Viktoria Spans (1943-)

Viktoria Spans

Hin hálf íslenska söngkona Viktoria Spans var ekki áberandi í íslensku tónlistarlífi þótt hún kæmi hingað stundum til tónleikahalds, ein plata kom út með henni hér heima en þrjár í Hollandi.

Viktoria fæddist hér á landi 1943, barn íslenskrar móður og hollensks föður. Þegar hún var fjögurra ára gömul fluttist fjölskyldan til Utrecht í Hollandi og bjó þar æ síðan og býr hún þar reyndar líklega ennþá. Hún var síðan orðin sextán ára þegar hún kom næst til Íslands, hún hafði þá tapað tungumálinu að mestu en það átti eftir að koma aftur eftir nokkra dvöl og fjölmargar heimsóknir til landsins.

Hún dvaldist hér nokkur sumur við störf og sótti þá söngtíma hjá Kristni Hallssyni en það var hennar fyrsta söngnám. Síðar átti hún eftir að mennta sig frekar í sönglistinni í Utrecht en hún er mezzó-sópran, Viktoria sótti m.a. einkatíma hjá Carlo Bino og nam hjá honum Bel canto-söngstílinn, hún giftist síðan söngkennara sínum en varð snemma ekkja.

Viktoria varð nokkuð þekkt söngkona í Hollandi og gaf út sína fyrstu plötu, Viktoria Spans zingt muzikale hartewensen, árið 1970 en sú plata var síðar endurútgefin undir titlinum Wensen van vele mensen. Önnur plata kom út með henni og bar heitið Viktoria Spans zingt en engar upplýsingar er að finna um útgáfuár þeirrar plötu. Viktoria söng fjölbreytta tónlist allt frá þjóðlögum og einsöngslögum til aría, ýmist sem einsöngvari með kórum eða sjálfstætt á tónleikum sem hún hélt í Hollandi en einnig víða um lönd, m.a. í Bandaríkjunum og Kanada, hún starfaði mest í lausamennsku og sjálfstætt og var t.d. aldrei fastráðin við óperur.

Á áttunda áratug síðustu aldar

Hún kom margoft hingað til lands á áttunda og níunda áratugnum og meðal annars til að vinna sjónvarpsþátt um Ísland en hún starfaði nokkuð við þáttagerð í útvarpi og sjónvarpi í Hollandi, þar vann hún t.d. útvarpsþætti um íslenska tónlist í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar 1974.

Hér á landi kom Viktoria í nokkur skipti fram í útvarpi og sjónvarpi og í einni heimsókn hennar (líklega 1978) var tekin upp plata með henni og hún gefin út árið 1980 undir titlinum Íslenzk lög gömul og ný / Icelandic songs old and new, hjá SG-hljómplötum. Sú plata mun einnig hafa komið út í Hollandi en hún hafði að geyma íslenska tónlist, þjóðlög og einsöngslög. Ári síðar, 1981 kom út plata með henni í Hollandi, Romantische melodien, en ekki liggja fyrir upplýsingar um fleiri útgefnar plötur hennar.

Viktoria Spans fór í tónleikaferðalag um landsbyggðina ásamt gítarleikaranum Símoni H. Ívarssyni sumarið 1986 og söng þá m.a. á nokkrum stöðum á Vestfjörðum þaðan sem hún átti ættir að rekja, en einnig víðar um landið. Síðan þá hefur hún líklega ekki haldið tónleika hérlendis en hún kemur enn reglulega til Íslands. Hún hefur hin síðari ár kennt söng í Utrecht.

Efni á plötum