Vilhjálmur frá Skáholti (1907-63)

Vilhjálmur frá Skáholti

Skáldið Vilhjálmur frá Skáholti (stundum ranglega sagður vera frá Skálholti) telst seint til tónlistarmanna og verður kannski minnst um aldur og ævi sem drykkfellds skálds, ljóð eftir hann eru þó samtvinnuð nokkrum vinsælum sönglögum sem flestir kannast ennþá við í dag. Auk þess kom út lítil hljómplata með upplestri hans á ljóðum.

Vilhjálmur hét fullu nafni Vilhjálmur Björgvin Guðmundsson og var fæddur árið 1907 í Reykjavík, yngstur átta systkina. Hann kenndi sig alltaf við húsið Skáholt en það stendur enn við Bræðraborgarstíg í vesturbæ Reykjavíkur. Það að hann notaði aldrei föðurnafn sitt varð ein af ástæðum þess að sögusagnir kviknuðu þess eðlis að hann væri launsonur þjóðskáldsins Einars Benediktssonar, auk þess þótti hann afar líkur Einari og það færðist í aukana eftir því sem Vilhjálmur eltist.

Vilhjálmur sagði frá því í blaðaviðtali á sínum tíma að hann hefði byrjað að yrkja um sextán eða sautján ára aldur, fyrsta ljóðabók hans leit dagsins ljós 1931 (Næturljóð) og svo komu Vort daglega brauð (1935), Sól og menn (1948) og Blóð og vín (1957), þá kom út safn ljóða hans 1959 sem bar heitið Jarðnesk ljóð.

Menn vildu á sínum tíma meina að Vilhjálmur hefði verið mikið skáld og ætti fremur skilið titilinn Reykjavíkurskáld en Tómas Guðmundsson þar eð hann bjó alltaf í borginni, en skort aga og festu, sem sjálfsagt má að einhverju leyti rekja til lífernis hans en hann drakk mikið. Þó var alltaf hálfgerð reisn yfir honum í því ástandi þar sem hann hafði oft um sig hálfgerða hjörð drykkjumanna sem eltu hann hvert sem var. Það kom fyrir að skáldinu var stungið í steininn og einhverju sinni var hann vistaður á Kleppi um tíu mánaða skeið gegn vilja sínum en lögreglan hafði komið honum þangað í afvötnun. Þeim málum lyktaði nokkrum árum síðar með því að ríkið þurfti að greiða honum bætur eftir að hann fór í mál vegna málsins.

Þess á milli gat Vilhjálmur verið þurr til lengri tíma og vann hann þá stundum erfiðisvinnu, þannig var hann til sjós í samtals tíu ár og jafnvel enn lengur starfaði hann við múrverk. Þess á milli gat hann dvalið tímunum saman í Austurstrætinu og selt blóm og jólatré en bróðir hans stofnað og rak blómabúðina við Birkimel þaðan sem hann fékk söluvöruna. Um 1960 opnaði Vilhjálmur verslun (sem nefnd var Vilhjálmsbúð) í kjallara í Aðalstrætinu þar sem hann seldi blóm og listmuni úr fórum sínum s.s. málverk og fleira, margir vildu kalla þetta skranbúð en þarna var iðulega margt um manninn og mannfagnaðir. Þegar skáldið var í drykkjuham var partístandið í kjallaranum versluninni yfirsterkari og stundum kom fyrir að miði var á hurðinni í nokkrar vikur með skilaboðunum „Lokað í nokkrar mínútur“.

Málverk Sigfúsar Halldórssonar af Skáholti

Samhliða sukkinu orti Vilhjálmur þó alltaf og hann vann reyndar einnig að skáldsögu sem hann lauk við fyrsta bindi af þremur, hún kom þó aldrei út. Hann var náinn vinur Sigfúsar Halldórssonar og samdi m.a. ljóðin við lög Sigfúsar, Litlu fluguna og Íslensk ástarljóð (Litla fagra ljúfa vina) sem enn eru þekkt í dag, þá samdi hann einnig ljóðið við lög Hauks Morthens, Ó borg mín borg og Simbi sjómaður, sem og ljóðið Jesús kristur og ég við lag Magnúsar Eiríkssonar í flutningi Mannakorna. Þá gerðu Brimklóar-liðar lag við ljóðið Herbergið mitt á sínum tíma sem einnig naut nokkurra vinsælda og einnig eru hér nefndir tónlistarmennirnir Hörður Torfa og Góli (Guðmundur Óli Scheving) sem hafa samið lög við ljóð hans. Árið 1960 kom út lítil plata á vegum Fálkans sem hafði að geyma upplestur skáldsins á nokkrum ljóða sinna.

Vilhjálmur bjó lengi vel í tveggja hæða bragga sem hafði verið reistur á stríðsárunum þar sem Hjarðarhagi stendur nú. Sumarið 1963 hrasaði hann efst í stiga hússins, féll niður hann og lenti með höfuðið á miðstöðvarofni fyrir neðan, morguninn eftir var hann látinn. Tveimur sögum fór af því hvernig andlát hans hefði borið að, annars vegar var sagt að hann hefði látist af völdum slyssins en hins vegar að hann hefði látist úr lungnabólgu. Ennfremur var hermt í einu blaðanna að hann hefði dottið í Bjarnaborg (við Hverfisgötu) en ekki í bragganum. Vilhjálmur var þá á fimmtugasta og sjötta aldursári.

Eftir andlát Vilhjálms má segja að nafn hans hafi týnst um tíma og að lögin sem ljóð hans voru samin við hafi verið eini minnisvarðinn um skáldið. Heildarsafn með ljóðum hans, Rósir í mjöll, var gefið út árið 1992 en þau höfðu þá verið illfáanleg um áraskeið. Sögurnar af honum hafa þó lifað og lífseig er sú er segir af því þegar Bretarnir gengu á land hér eldsnemma að morgni 10. maí 1940, þá mun Vilhjálmur hafa staðið við hafnarbakkann nokkuð í glasi og haft uppi mótmæli með hrópum á borð við „Ég fyrirbýð ykkur að stíga hér á land“. Karakter hans er kannski best lýst með hans eigin orðum í blaðaviðtali þegar hann sagði að bestu árum ævi sinnar hefði hann eytt í atvinnuleysi, drykkjuskap, ljóðagerð og kvennafar.

Efni á plötum