Sigurður G. Daníelsson (1944-)

Sigurður G. Daníelsson

Sigurður G. Daníelsson hefur starfað víða um land sem tónlistarkennari, organisti og kórstjórnandi en er nú sestur í helgan stein, hann hefur gefið út eina plötu með dinner tónlist.

Sigurður Gunnar Daníelsson er fæddur 1944 en takmarkaðar upplýsingar er að finna um bernsku- og unglingsár hans sem og tónlistarmenntun, hann mun þó hafa búið bæði á Siglufirði og Höfn í Hornafirði áður en hann fluttist vestur á firði en hann starfaði sem organisti á Tálknafirði, stjórnaði þar Samkór Tálknafjarðar um tíma og væntanlega hefur hann einnig stjórnað kirkjukórnum á staðnum, þá var hann skólastjóri tónlistarskólans á staðnum og kom að ýmsum tónlistartengdum viðburðum í héraðinu með hljóðfæraleik, tónlistarstjórn við áhugaleikhús o.fl.

Frá Tálknafirði fór Sigurður austur í Húnavatnssýslu þar sem hann gegndi svipuðu hlutverki í menningar- og tónlistarlífi Húnvetninga, hann var tónlistarkennari á Blönduósi og organisti og kórstjóri við Blönduóskirkju og Hólaneskirkju á Skagaströnd, hann stjórnaði þar einnig Samkórnum Björk og stúlknakór á Blönduósi um tíma. Hann tók þátt í hvers konar tónlistartengdum uppákomum á svæðinu einnig s.s. tengt Húnavöku, og kom oft fram sem undirleikari m.a. Lóuþræla og Jóhanns Más Jóhannssonar einsöngvara svo dæmi séu nefnd.

1991 fluttist Sigurður aftur vestur á firði en að þessu sinni til Súgandafjarðar, gerðist skólastjóri tónlistarskólans á Suðureyri, stjórnaði þar kirkjukórum og gegndi starfi organista, stjórnaði þar einnig barnakór. Hann virðist svo hafa fært sig um set og starfaði á Þingeyri við Dýrafjörð við tónlistarskólann, sem organisti og stjórnandi kirkjukórs, á sumrin starfaði hann svo sem safnvörður við safnið um Jón Sigurðsson. Frá Vestfjörðum fór Sigurður til Raufarhafnar þar sem hann gerðist tónlistarkennari en hann hætti að kenna árið 2012, hann hefur búið á Raufarhöfn síðustu árin.

Árið 2002 kom út píanóplata á vegum Vestfirska forlagsins í nafni Sigurðar, hún bar heitið Dinner I: Sigurður G. Daníelsson leikur af fingrum fram, og hefur að geyma tuttugu lög úr ýmsum áttum og frá ýmsum tímum – dinnertónlist eins og titillinn ber með sér. Platan hlaut þokkalega gagnrýni í Morgunblaðinu.

Sigurður hefur samið bæði lög og texta í gegnum  tíðina en ekki er að sjá að mörg þeirra hafi komið út á plötu, þó liggja fyrir heimildir um lagið Leysum festar á plötu Samkórsins Bjarkar, Blöndu (2008). Honum er einnig ýmislegt annað til lista lagt, hann hefur haldið málverkasýningar og er jafnframt liðtækur skákmaður og hefur keppt í þeirri íþrótt um árabil.

Efni á plötum