónleikum komu fjölmargir tónlistarmenn við sögu og heiðruðu minningu Rúnars.

2009, ári eftir andlát Rúnars hafði verið gerð stytta af Rúnari en ekki fékkst fjármagn til að reisa hana á viðeigandi stað, söfnun fór í gang vegna þessa, lyktir mála urðu þó að styttan var reist á hamborgarastað í Reykjavík. Fleira var gert til að varðveita minningu Rúnar, t.d. kom út um svipað leyti ljósmyndabókin Dagur með Rúnari eftir Þorfinn Sigurgeirsson í hundrað eintökum.

Lög Rúnars og hljómsveita hafa í gegnum tíðina ratað á fjömargar safnplötur og má nefna hér örfáar s.s. Ivy – complex of Icelandic pop music (1996), Afsakið hlé (2002), Óskalögin, Ástarperlur, Ástin og lífið, Pottþétt plöturnar og Bítlabærinn Keflavík, svo fátt eitt sé nefnt.

Efni á plötum