Villi Valli (1930-)

Villi Valli

Villi Valli er líkast til einn þekktasti tónlistarmaður Vestfjarða, hann starfrækti fjölda sveita um og eftir miðja síðustu öld og sendi frá sér tvær plötur eftir sjötugt.

Villi Valli sem heitir fullu nafni Vilberg Valdal Vilbergsson er fæddur á Flateyri vorið 1930 og hefur alið manninn nánast alla sína tíð fyrir vestan. Á æskuárum sínum á Flateyri kynntist hann tónlistinni snemma, hann var farinn að fikta við harmoníum orgel um fimm ára aldur og þegar hann var tíu ára gamall skemmti hann á barnaballi stúku sem hann var í. Um svipað leyti var hann farinn að leika á harmonikku en hann var sjálfnema á hljóðfærið eins og harmoníumið.

Villi Valli lék á dansleikjum vestra í fyrsta sinn þegar hann var aðeins tólf ára gamall, hann átti ekki harmonikku sjálfur í byrjun en leigði hljóðfæri þar til hann eignaði sjálfur eina, þá var hann fjórtán ára gamall. Hann lék heilmikið á böllum á sínum yngri árum og spilaði þá ýmist einn eða í félagi við annan nikkuleikara. Síðar komu hljómsveitirnar til sögunnar.

Vilberg var á síld í Djúpuvík átján ára gamall þegar hann lærði að lesa nótur með hjálp Guðmundar Norðdahl sem þá var þar einnig við vinnu, Guðmundur kenndi Villa Valla einnig að spila á saxófón en sjálfur var hann klarinettuleikari. Fljótlega eftir þetta stofnaði Villi Valli sína fyrstu hljómsveit heima á Flateyri, S.V.O. tríóið sem samanstóð af tveimur harmonikkum og trymbli, ef píanó var í boði lék hann þó frekar á það. Með þeirri sveit lék hann næstu tvö sumur en á veturna lék hann með M.G. tríóinu á Ísafirði.

Snemma árs 1950 fór Villi Valli til Reykjavíkur að freista þess að komast í iðnnám, það tókst ekki en samhliða fiskvinnslu starfaði hann í lausamennsku í tónlistinni og lék með hinum og þessum hljómsveitum um helgar. Um vorið fór hann aftur vestur á Ísafjörð og hóf þar nám í hárskurði. Um þetta leyti byrjaði hann að leika með Lúðrasveit Ísafjarðar en einnig hófst nú spilamennska hans með ýmsum hljómsveitum, flestum í hans nafni. Villi Valli starfrækti sveitir af ýmsu tagi næstu árin og af ýmsum stærðum, þær gengu undir nöfnum eins og V.V. sextett, V.V. tríó, V.V. & Barði o.fl. eftir stærð og skipan hverju sinni. Hann tók ennfremur við stjórn lúðrasveitarinnar árið 1959 þegar stjórnandi hennar, Harry Herlufsen hárskeri flutti úr bænum, jafnframt því keypti hann einnig rakarastofu Harrys sem hann starfrækti þar hann fór á eftirlaun.

Villi Valli hætti um tíma að starfrækja hljómsveit í eigin nafni árið 1964 en þegar hártískan tók að síkka varð minna að gera á stofunni hjá honum og byrjaði hann á aftur í bransanum og gekk til liðs við hljómsveitina Sexmenn sem hann starfaði með um tíma, það var árið 1967. Lúðrasveit Ísafjarðar stjórnaði hann til ársins 1969. Árið 1972 byrjaði hann með tríó sem lengst af gekk undir nafninu Villi, Gunni og Haukur en nafnið var eitthvað misjafnt eftir því hverjir störfuðu með honum. Tríóið starfaði til 1982 og var m.a. húshljómsveit í Gúttó á Ísafirði. Árið 1985 startaði hann hljómsveit sem starfaði í um eitt ár og eftir það lék hann með hinum og þessum eftir því sem vindar blésu, oft með harmonikkuhljómsveitum en einnig djassböndum, Saltfisksveit Villa Valla er ein þeirra sveita en einnig hefur hann leikið dinnertónlist á Hótel Ísafirði.

Þegar Villi Valli varð sjötugur vorið 2000 sendi hann frá sér plötu sem bar nafn hans. Á henni er að finna fjórtán lög eftir hann en fjölmargir landsþekktir tónlistarmenn komu að gerð hennar undir stjórn Eyþórs Gunnarssonar, fjölskylda Villa Valla gaf plötuna út.

Átta árum síðar kom önnur plata út í hans nafni, hún hlaut nafnið Í tímans rás og var gefin út af 12 tónum. Margir lögðu Villa Valla lið, bæði vestfirskir tónlistarmenn sem og sunnlenskir en meðal þeirra má nefna Flís-tríóið. Það var Viðar Hákon Gíslason (Trabant o.fl.) barnabarn Villa Valla sem hafði veg og vanda af þessu verkefni en tónlistin var djassskotin. Platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu og tímaritinu Monitor. Og talandi um ættartengsl, þá má geta þess einnig að Rúnar Vilbergsson fagottleikari (Þursaflokkurinn o.fl.) er sonur Villa Valla.

Efni á plötum