Vilhjálmur Guðjónsson [1] (1917-77)

Vilhjálmur Guðjónsson

Vilhjálmur Guðjónsson klarinettu- og saxófónleikari var einn af frumkvöðlum dægurlaga- og djasstónlistar á Íslandi, hann lék með fjölda hljómsveita á sínum ferli og m.a. með Sinfóníuhljómsveit frá stofnun hennar og til andláts, starfaði við tónlistarkennslu og -útbreiðslu auk þess að vinna að félagsmálum tónlistarmanna innan FÍH.

Vilhjálmur fæddist í Vík í Mýrdal haustið 1917 en fluttist ungur með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur. Það var ljóst strax þegar hann var á barnsaldri að hann var músíkalskur og lærði hann á píanó á aldrinum 7-10 ára. Hann var tíu ára farinn að leika með hljómsveit barnastúkunnar Æskunnar og um svipað leyti lék hann einnig með Hljómsveit Poul Bernburg (eldri) á Hótel Íslandi, það var árið 1928.

Þegar Vilhjálmur fermdist fékk hann saxófón í fermingargjöf og fór þá strax um vorið (1931) til Hamborgar í Þýskalandi og lærði þar í fjóra mánuði á hljóðfærið, hann var þá á fjórtánda ári. Næstu tvo vetur lék hann á saxófóninn í tríói sem lék á Hótel Birninum í Hafnarfirði og veturna þar á eftir, 1933-34 og 1934-35, lék Vilhjálmur með Hljómsveit Aage Lorange í Iðnó. Árið 1934 hafði Vilhjálmur komist í kynni við Þjóðverja sem hingað kom og sá kenndi honum á klarinett, sem upp frá því varð aðal hljóðfæri hans. Næstu árin þar á eftir lék hann með hljómsveitum á Hótel Borg, og einnig með Danshljómsveit FÍH, sem síðar varð að Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar.

Árið 1938, þegar Vilhjálmur var rétt rúmlega tvítugur en þó með nokkurra ára reynslu í spilamennsku, fóru þeir Sveinn Ólafsson til Danmerkur í nokkra mánuði til að kynna sér tónlistarlífið í Kaupmannahöfn, þar lék hann með hljómsveit Anker Poulsen í nokkrar vikur. Þegar heim var komið tóku ýmsar sveitir við en margar þeirra störfuðu á Borginni. Heimsstyrjöldin síðari skall á og Vilhjálmur tók að leika með Hljómsveit Jack Quinet og síðan Þóris Jónssonar sem tók við þeirri sveit, en einnig lék hann með Útvarpshljómsveitinni sem og Lúðrasveit Reykjavíkur.

Vilhjálmur með klarinettuna

Við lok styrjaldar fór Vilhjálmur vestur um haf og dvaldist í Chicago um átta mánaða skeið til að nema þar klarinettuleik, þar komst hann í kynni við lifandi djasstónlist á klúbbunum og heyrði þar og sá marga af meisturum djasstónlistarinnar leika. Hann varð því fyrstur Íslendinga til að nema klarinettuleik erlendis og þegar hann kom aftur heim í nóvember 1945 miðlaði hann þeirri reynslu víða, bæði með djassspilamennsku sem og kennslu en hann hóf þá að kenna við Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem hann átti eftir að starfa ævina á enda.

Eftir stríð lék Vilhjálmur með ýmsum hljómsveitum, hann lék áfram með Hljómsveit Þóris Jónssonar á Hótel Borg en síðar tók við Hljómsveit Baldurs Kristjánssonar í Tjarnarcafé, KK-sextett á Röðli um skamman tíma og Hljómsveit Björns R. Einarssonar. Þá lék hann með Hljómsveit Carls Billich í plötuupptökum og hugsanlega einnig á dansleikjum, sem og með sveitum sínum oft í útvarpssal. Vilhjálmur var jafnfram eftirsóttur til spilamennsku í jam-sessionum og hvers kyns djassuppákomum. Hann hafði leikið með Útvarpshljómsveitinni, sem einnig var svo nefnd Sinfóníuhljómsveit Ríkisútvarpsins og var einn undanfara Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem tók formlega til starfa 1950. Með sinfóníunni starfaði hann til æviloka.

Á sjötta áratugnum lék Vilhjálmur með fjölda sveita sem áður, hann lék t.a.m. með Hljómsveit Jan Morávek í Tívolíinu í Vatnsmýrinni, og með Hljómsveit Björns R. Einarssonar á nýjan leik en með þeirri sveit fór hann í tónleikaferðir út á landsbyggðina sumrin 1951 og 51, þá lék hann um tíma með Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar á nýjan leik.

Þarna voru réttindamál tónlistarmanna í umræðunni og Vilhjálmur fór ekki varhluta af því, hann tók heilmikinn þátt í þeirri baráttu og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir FÍH, hann var í stjórn félagsins um tíma og var gjaldkeri þess auk þess að kenna við tónlistarskóla FÍH. Auk þess var hann í ritstjórn tímaritsins Tónlistarblaðsins sem kom út á vegum félagsins.

Vilhjálmur Guðjónsson

Vilhjálmur hafði ærið nóg að gera, hann sinnti tónlistarkennslu og spilamennsku með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Lúðrasveit Reykjavíkur en auk þess var alltaf nógu að sinna í dansleikjaspilamennsku, á sjötta áratugnum bættust við sveitir eins og Hljómsveit Árna Ísleifs, Hljómsveit Þorsteins Eiríkssonar, Hljómsveit Magnúsar Randrup og Hljómsveit Jónasar Dagbjartssonar en um miðjan áratuginn hafði áhuginn fyrir spilamennsku á borð við þá sem ofangreindar hljómsveitir inntu af hendi minnkað, og átti bítlatónlistin sjálfsagt mesta sök á því. Hljómsveit Jónasar Dagbjartssonar var t.d. starfandi í lok áratugarins og var stíluð á eldri kynslóðirnar.

Vilhjálmur var á þessum árum einnig farinn að kenna tónlist við tónlistarskólann í Keflavík og kom að stofnun Skólahljómsveitar Kópavogs þar sem hann kenndi einnig, hann sinnti þá einnig orðið annars konar hliðum tónlistarinnar s.s. leikhústónlist en hann lék við Þjóðleikhúsið um tíma með sveit undir stjórn Jóns Sigurðssonar. Ekki má heldur gleyma að hann lék oft einleik á tónleikum með sinfóníu- og lúðrasveitinni sem og í öðrum tilfallandi verkefnum s.s. með Stórsveit FÍH o.fl., hann kom við sögu í útvarps- og plötuupptökum og lék m.a. á plötum systkinanna Ellyjar og Vilhjálms Vilhjálmssonar, Spilverks þjóðanna, Ólafs Þórðarsonar og Skagakvartettsins svo nokkur dæmi séu nefnd. Þess má geta að síðasta upptökuverkefnið sem hann tók að sér var að leika sólókaflann í Braggablús Magnúsar Eiríkssonar á annarri Mannakornaplötunni Í gegnum tíðina sem kom út haustið 1977 en Vilhjálmur lést um svipað leyti þá rétt tæplega sextugur að aldri eftir nokkur veikindi.

Þar með var fallinn frá merkur tónlistarmaður sem af mörgum er talinn einn allra fyrsti djassleikarinn á Íslandi. Hann telst án nokkurs vafa meðal bestu blásara íslenskrar tónlistarsögu og miðlaði ennfremur þekkingu sinni til margra tónlistarmanna sem nutu kennslu hans en meðal þeirra má nefna Gunnar Egilson, Kristján Kristjánsson (KK), Óskar Ingólfsson og Kjartan Óskarsson.