Viðar Alfreðsson (1936-99)

Viðar Alfreðsson 1981

Viðar Alfreðsson tónlistarmaður var lengi vel fremstur íslenskra tónlistarmanna þegar kom að blásturshljóðfærum en hann blés í flest málmblásturshljóðfæri og var jafnvígur á klassík og djass. Líklega kom þó skaplyndi hans í veg fyrir frekari frama á erlendri grundu en varð um leið til að Íslendingar nutu krafta hans þess í stað. Ferli hans má skipta í þrjú tímabil, fyrst eru hér nefnd hljómsveita-árin um miðjan sjötta áratuginn, þá náms- og starfsferill erlendis, og að síðustu kennslu- og spilaferill hér heima.

Viðar fæddist í Reykjavík vorið 1936, hann hlaut nokkurt tónlistarlegt uppeldi þar sem faðir hans lék á píanó (sjálfmenntaður) og því hóf Viðar sjálfur píanónám ungur að árum, hann lék einnig á harmonikku á þessum æskuárum sínum.

Fyrsta opinbera framkoma Viðars var þegar hann, níu ára gamall, lék á píanó í barnatíma útvarpsins, en það átti hann eftir að gera oftar, tvívegis að minnsta kosti um fjórtán og fimmtán ára aldur. Hann hóf ekki að læra á blásturshljóðfæri fyrr en hann varð 17 ára, hann var þá við vinnu í Vestmannaeyjum og lærði þar að blása í trompet undir handleiðslu Höskuldar Þórhallssonar en hljóðfærið hafði hann eignast nokkuð áður. Fyrsta hljómsveitin sem Viðar starfaði með var því Hljómsveit Guðjóns Pálssonar í Eyjum, reyndar hafði hann í eitt sinn leikið á trompet með ónefndri hljómsveit á dansleik í Hveragerði en hafði þá ekki kunnað nema þrjár nótur að sögn.

Viðar lærði einnig á hljóðfærið hjá Páli Pampichler Pálssyni þegar hann kom aftur til Reykjavíkur en að öðru leyti benti ekkert til að hann yrði tónlistarmaður að atvinnu enda var hann þá byrjaður nám í prentiðn, eins og svo margir á þessum tíma.

Frá og með 1956 þegar Viðar var liðlega tvítugur, hófst tónlistarferill hans hér heima, fyrst lék hann með Hljómsveit Stefáns Þorleifssonar sem fór víða um í spilamennsku sinni en það var svo með Hljómsveit Gunnars Ormslev sem hann vakti fyrst verulega athygli. Sú sveit, sem lék mestmegnis djasstónlist, fór t.a.m. og lék árið 1957 á mikilli æskulýðshátíð í Moskvu með Hauki Morthens söngvara, og einnig til Svíþjóðar ári síðar. Í Sovétríkjunum vann sveitin til gullverðlauna og vakti það mikla athygli hér á landi – nema hjá Morgunblaðinu sem minntist ekkert á afrekið. Upptökur frá Moskvu má heyra á plötunni Gunnar Ormslev: Jazz í 30 ár, sem kom út á vegum Jazzvakningar árið 1983.

Í kjölfar Svíþjóðar-fararinnar 1958 fór Viðar til Þýskalands og hóf þar trompetnám í Hamborg um haustið. Í Hamborg var hann í námi í tvö ár en kom heim og spilaði hér heima á sumrin, svo mikið efni þótti Viðar þá að um haustið 1959 voru haldnir hér styrktartónleikar fyrir hann svo hann gæti haldið áfram námi.

Viðar Alfreðsson

Þegar því lauk kom Viðar heim sumarið 1960 og tók þá stöðu fyrsta trompetleikara Sinfóníuhljómsveitar Íslands, um það leyti lék hann með nokkrum danshljómsveitum hér heima s.s. hljómsveitum Svavars Gests, Björns R. Einarssonar, Sverris Garðarssonar og Ragnars Bjarnasonar.

Haustið 1961 fór Viðar aftur utan og nú til London til sex mánaða dvalar, hann lék þá um veturinn lítillega með Sinfóníuhljómsveit BBC. Um vorið fór hann til Danmerkur og starfaði með hljómsveitum sem léku m.a. á hótelum í Kaupmannahöfn um sumarið áður en hann kom til Íslands um tíma. Þann stutta tíma sem hann var hér á landi lék hann m.a. með Hljómsveit Gunnars Ormslev á jam sessioni og þá varð mönnum ljóst hversu góður hann var orðinn. Hann fór aftur til London um haustið 1962 en nú var hann við nám við Guildhall School of Music and Dram næstu tvö árin og fékk til þess námstyrk veturinn 1963-64. Viðar hafði nú skipt um hljóðfæri og á þeim tíma var hornið orðið aðalhljóðfæri hans.

Að námi loknu í Bretlandi gekk Viðar til liðs við hljómsveit Sadler‘s Wells leikhússins í London um haustið 1964, þar lék hann á horn og starfaði þar næstu fimm árin, lék m.a. í sjötíu og tveimur óperuuppfærslum. Eftir að hann hætti þar störfum árið 1969 var hann við lausamennsku í um hálft ár áður en hann réðist til BBC og lék með útvarpshljómsveitinni næstu tvö árins eða til ársins 1971. Þar lék hann með ýmsum þekktum tónlistarmönnum svo sem Engelbert Humperdinck og Tom Jones en einnig kom hann við sögu í tónlistarflutningi um þrjátíu kvikmynda og í ýmsum söngleikjum á þessum árum, þá fékkst hann einnig við tónlistarkennslu í London auk annarra tónlistartengdra verkefna.

Segja má að sól Viðars hafi risið hvað hæst á Lundúnarárunum en dvölin þar tók nokkuð snöggan endi, hann hafði verið í sambúð með konu og eignast með henni barn en þegar þau slitu samvistir varð hörð forræðisdeila yfir barninu til þess að hann kom heim til Íslands í fússi.

Viðar hafði þarna verið erlendis í um tólf ár og gert það virkilega gott í tónlistarbransanum ytra en ákveðnir skapbrestir orðið til þess að hann kom heim, hann vildi þó alltaf fara aftur utan og vann að því hörðum höndum en aldrei varð úr því og má segja að þessu tímabili á ferli hans hafi lokið nokkuð snögglega.

Þess í stað tók Viðar til við tónlistarkennslu hér heima m.a. við Tónlistarskólann í Reykjavík, auk spilamennsku með Sinfóníuhljómsveit Íslands sem fyrsti hornleikari. Samhliða störfum sínum með sinfóníuhljómsveitinni lék hann með danshljómsveitum s.s. Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar og fór m.a. með þeirri sveit hringinn í kringum landið og lék á héraðsmótum sjálfstæðismanna, síðar áttu slíkar ferðir með Ragnari eftir að kallast Sumargleðin.

Segja má að blómaskeið Viðars hér heima hafi verið áttundi áratugurinn, hann lék oft einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og þegar djasstónlistartengdir viðburðir stóðu til á vegum Jazzvakningar var iðulega kallað til hans og lék hann t.d. með fjölmörgum erlendum gestum sem hingað komu. Einnig lék Viðar með sveitum eins og Jazzmönnum og Kammerjazzsveitinni, og lék á hvers kyns málmblásturhljóðfæri eftir því sem við átti í hvert sinn s.s. trompet, kornett, takkabásúnu, flygelhorn, túbu eða horn. Það vakti sérstaka athygli þegar Viðar lék á túbu á djasstónleikum en það hafði aldrei verið gert hér á landi áður og er reyndar fáheyrt í nútímadjassi hvar sem er í heiminum.

Viðar á níunda áratugnum

Þegar íslensk-ættaði bassaleikarinn Bob Magnusson kom hingað til lands árið 1980 var settur saman kvintett (Bob Magnusson group) hér heima til tónleikahalds og plötuupptöku, og var Viðar í þeirri sveit. Herlegheitin voru gefin út undir titlinum Jazzvaka, og hlaut mikla athygli.

Viðar lék jafnfram samhliða öðrum verkefnum með öðrum tónlistarmönnum inn á fjölda vinsælla og söluháa hljómplatna s.s. Hljómsveitar Magnúsar Kjartanssonar, Ríó tríós, Halla og Ladda, Júdasar, Kötlu Maríu, Fjórtán fóstbræðra, Brunaliðsins, Ása í Bæ, Vilhjálms Vilhjálmssonar, Megasar og Spilverks þjóðanna svo einungis brot sé hér nefnt, einnig kom hann fram í ógrynni tónlistaratriða í sjónvarpinu.

Ferill Viðars með Sinfóníuhljómsveit Íslands hlaut nokkuð snöggan endi árið 1981 eftir deilur við yfirmenn sína og hafði skaplyndi hans nokkuð um það að segja, einhverjir samstarfsmenn hans í hljómsveitinni höfðu orðið fyrir því að vera beittir órétti sem hann stóð með þeim í, en gekk það langt að fara í það sem kallað var „eins manns verkfall“ sem endaði með því að honum var sagt upp störfum.

Um svipað leyti og Viðar hætti með sinfóníuhljómsveitinni kom út plata með honum en vinna við hana hafði þá staðið um tíma. Hún var að mestu tekin upp og hljóðblönduð í Hljóðrita í Hafnarfirði af Jónasi R. Jónssyni og hét einfaldlega Viðar Alfreðsson spilar og spilar / plays and plays, hann gaf plötuna út sjálfur. Á henni var að finna níu lög úr ýmsum áttum en eitt þeirra átti hann sjálfur. Útgáfa plötunnar þóttu heilmikil tíðindi því það var ekki á hverjum degi sem gefin var út einleikaraplata á Íslandi, hún hlaut ágæta dóma í Dagblaðinu og Helgarpóstinum. Platan var síðan endurútgefin ásamt Jazzvökunni með Bob Magnusson group og Nafnakalli Guðmundar Ingólfssonar á tvöfaldri plötu ásamt aukaefni undir nafninu Jazzvaka Guðmundar og Viðars, árið 2001.

Viðar hafði frá árinu 1978 kennt við Tónlistarskólann í Keflavík og þar átti hann þátt í að stofna unglingalúðrasveit sem hann og stjórnaði, þá stóð einnig til að endurvekja Lúðrasveit Keflavíkur en af því varð ekki og hann hætti störfum árið 1984 eftir deilur við yfirmenn sína. Þetta varð til þess að hann fluttist út á land til að kenna við tónlistarskóla víðs vegar um landsbyggðina, fyrst við Tónlistarskóla Rangæinga (1984-86) en síðar norður í Þingeyjasýslu þar sem hann gerðist skólastjóri Tónlistarskóla Mývatnssveitar (1986-94), og enn síðar við kennslu á Húnavöllum (1994-95) og víðar við góðan orðstír og náði að vekja upp tónlistaráhuga víða um land með kennslu sinni. Í minningargrein um hann var talað um að hann hefði í raun verið í eins konar sjálfskipaðri útlegð frá höfuðborginni eftir uppákomuna í sinfóníuhljómsveitinni, hann var aldrei alveg sáttur við sitt hlutskipti en var of þrjóskur til að snúa aftur suður til Reykjavíkur.

Þótt Viðar reyndi að halda sér við í spilamennskunni, m.a. með því að leika reglulega á Jazzhátíðinni á Egilsstöðum, djasshátíðum í Mývatnssveit og víðar um land, sem og stöku sinnum á höfuðborgarsvæðinu, oft með Tómasi R. Einarssni, All star band o.fl., s.s. á RÚREK og víðar, þá varð ekki hjá því komist að hann ryðgaði smám saman í spilamennskunni og hvarf nokkuð úr sviðsljósinu. Ekki hjálpaði til að hann hafði þurft að kljást við veikindi frá því um 1990 en það var svo árið 1998 sem hann veiktist alvarlega og ári síðar lést hann, haustið 1999, þá höfðu verið haldnir styrktartónleikar fyrir hann um vorið. Síðustu árin bjó hann í Neskaupstað.

Viðars verður alltaf minnst sem mikils hæfileikamanns á sínu sviði en brestir í skapgerð hans hafi nokkuð haft um það að segja hvernig mál hans þróuðust, þeir hafi þó um leið haft heilmikið um það að segja að Íslendingar nutu hæfileika hans betur en ella þar sem hann sneri aftur til Íslands í upphafi áttunda áratugarins. Hans hefur reglulega verið minnst á hinni árlegu Jazzhátíð í Skógum en þar hafði hann verið við nám við héraðskólann á unglingárum, og þess má geta að hljóðfæri hans eru til varðveislu og sýningar á Byggðasafninu í Skógum.

Efni á plötum