Júníus Meyvant gefur út stuttskífu

Júníus Meyvant - EPVestmannaeyingurinn Unnar Gísli Sigurmundsson stimplaði sig rækilega inn á íslenska tónlistarlandakortið þegar hann gaf út smáskífuna „Color Decay“ vorið 2014. Unnar Gísla þekkja margir landsmenn undir listamannsnafninu Júníus Meyvant. Það er óhætt að segja að þegar Júníus steig fram á sjónarsviðið hafi hann komið til vits og ára og augljóst að tónlist hans hafi fengið að dafna og þroskast í langan tíma.

Nú hefur Júníus Meyvant lokið við vinnslu sinnar fyrstu þröngskífu og kallast hún einfaldlega EP. Þröngskífuna vann hann víða með upptökumönnunum Magnúsi Øder Kristinssyni og Finni Hákonarsyni. Auk „Color Decay“ inniheldur EP þrjú önnur lög, þ.m.t. nýjustu smáskífuna „Hailslide“.

Tónlist Júníusar er mynduglegt og tilfinningaríkt þjóðlagapopp sem er í senn tímalaust og kunnuglegt. Júníus er ekki hefðbundið söngvaskáld því víða glittir í allskyns stíla, t.a.m. gospel og sálartónlist eins og hún var rétt eftir miðbik síðustu aldar. Hjartnæmar lagaútsetningar hans láta mann á köflum líða eins og maður sé staddur undir þykku ullarteppi við arineld í kofa hátt uppi í fjöllum með dagdrauma um funheita sandströnd á fjarlægum slóðum.

Árið 2014 var gott ár fyrir Júníus Meyvant. „Color Decay“ naut mikilla vinsælda meðal hlustenda Rásar 2 og sömuleiðis var lagið valið lag ársins af dagskrárstjóra KEXP, Kevin Cole. Júníus kom, sá og sigraði á Íslensku tónlistarverðlaununum í ár og fór frá athöfninni með tvenn verðlaun. Annars vegar sem bjartasta vonin og hinsvegar verðlaun fyrir besta lag ársins.

Record Records gefur út og er þröngskífan fáanleg á geisladisk, vínyl og á stafrænum netveitum.
Útgáfudagur er föstudagurinn 17. júlí.