Gunnar Páll Ingólfsson (1934-2019)

Gunnar Páll Ingólfsson

Tónlistarmaðurinn Gunnar Páll Ingólfsson starfaði með fjölmörgum hljómsveitum eftir miðja síðustu öld og spilaði svo um árabil á skemmtara á hótelum á höfuðborgarsvæðinu, hann var síðan kominn á sjötugs aldur þegar hann sendi frá sér tvær plötur.

Gunnar Páll (f. 1934) starfaði víða á ferli sínum s.s. sem kjötiðnaðarmaður, ritstjóri og matreiðslumaður en tónlistin var alltaf aukastarf. Hann lék á yngri árum sínum með fjölmörgum hljómsveitum, fyrst með sveit í eigin nafni en síðan með sveitum eins og Kátum félögum (K.F. quartet), Hljómsveit Karls Jónatanssonar, Neo og Hljómsveit Gunnars Ormslev, Gunnar lék iðulega á gítar á þessum árum og einnig söng hann oft í sveitum sínum.

Fáar heimildir er að finna um tónlistarferil Gunnars á tímum bítla og blómabarna en eftir 1970 fór aftur að kveða nokkuð að honum, hann starfaði þá með Hljómsveit Ásgeirs Sverrissonar og Þristum sem skilgreindar voru sem gömlu dansa hljómsveitir en einnig var hann þá nokkuð að koma fram einn og syngja. Um 1980 hófst síðan blómaskeið skemmtaranna þar sem tónlistarmenn léku á svokallaða skemmtara sem voru á við heila hljómsveit og þá var Gunnar töluvert áberandi, fyrst í stað ásamt Jónasi Þóri á Hótel Esju en síðan einn á stöðum eins og Hótel Loftleiðum, Grand hótel, Kringlukránni og víðar, allt fram til ársins 2010 að minnsta kosti.

Skemmtaraspilamennska einkenni þannig síðari hluta tónlistarferils Gunnars og þá gaf hann einnig út tvær plötur með þess konar tónlist þar sem hann söng jafnframt, Golden melodies (1997) og Golden melodies 2: Gunnar Páll plays and sings popular favorites straight from the heart (2001).

Þess má geta að Gunnar samdi einnig lög og texta sjálfur og fáein lög eftir hann hafa komið út á plötum, Útlaginn, Tveir á ferð og Kveðja förumannsins eru dæmi um slík en síðast talda lagið kom út með Vilhjálmi Vilhjálmssyni.

Gunnar Páll Ingólfsson lést haustið 2019 áttatíu og fimm ára gamall.

Efni á plötum