Vilhjálmur Guðjónsson [2] (1953-)

Vilhjálmur Guðjónsson

Vilhjálmur Guðjónsson er einn af þeim þúsundþjalasmiðum þegar kemur að íslenskri tónlist en hann leikur á fjölda hljóðfæra, kennir tónlist, útsetur, semur, tekur upp og kemur í stuttu máli sagt að öllum þeim þáttum sem viðkemur tónlistarflutningi.

Vilhjálmur Hreinn Guðjónsson fæddist árið 1953 og var um fermingu þegar hann hóf að leika með hljómsveitum. Sú fyrsta var líkast til hljómsveitin Check mate árið 1967 þar sem hann lék á gítar en svo kom Gröfin sem síðar gekk undir nafninu Friður og enn síðar Gaddavír en með þeirri sveit vakti Vilhjálmur fyrst athygli. Hann hafði stutta viðveru í Roof tops áður en fremur lítt þekktar sveitir á borð við Moldrok, Bláber og Frostmark urðu til en síðar komu Galdrakarlar til sögunnar árið 1976.

Með þeirri sveit varð lýðnum ljóst hversu fjölhæfur tónlistarmaður Vilhjálmur var en nánast öll hljóðfæri eru sem leikur í höndum hans, gítar, saxófónn, harmonikka, klarinetta, trompet og bassi en auk þess er hann liðtækur söngvari og söng m.a.  um tíma með Silfurkórnum.

Galdrakarlar störfuðu í nokkur ár en samhliða þeirri sveit lék Vilhjálmur með nokkrum hliðarsveitum hennar um skamman tíma s.s. Tríói Vilhjálms Guðjónssonar, Adolf og Blue sky in the morning. Síðar lék hann með sveitum eins og Gleðigjöfunum, BSG, Nippunum, Cadillac, KOS, Hókus & Pókus, Partí, Hitaveitunni, Villa og dvergunum 7, Skuggasveinunum, Óperubandinu og hljómsveit í eigin nafni, og sjálfsagt er fjöldi annarra sveita ótalinn hér.

Ýmis önnur hliðarverkefni fóru nú að poppa upp vegna hæfileika hans og fjölhæfni, hann hóf að kenna tónmennt við Hagaskóla og stjórna kór skólans en einnig stjórnaði hann kór Menntaskólans við Sund um tíma, þá fór hann einnig að kenna við tónlistarskóla FÍH þar sem hann varð síðar yfirkennari djassdeildarinnar þar. Þá lék hann með ýmsum hljómsveitum sem urðu til innan skólans og m.a. með Big band ´81 sem síðar varð að Big bandi Björns R. Einarssonar. Vilhjálmur lék um tíma með Ljósunum í bænum og einnig kom hann í auknum mæli að sjónvarpi og útvarpi, stjórnaði t.d. hljómsveit sem lék í grínþáttunum Úllen dúllen doff en það efni kom að hluta til út á plötu. Hann sá einnig um tónlistina í gamanþáttum í sjónvarpinu sem báru nafnið Fastir liðir eins og venjulega, og nutu mikilla vinsælda.

Vilhjálmur Guðjónsson

Leikhús og kvikmyndir urðu einnig starfsvettvangur Vilhjálms, á svokölluðu vori kvikmyndagerðar á Íslandi í kringum 1980 kom hann m.a. að tónlistinni í kvikmyndinni Punktur punktur komma strik og barnaleikritinu um Gosa en tónlistin úr báðum þeim verkefnum kom út á plötum, síðar hefur hann komið að tónlist við kvikmyndir eins og Ikíngut, Djöflaeyjuna og fleiri myndir auk auglýsinga í útvarpi og sjónvarpi.

Leitað hefur verið til hans með hvers kyns tónlistarstjórnun og útsetningar í kabarett- og tónlistarsýningum á Broadway og víðar, tengt hljómsveitum og tónlistarfólki eins og Shadows, Abba, Rolling stones, Geirmundi Valtýssyni o.fl., einnig s.s. í tengslum við minningartónleika t.d. John Lennon og Vilhjálm Vilhjálmsson, skemmti- og söngafmæli tónlistarfólks eins og Björgvins Halldórssonar, Ladda og Þuríðar Sigurðardóttur, og svo mætti lengi telja. Þá má nefna sýningar í kringum Halla og Ladda, Gríniðjuna og fleira, sem báru nöfn eins og Söguspaug, Laddi og fjelagar o.fl. Oft var Magnús Kjartansson í samstarfi með honum á þessum sýningum með hljómsveit sína og lék Vilhjálmur lengi með honum á Hótel Sögu og fleiri stöðum. Sú sveit sem gekk um tíma undir nafninu Bræðrabandalagið kom oft fram í sjónvarpi sem og sveit sem Vilhjálmur stjórnaði sjálfur og lék í þáttum Hermanns Gunnarssonar, Á tali með Hemma Gunn. Vilhjálmur hefur einnig starfað við tónlistarhluta Áramótaskaupsins, undankeppni Eurovision keppninnar við útsetningar, dómnefndarstörf, hljómsveitarstjórnun og margt annað. Hann hefur aukinheldur unnið með Brúðubílnum við samningu, útsetningar og flutning tónlistar, sem og Fjörkálfunum og Ómari Ragnarssyni svo fleiri nöfn séu upptalin.

Vilhjálmur ásamt Geir Haarde og Árna Johnsen við plötuupptökur

Um miðjan níunda áratuginn var útvarpshljómsveitin endurreist og gekk hún iðulega undir nafninu Léttsveit Ríkisútvarpsins eða Stórsveit Ríkisútvarpsins. Vilhjálmur starfaði með þeirri sveit frá byrjun og varð síðan stjórnandi hennar en sveitin lék bæði innan veggja útvarpsins og á tónleikum utan þess. Hann lék einnig með Íslensku hljómsveitinni sem starfaði í á annan áratug, og flutti sú sveit tónverk eftir Vilhjálm á tónleikum sem báru yfirskriftina Sveiflur. Þá lék hann á fjölda annarra tónleika þar sem tónlist eftir hann hefur verið flutt, bæði í djassgeiranum og annars staðar. Mörg lög eftir hann hafa komið út á plötum.

Á þessum tíma og allt fram á okkar daga hefur Vilhjálmur verið tíður gestur á plötum annarra listamanna og hefur þá leikið á ýmis hljóðfæri á plötum t.d. Bjarna Ara, Árna Johnsen, Sigríðar Beinteinsdóttur, Magnúsar Þórs Sigmundssonar, Ingva Þórs Kormákssonar, Rúnars Júl., Geir Ólafssonar, HLH-flokksins, Hljómsveitar Birgis Gunnlaugssonar, Sléttuúlfanna, Hljómsveitar Guðjóns Matthíassonar, Jóhanns Helgasonar, Hallbjarnar Hjartarsonar, Kristjáns Hreinssonar, Harðar Torfa, Björgvins Halldórssonar og ógrynni annarra, þá hefur hann oft annast jafnframt útsetningar, upptökustjórn og tengda vinnu við margar þeirra.

Af þessari upptalningu má sjá brot af því sem Vilhjálmur Guðjónsson hefur starfað við í íslensku tónlistarlífi og víst er að þessi fjölhæfi listamaður er hvergi nærri hættur.

Efni á plötum