Júníus Meyvant gefur út Floating harmonies

Júníus Meyvant - Floating harmoniesLangþráð fyrsta breiðskífa tónlistarmannsins Unnars Gísla Sigmundssonar eða Júníusar Meyvant lítur dagsins ljós föstudaginn 8. júlí næstkomandi. Þetta hefur verið löng og erfið fæðing allt frá því að upptökur hófust á fyrstu smáskífu plötunnar, „Color Decay“ í byrjun árs 2014 en útkoman er biðarinnar virði.

Júníus kom, sá og sigraði á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2014 og fór frá athöfninni með tvenn verðlaun. Annars vegar sem Bjartasta vonin og hins vegar verðlaun fyrir besta lag ársins. Á verðlaunahátíðinni fyrir árið 2015 hlaut hann tilnefningar, annars vegar fyrir besta lag ársins og hins vegar sem besti karlkyns söngvarinn.

Árið 2015 leit fyrsta þröngskífa Júníusar dagsins ljós og eftir langa bið. Skífan heitir einfaldlega EP og sagði Gaffa, virtasta tónlistartímarit Danmerkur, hana vera gríðarlega melódíska og einstaklega hjartnæma hlustunar. Gaffa gaf skífunni 5 stjörnur af 6 mögulegum.

Útgáfu breiðskífunnar, sem gefin er út af Record records, verður fagnað með tónleikum í Háskólabíó 27. ágúst og er miðasalan á tónleikana hafin nú þegar. Breiðskífan heitir Floating Harmonies eins og áður hefur komið fram en það er einnig óopinbert heiti grunnhljómsveitar Júníusar. Einvala lið strengja- og blástursleikara verða með á útgáfutónleikunum til að skila lögunum í þeirri stóru mynd sem heyra má á plötunni.

Júníus Meyvant eru búinn að vera iðinn við spilamennsku undanfarna mánuði og verður ekkert lát á henni næstu mánuði. Nýafstaðnir eru tónleikar á Hróaskeldu sem heppnuðust einstaklega vel.

Á undan Júníusi Meyvant spilar vonarstjarnan Axel Flóvent ásamt hljómsveit. Axel hefur verið að gera góða hluti undanfarið.

Miðasala er hafin á Tix.is og er miðaverð 4990 krónur.