Guðrún Á. Símonar (1924-88)

Guðrún Á. Símonar

Söngkonan Guðrún Á. Símonar var ein af skærustu söngkonum sinnar samtíðar og var dáð og dýrkuð af þjóðinni. Hún var í raun jafnvíg á dægurlaga- og óperusöng (telst klárlega vera fyrsta óperusöngkonan sem starfaði á Íslandi) og gaf út fjölda platna. Guðrún var stór karakter, hreinskiptin og tilfinningarík, ann köttum og var mikill dýravinur, það átti e.t.v. sinn þátt í að hún hvarf af sjónarsviðinu og varð ferill hennar nokkur endasleppur kannski einmitt vegna dýraverndunarsjónarmiða hennar og skaplyndis.

Guðrún Ágústa Símonardóttir fæddist í febrúar 1924 í Reykjavík. Hún var af söngkyni, dóttir Símonar í Hól (Símonar Þórðarsonar Johnsen) sem var kunnur söngvari í Reykjavík framan af tuttugustu öldinni, og Ágústu Pálsdóttur sem einnig var þekkt söngkona um það leyti. Fátt benti þó til framan af að Guðrún myndi helga sig sönglistinni, hún lærði að vísu eitthvað á píanó en söng t.a.m. aldrei í kórum sem barn og það var ekki fyrr en hálskirtlarnir voru teknir úr henni um sextán ára aldur sem hún hóf að syngja, hún hafði þó haft áhuga á tónlist og gleypt í sig stríðsáratónlistina. Það var móðir hennar sem kom henni í samband við Bjarna Böðvarsson (Bjarna Bö föður Ragnars Bjarnasonar) en hann starfrækti lengi hljómsveitir í eigin nafni. Bjarni tók hana til prufu og leist vel á og hóf hún að syngja með sveitinni vorið 1941 þá sautján ára gömul. Fljótlega eða sama haust söng Guðrún með sveitinni í útvarpinu og það átti hún eftir að gera í mörg skipti síðar, hún starfaði með Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar til ársins 1944 og söng þá mestmegnis dægurlög en það átti eftir að breytast þegar  hún kynntist klassíkinni, hún var því orðinn allþekkt söngkona í gegnum útvarpið fyrir tvítugs aldurinn.

Faðir Guðrúnar hafði látist þegar hún var aðeins tíu ára gömul en stjúpfaðir hennar átti eftir að styðja hana í einu og öllu og koma ferli hennar af stað. Hann átti sinn þátt í að hvetja hana og koma henni í söngnám, fyrst til Davinu Sigurðsson en svo til Sigurðar Birkis söngmálastjóra og þar kynntist hún klassískri tónlist s.s. óperutónlist sem hún fékk þegar áhuga á og söng síðan jafnt á við dægurlögin. Hana fýsti að komast í frekara söngnám erlendis og þau stjúpfeðginin efndu til tónleika vorið 1945 í Gamla bíó í því skyni að fjármagna nám hennar, þarna var nokkuð djarft teflt fyrir unga söngkonu með litla söngmenntun að baki en hins vegar nægt sjálfstraust. Er skemmst frá því að segja að uppselt var á tónleikana á um fjörutíu mínútum og Guðrún sló í gegn með söng sínum bæði hjá gagnrýnendum og almenningi, og þá skipti litlu hvort um óperuaríur eða einsöngs- og dægurlög var að ræða, Þórarinn Guðmundsson fiðluleikari, Fritz Weisshappel píanóleikari og Þórhallur Árnason sellóleikari léku með henni á tónleikunum sem þurfti að endurtaka og svo aftur, svo alls urðu tónleikarnir fimm talsins. Þessi tónleikaröð varð klárlega vendipunktur í lífi hennar og tekjurnar af þeim dugðu til að koma henni til London þar sem hún hugði á söngnám um haustið en um leið setti hún mikla pressu á sjálfa sig því fólk ætlaðist til mikils af henni í framtíðinni eftir þessa frammistöðu. Um sumarið söng hún einnig á nokkrum tónleikum með Karlakór Reykjavíkur í Fríkirkjunni og úti á landi við miklar vinsældir, og alls hafði hún sungið á fimmtán tónleikum og aflað sér því nokkurrar reynslu þegar haldið var til Englands.

Guðrún sautján ára gömul

Í London reyndi Guðrún fyrst fyrir sér í Royal academy of music en komst þar ekki inn þar sem hún hafði ekki grunn í nótnalestri en hún komst hins vegar inni í Guildhall school of music & drama eftir inntökupróf og var þar þrjú ár í námi, og svo síðan í tveggja ára framhaldsnámi við The opera school, á sama tíma sótti hún líka einkatíma í söng og nam tungumál samhliða því – m.a. ítölsku sem grunn fyrir óperusöng. Og þangað lá leið Guðrúnar síðan, til Ítalíu þar sem hún nam einnig og söng þá einhver óperuhlutverk þar í landi óperunnar, þar kom hún einnig fram í útvarpi. Guðrún var alkomin heim árið 1954 eftir níu ára útlegð.

Á námsárum sínum kom Guðrún reglulega heim til Íslands í fríum sínum og hélt þá stundum tónleika við góðar undirtektir, og var þá ljóst að hennar biði bjartur söngferill, þá strax gerðu fjölmiðlar henni góð skil þótt hún væri á þessum árum öllu hlédrægari í tilsvörum en síðar varð. Árið 1950 var hún t.a.m. hér heima og varð fyrst allra til að halda tónleika í Þjóðleikhúsinu en húsið hafði verið opnað skömmu áður, hún átti eftir að syngja margoft í því húsi og árið 1952 söng hún t.d. í óperettunni Leðurblökunni sem sett var á svið í Þjóðleikhúsinu. Það ár (eins og árið á undan reyndar einnig) skemmti hún víða ásamt Guðmundi Jónssyni á tónleikum á höfuðborgarsvæðinu og úti á landsbyggðinni en það áttu þau eftir að gera oft síðar einnig.

Árið 1952 hljóðritaði Guðrún fjögur lög ásamt Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar, tvö þeirra laga komu síðan út á plötu (Svörtu augun / Af rauðum vörum) sem Íslenzkir tónar gáfu út. Um sama leyti komu út á vegum sömu útgáfu tvö önnur lög (Svanasöngur á heiði / Dicitincello Vuio) þar sem Fritz Weisshappel lék með á píanó. Þetta voru tvær fyrstu plötur Guðrúnar Á. Símonar.

Guðrún var alkomin heim eftir nám snemma árs 1954 og um vorið hélt hún tónleika í Reykjavík og síðar einnig á Akureyri og víðar um land, þá fór hún ennfremur í tónleikaferð um Norðurlöndin og sló í gegn þar. Þetta ár komu út þrjár einsöngplötur í viðbót hjá Íslenzkum tónum með alls sex einsöngslögum við undirleik Fritz Weisshappel, þær plötur fengu allar ágætar viðtökur. Einhverjar fréttir birtust hér heima í blöðum þess tíma að plötuútgáfur á hinum Norðurlöndunum hefðu tryggt sér útgáfuréttinn á fyrstu tveimur plötunum en ekkert bendir til að þær plötur hafi nokkru sinni komið út þar, ein blaðafrétt segir þó að verslunin Drangey hefði undir höndum einhverjar plötur með Guðrúnu sem steyptar hefðu verið í Noregi og er ekki ólíklegt að þær hafi komið út þar í tengslum við tónleikaferð hennar um Norðurlöndin. Um haustið 1954 tóku við æfingar á óperunni Cavaleria rusticana sem var síðan frumsýnd um jólin í Þjóðleikhúsinu og gekk við miklar vinsældir fram á næsta ár.

Guðrún á sínum fyrstu tónleikum í Gamla bíói

Þótt ekki kæmu út neinar plötur með söng Guðrúnar árið 1955 var hún áberandi í íslensku sönglífi, hún söng í óperunni La boheme og fór í stóra tónleikaferð ásamt Guðmundi Jónssyni og hljómsveit á vegum Ríkisútvarpsins en farið var víðs vegar um landsbyggðina og ferðast var ýmist á vegum eða á hafi. 1956 söng hún á nokkrum tónleikum með Karlakór Reykjavíkur en á þessum árum var samstarf hennar við þann kór og Guðmund Jónsson einna mest áberandi í íslensku tónlistarlífi, einnig kom þetta ár út tveggja laga plata þar sem Guðrún söng ásamt Katli Jenssyni og Þjóðleikhúskórnum. Þá fór Guðrún til London að beiðni og frumkvæði Haraldar Ólafssonar í Fálkanum, og tók þar upp sex dægurlög (flest erlend lög en við íslenska texta Egils Bjarnasonar) við undirleik hljómsveitar Johnny Gregory, tuttugu og fimm manna stórsveitar með fagmennsku fram í fingurgóma en útsetningarnar voru unnar í samstarfi við Guðrúnu. Í þessari Englands-reisu kom Guðrún fram bæði í útvarpi og sjónvarpi.

Plöturnar þrjár komu út á vegum Fálkans árið 1957 og voru síðustu 78 snúninga plöturnar sem Guðrún söng inn á, svo vel þótti til takast að ákveðið var að þær yrðu gefnar út í stóru upplagi og voru plöturnar þrjár kynntar á blaðamannafundi á vegum Fálkans. Þá var um tilkynnt að fjögur laganna kæmu út á hæggengri plötu sem þá var kallað, eða 45 snúninga plötu sem þá voru nýjar af nálinni og voru að taka við af 78 snúninga plötunum. Sú fjögurra laga plata var gefin út fyrir alþjóðamarkað, innihélt áprentað umslag (sem 78 snúninga plöturnar höfðu ekki haft) þar sem fram komu upplýsingar á íslensku og ensku. 78 snúninga plöturnar þrjár urðu metsöluplötur, þær komu á markað í lok nóvember 1957 og fyrir jól höfðu selst upp tvö upplög af þeim. Fyrr það sama ár hafði komið út fjögurra laga plata á vegum Íslenzkra tóna með tónlist úr óperettunni Í álögum þar sem þau Guðrún, Guðmundur Jónsson, Magnús Jónsson og Þuríður Pálsdóttir sungu ásamt kór en Victor Urbancic stjórnaði hljómsveit. Sú plata var reyndar misheppnuð, upplagið hafði verið gerð fyrir rangan hraða og var því gallað og þegar nýtt „lagað“ upplag kom til landsins hljómaði það heldur ekki nógu vel.

Annars var árið 1957 afar viðburðaríkt hjá Guðrúnu, stóri viðburðurinn var söngferðalag hennar um Sovétríkin sem farin var um vorið en sex borgir voru heimsóttar og sungið á um fimmtán tónleikum við frábærar undirtektir víðast hvar, öll dagblöðin voru með nánast daglega með hástemmdar lýsingar og fréttir frá söngför hennar nema Morgunblaðið sem þagði þunnu hljóði að mestu. Um haustið kom Guðrún heim eftir að hafa þá dvalist í London eftir Sovét-ferðina og þá hófust æfingar og síðan sýningar á óperunni Tosca þar sem hún söng aðalhlutverk ásamt Stefáni Íslandi en þau tvö fóru einnig í stutta tónleikaferð um landsbyggðina.

En Guðrún hafði fleiri járn í eldinum, ráðgert var söngferðalag til Bandaríkjanna og Kanada á árinu 1958 og í kjölfar þeirrar ferðar átti lífið eftir að taka U-beygju, tónleikaferðin varð þriggja mánaða túr þar sem hún söng víða um ríkin, m.a. fyrir Vestur-Íslendinga og við það tækifæri var hún gerð að heiðursborgara í Winnipeg. Hún kom þá jafnframt fram í útvarpi og sjónvarpi víða á ferðum sínum og svo fór að hún ílentist vestra eftir tónleikaförina og settist þá að í New York, kynntist þar Íslendingi sem hún síðan giftist árið 1960. Ein plata kom út með henni árið 1959, hún bar nafnið Mánaskin (kom út á vegum Íslenzkra tóna) og innihélt fjögur lög sem áður höfðu komið út á 78 snúninga plötum. Þetta var síðasta plata sem kom með henni um árabil en engar plötur komu út með söngkonunni meðan hún bjó og starfaði í New York.

Guðrún Á. Símonar

Segja má að lífið hafi tekið miklum stakkaskiptum hjá Guðrúnu, fyrst um sinn hélt hún víða tónleika á búsetuárum sínum vestra en smám saman dró hún sig í hlé, eignaðist son og helgaði sig barnauppeldi um tíma. Hún átti jafnframt í einhverjum veikindum og söng því lítið sem ekkert, árið 1961 mun henni hafa boðist að fara aftur til Sovétríkjanna (og Kína og Japan í leiðinni) í tónleikaferð en af þeim áformum varð ekki. Guðrún hafði alltaf verið kattavinur en á Ameríku-árum hennar tók hún það upp á næsta stig, hún heillaðist af Síamsköttum og hóf að rækta þá auk þess sem hún sýndi þá á kattasýningum og vann til fjölda verðlauna, sá áhugi átti eftir að setja mark sitt á líf hennar síðar meir.

Á næstu árum heyrðist lítið frá söngkonunni, hún kom stöku sinnum heim til Íslands og söng þá eitthvað lítið opinberlega en það var svo um miðjan sjöunda áratuginn sem hún var alkomin heim, einstæð móðir en hún hafði þá skilið við eiginmann sinn. Frá og með þeim tímapunkti má segja að síðari hluti söngferils hennar hafi hafist en hún hafði þá ekki sungið að neinu marki í um fimm ár.

Það tók sinn tíma að komast á fyrri stall eftir svo langt hlé og hún fór fremur hægt í sakirnar, söng eitthvað opinberlega, á skemmtunum, kosningafundum og blönduðum samkomum en tíðarandinn og heimurinn hafði breyst töluvert síðan 1958. Guðrún hafði reyndar sjálf breytst töluvert eftir skilnaðinn og búsetuna í Bandaríkjunum, hún var orðin mun ákveðnari í fasi og hreinskiptari en áður, kom hreint fram og lá ekki á skoðunum sínum. Hún þótti á köflum stórbrotinn og litríkur karakter og það var einkennandi á þessu síðara skeiði hennar að hún varð ekki síður eftirsótt sem skemmtikraftur sem kom fólki í stuð heldur en söngkona, og skemmti t.d. oft ásamt Ómari Ragnarssyni, Karli Einarssyni eftirhermu o.fl.

Guðrún hóf að kenna söng við Söngskólann í Reykjavík og nutu margir söngvarar leiðsagnar hennar í þeim efnum en í kennslu sinni lagði hún alltaf áherslu á rétta öndun, þess má til gamans geta að Bubbi Morthens sótti hjá henni söngtíma um skeið og lýsir því í bókinni Bubbi (sem Silja Aðalsteinsdóttir skráði) með þessum orðum: „…lét hún mig leggjast á gólfið, skipaði mér að anda ört, fór svo og sótti risastórt lampaútvarp, rogaðist með það til mín, demb[d]i því ofan á magann á mér og þrýsti sjálf ofan á það! Hún var nú ekki létt hún Guðrún. Svo skipaði hún mér að anda.“

Guðmundur Jónsson og Guðrún Á. Símonar

Þótt Guðrún væri komin af stað aftur í söngnum létu stóru sigrarnir standa á sér og hún hlaut t.d. ekki tækifæri í óperuhlutverkum, hún (og fleiri) gagnrýndi Guðlaug Rósinkranz Þjóðleikhússtjóra harðlega þegar hann réði eiginkonu sína í aðalhlutverk óperunnar Brúðkaups Fígarós sem frumsýnd var í Þjóðleikhúsinu um jólin 1969 og fannst framhjá sér gengið, Guðlaugur svaraði því með því að bjóða henni ekki á frumsýningu óperunnar. Blaðamaður Alþýðublaðsins sá sér hins vegar leik á borði og bauð Guðrúnu annan af tveim boðsmiðum sem hann hafði fengið gegn því að hún gerðist gagnrýnandi blaðsins eina kvöldstund og ritaði um sýninguna, hún  tók hann á orðinu og mun leikhússtjóranum hafa verið brugðið þegar hann sá hana á besta stað í húsinu á frumsýningunni. Guðrún ritaði harðorða gagnrýni í Alþýðublaðið í kjölfarið þar sem niðurlagið var með eftirfarandi hætti: „Ég hef eflaust dæmt sjálfa mig til dauða í Þjóðleikhúsinu með þessum skrifum mínum, en eins og ég sagði áðan. „Af hverju á maður að vera hræddur“?“, og blaðið seldist í bílförmum fyrir vikið. Guðrúnu og Guðlaugi var síðan boðið að ræða málin í sjónvarpsþættinum Setið fyrir svörum sem Eiður Guðnason stjórnaði og segir sagan að hún hafi farið hamförum í þættinum, sjálf sagði hún síðar í bók sinni, Eins og ég er klædd (sem kom út 1973 og var skráð af Gunnari M. Magnúss) að þáttastjórnandinn hefði ekki leyft sér að komast að og Þjóðleikhússtjórinn hefði náð að kæfa umræðuna með innihaldslitlu hjali. Gagnýnendaferill Guðrúnar á Alþýðublaðinu varð ekki lengri (enda hafði það aldrei staðið til) en oft mátti þó lesa aðsendar greinar og lesendabréf frá söngkonunni í dagblöðum landsins, um hin ýmsu málefni.

En sem söngkona lét Guðrún smám saman meira á sér kræla á nýjan leik og árið 1970 söng hún m.a. einsöng á tónleikum með Karlakór Reykjavíkur og kom einnig fram á Listahátíð í Reykjavík sem haldin var í fyrsta skipti þá um sumarið, þá var hún meðal leikenda í Herför Hannibals sem Leikfélag Reykjavíkur setti á svið í Iðnó. Nokkur ár í röð söng Guðrún ásamt nokkrum öðrum söngvurum á tónleikum í kringum páskahátíðina undir nafninu Syngjandi páskar.

Guðrún söng inn á plötu í fyrsta skipti í ríflega áratug þegar Karlakór Reykjavíkur gaf út plötu með tónlist Sigvalda Kaldalóns, árið 1971. Platan kom út á vegum SG-hljómplatna og ári síðar kom breiðskífa út með Guðrúnu sjálfri, einnig hjá Svavari Gests, undir titlinum Fjórtán sönglög eftir fjórtán íslenzk tónskáld. Það var jafnframt hennar fyrsta breiðskífa en platan var hljóðrituð í Ríkisútvarpinu og annaðist Guðrún A. Kristinsdóttir undirleik með söngkonunni. Það sama ár, 1972 kom einnig út lítil plata, Alfaðir ræður þar sem Guðrún söng og Pétur Eggerz flutti ljóð við undirleik Ragnars Björnssonar, upptökur fóru einnig fram í Ríkisútvarpinu en Fálkinn gaf þá plötu út.

Guðrún stjórnar fjöldasöng á kvennafrídaginn haustið 1975

Boltinn var þarna aftur farinn að rúlla hjá Guðrúnu sönglega séð en hún átti í vandræðum í einkalífinu, hún var orðin töluvert þekkt sem kattakonan og urðu þau mæðgin nokkuð fyrir aðkasti frá nágrönnum og öðrum, einkum af yngri kynslóðinni sem nýtti hvert tækifæri til að ónáða með rúðubrotum, íkveikjum o.fl. Kvað svo rammt að á tímabili að lögreglan þurfti að hafa afskipti af, sjálfsagt hefur skaplyndi söngkonunnar eitthvað haft með þessa óknytti að gera en hún gæti hafa legið vel við höggi. Frægt er einnig dæmi þar sem Guðrún var að skemmta á Þjóðhátíð í Eyjum þar sem ókurteis ungmenni reyndu stöðugt að trufla söng hennar, einhverjir vildu reyndar meina að þar væru á ferð hluti þeirra unglinga sem bjuggu í nágrenni hennar í Hlíðunum.

Haustið 1973 kom út áðurnefnd bók Gunnars M. Magnúss, Eins og ég er klædd, og um svipað leyti leit platan Skaup ´73 dagsins ljós en það var í grunninn skemmtiplata með Karli Einarssyni eftirhermu og Hrafni Pálssyni þar sem Guðrún söng lagið Ápres toi og vakti mikla lukku. Guðrún hafði lítið fengist við óperusöng eftir að heim var komið frá Bandaríkjunum en árið 1974 fékk hún loks tækifæri á sviði Þjóðleikhússins er hún söng hlutverk Freyju í óperunni Þrymskviðu eftir Jón Ásgeirsson, það varð hennar síðasta óperuhlutverk þótt hún syngi aríur á tónleikum annars.

Guðrún hafði sem fyrr segir skoðanir og þegar leitað var til hennar af forsvarskonum kvennabaráttudagsins haustið 1975 til að leiða fjöldasöng tók hún áskoruninni og leysti verkefnið með glans, stjórnaði tuttugu og fimm þúsund kvenna kór á Lækjartorgi. Þetta sama haust kom út jólaplata með þeim Guðrúnu og Guðmundi Jónssyni á vegum SG-hljómplatna og sló hún í gegn en á henni sungu þau tólf létt erlend jólalög við texta Ólafs Gauks Þórhallssonar og Jóhönnu G. Erlingsson, platan hefur oft verið endurútgefin og m.a. á geislaplötu. Annars söng hún heilmikið opinberlega um þetta leyti og m.a. sungu þær Guðrún og Þuríður Pálsdóttir hinn fræga Kattadúett í fyrsta skipti á sviði árið 1975.

En Guðrún var kattakona og þeir áttu svo til hug hennar allan, svo jafnvel söngurinn þurfti stundum að víkja. Hún var reyndar talsmaður dýraverndunarsjónarmiða almennt og barðist jafnframt gegn hvers kyns dýraníði, hún var ein þeirra sem stofnuðu Kattavinafélagið 1976, var í stjórn félagsins um tíma og hún stóð einnig fyrir fyrstu kattasýningu sem haldin var hér á landi.

Guðrún ásamt einum af fjölmörgum köttum sínum

Árið 1979 átti Guðrún Á. Símonar fjörutíu ára söngafmæli og var hún af því tilefni heiðursgestur á tónleikum í Háskólabíói undir nafninu Óperugleði. Þá hélt hún sjálf 40 ára söngafmælishátíð á sama stað fyrir fullu húsi og voru þeir tónleikar sem báru yfirskriftina „Kvöldskemmtun með Guðrúnu Á. og co. í léttum dúr og moll“ endurteknir en alls urðu tónleikarnir fimm talsins – alltaf fullt. Guðrún opnaði tónleikana með laginu My own en það var fyrsta lagið sem hún hafði sungið opinberlega. Þessir tónleikar voru hljóðritaðir, klipptir til og gefnir út um haustið undir titlinum 40 ára söngafmælistónleikar, SG-hljómplötur gáfu út. Árið 1981 kom síðan út tvöföld safnplata á vegum Svavars Gests, Endurminningar úr óperum, þar sem þær vinkonur, Guðrún og Þuríður Pálsdóttir sungu en um var að ræða upptökur frá Ríkisútvarpinu frá árunum 1950-70. Um það leyti hlaut hún hina íslensku fálkaorðu sem viðurkenningarvott fyrir framlag sitt til íslensks lista- og menningarlífs.

Guðrún hafði sungið nokkuð jafnt og þétt á tónleikum og við annars konar tækifæri s.s. brúðkaup, jarðarfarir og fleira en eftir 1980 fór heldur að draga úr því hjá henni, hún var þá orðin nokkuð heilsuveil, hafði t.d. sykursýki og væntanlega hefur samneytið við kettina ekki hjálpað til gegn veikindum. Ekki bætti heldur úr skák að hún bjó við slæman aðbúnað, var á hrakhólum með húsnæði fyrir sig og ketti sína því fáir vildu leigja henni íbúðarhúsnæði með allan kattafjöldann en mest hafði hún milli fjörutíu og fimmtíu ketti á heimilinu, auk tveggja hunda. Henni var því útvegað heldur óhrjálegt húsnæði sem hélt varla vatni og vindum í Blesugrófinni og síðar á Hverfisgötunni sem ekki var mikið skárra, það var því fremur illa komið fyrir söngdívunni á þessum tíma og ekki bætti þunglyndi vegna ástandsins úr skák. Hún kenndi þó lengi við Söngskólann þótt heilsan leyfði það varla en smám hætti hún að syngja, hætti að fara út og lokaði sig af. Guðrún lést síðan fáeinum dögum eftir sextíu og fjögurra ára afmælið í febrúar 1988.

Söngferli Guðrúnar Á. Símonar má skipta í tvennt, fyrir og eftir Ameríkudvöl hennar. Hún átti stjúpföður sínum nokkuð að þakka upphafið en sönghæfileikar hennar, sópranrödd og persónutöfrar áttu sinn þátt í að skapa henni frægð og frama sem náði hámarki ýmist í óperuhlutverkum hennar og dægurlagasöng á plötum. Eftir Ameríkudvölina kom á sjónarsviðið annars konar díva, rödd hennar orðin mezzosópran og verkefnin öðruvísi fyrir vikið, sterkur og litríkur karakter varð þeim meira áberandi og sjaldan var lognmolla í kringum hana, flestir í dag þekkja líklega best jólalögin sem hún söng með Guðmundi Jónssyni frá 1975.

Guðrún áritar plötu

Árið 2003 kom út vegleg safnplata á vegum Íslenskra tóna, á þeirri plötu voru tuttugu og tvö lög og óperuaríur frá ýmsum tímum (bæði áður útgefið og óútgefið), valið af Ludvig Kára Forberg (syni hennar) og Jónatani Garðarssyni, platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu. Síðan þá hefur ekki þótt ástæða til að gefa út annað safn með söng Guðrúnar en sjálfsagt ætti slík þriggja eða fjögurra platna útgáfa fullan rétt á sér, til að heiðra með viðeigandi hætti minningu þessarar fyrstu óperusöngkonu sem starfaði á Íslandi. Víst er að nóg er til af efninu í fórum Ríkisútvarpsins.

Lög Guðrún má heyra á ýmsum öðrum plötum en snerta feril hennar sjálfrar, hún söng t.a.m. á plötunni Í birkilaut, sem hafði að geyma úrval laga eftir Ísólf Pálsson (1979), og á plötum Karlakórs Reykjavíkur – Karlakór Reykjavíkur syngur lög Sigvalda Kaldalóns (1971), Úrvals kórlög (1981) og Hraustir menn (1999). Þá má nefna ferilssafnplötur Guðmundar Jónssonar – Hljóðritanir frá fyrri árum (1990), Þuríðar Pálsdóttur – Minningabrot (2007) og Ólafs Vignis Albertssonar – Söngveisla (2017) og einnig almennar safnplötur eins og Íslenskar söngperlur (1991), Óskastundin-serían (2002 og 2005), SG-hljómplötur (2014), Svona var það-serían (2005), Söngvar frá Íslandi 1 og 2 (1960), Stelpurnar okkar (1994), Einsöngsperlur (1978) og Gullöld íslenzkra söngvara (1962). Þá eru ónefndur fjöldi jólasafnplatna s.s. 100 íslensk jólalög fyrir alla fjölskylduna (2006), Hvít jól (1985), Jólaljós (1982), Gott um jólin (2004), Jólakveðja (2005), Jólasnjór (1979), Manstu gamla daga: jólalögin (2009) o.fl.

Það er kannski við hæfi að enda umfjöllun um Guðrúnu Á. Símonar með tilsvari sem lýsir henni kannski ágætlega. Hún var einhverju sinni spurð að því hvað yrði til skemmtunar á ákveðinni skemmtun sem var framundan, hún svaraði stutt og laggott: Ég verð þar, er það ekki nóg?

Efni á plötum