Afmælisbörn 26. maí 2024

Hartmann Guðmannsson

Sjö afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar í dag:

Villi Valli (Vilberg Vilbergsson) hárskeri og tónlistarmaður á Ísafirði er níutíu og fjögurra ára á þessum ágæta degi. Villi Valli, sem upphaflega kemur reyndar frá Flateyri, var mikill djassvakningarmaður á Vestfjörðum og starfrækti margar sveitir sem sérhæfðu sig í þeirri tegund tónlistar, meðal sveita sem hann lék með og starfrækti voru Hljómsveit Vilbergs Vilbergssonar, VV kvartett, Villi, Gunnar og Haukur, M.G. tríó og S.V.O. tríóið en einnig stjórnaði hann Lúðrasveit Ísafjarðar svo annars konar dæmi séu tekin. Tvær plötur hafa komið út með Villa Valla.

Ólafur Sigurðsson trommuleikari er sjötíu og fjögurra ára gamall í dag en hann lék með mörgum þekktum hljómsveitum hér fyrrum. Meðal sveita sem hann gerði garðinn frægan með má nefna Pops, Zoo, Rosie, Tatara, Tilveru, Eik, Kamarorghesta og Pelican.

Sigurður G. Daníelsson organisti, kórstjóri og tónlistarkennari (1944-2023) átti þennan afmælisdag. Sigurður stjórnaði á sínum tíma allmörgum kórum á landsbyggðinni s.s. Samkór Tálknafjarðar og Samkórnum Björk, og starfaði þá sem tónlistarkennari og -skólastjóri auk organisti en hann kom jafnframt alloft fram sem undirleikari með kórum og einsöngvurum. Sigurður sendi einnig frá sér eina plötu með dinner tónlist.

Gunnar Páll Ingólfsson var fæddur þennan dag 1934, hann lék á gítar með fjölda hljómsveita á yngri árum og á miðjum aldri varð hann frumkvöðull hér á landi í að leika á skemmtara á hótelum og öldurhúsum borgarinnar. Gunnar Páll samdi líka tónlist og hafa einhver þeirra komið út á plötum en ekkert frumsamið efni var þó að finna á tveimur plötum sem hann sendi frá sér í kringum aldamótin. Gunnar Páll lést 2019.

Þór Nielsen (1941-2020) söngvari og gítarleikari átti afmæli á þessum degi, hann söng og lék á gítar með fjölda hljómsveita og þeirra á meðal má nefna sveitir eins og J.J. quintet, Junior kvintett, Tígris sextettinn, Pónik, Venus kvartettinn, Örvartríóið, Þórsmenn, City sextett, Ásar, Glæsir, Flamingo kvartetttinn og Tríó Elfars Berg svo aðeins hluti þeirra sé hér upptalinn.

Viðar Alfreðsson horn- og trompetleikari (f. 1936) hefði líka átt afmæli þennan dag. Viðar lék með mörgum þekktum danshljómsveitum hér fyrrum s.s. Hljómsveit Svavars Gests og Hljómsveit Björns R. Einarssonar, og einnig á mörgum plötum allt þar til hann lést árið 1999. Ein plata leit dagsins ljós með Viðari, hún kom út árið 1980 og hét Viðar Alfreðsson spilar og spilar.

Að síðustu er hér nefndur harmonikkuleikarinn Hartmann Guðmannsson. Hartmann fæddist í Svarfaðardalnum á þessum degi árið 1935, lék á dansleikjum nyrðra um árabil áður en hann fluttist suður til Reykjavíkur þar sem hann starfaði lengi með félagi harmonikuunnenda. Hann sendi frá sér eina plötu með frumsaminni harmonikkutónlist. Hartmann lést árið 2019.

Vissir þú að Glatkistan hefur upplýsingar um þrjár hljómsveitir sem bera nafnið Ha?