Rokk og ról

Nykur – Nykur II
Gustuk GCD 005, 2016
fjórar stjörnur

Nykur - Nykur II

Hljómsveitin Nykur gaf nýverið út sína aðra plötu en sveitin er skipuð ólíkum reynsluboltum úr hinum fjölbreytilegustu skúmaskotum rokksins, þarna eru fremstir í flokki lagahöfundarnir Guðmundur Sálverji Jónsson gítarleikari og Davíð Þór Hlinason söngvari og gítarleikari en sá hefur löngum verið kenndur við sveitir eins og Dos Pilas og Buttercup, Guðmundur semur jafnframt textana. Aðrir meðlimir Nykurs eru Kristján B. Heiðarsson trymbill, sem hefur barið húðir með mun þyngri sveitum s.s. Changer og Dark harvest, og Jón Svanur Sveinsson bassaleikari (Númer núll, Newshit o.fl.). Ég held að það sé ekki á neinn hallað í bandinu þó ég nefni að Guðmundur sé orðinn einn af fimm afkastamestu lagahöfundum íslenskrar popp- og rokksögu en útgefin lög hans (og textar) telja líkast til vel á annað hundrað og því er dýrmætt fyrir sveitina að hafa mann með slíka reynslu innanborðs.

Fyrri plata sveitarinnar (Nykur) sem kom út fyrir þremur árum var prýðileg áheyrnar og hafði að geyma tvö til þrjú mjög sterk lög að mínu mati en nýja platan sem heitir einfaldalega Nykur II er öllu jafnari og varla hægt að segja eitt lag standa upp úr.

Reyndar þurfti töluvert margar hlustanir til að fanga athyglina og gæðin, það vantar reyndar alls engin gæði í hljóðfæraleikinn, hann er alls staðar fyrirtaks sem og söngur Davíðs en hann sprettur nú fram sem fullþroska rokksöngvari eftir að hafa svo oft staðið í skugga annarra. Tónlistin er hreint og klárt gamaldags rokk úr ýmsum áttum, þarna má heyra gítarvísanir héðan og þaðan úr rokksögunni, allt frá Hendrix (Í úthafi eilífðar) til Rammstein (Sjáið sólina þjást) og því er ekki verið að finna upp nein hjól – sem er vel því svona á rokk að hljóma, raddaðir gítarfrasar, fyrirferðamikil sóló og auðmeltar melódíur sem þó eru ekki of grípandi í byrjun, mér finnst ég jafnvel heyra óminn af Drýsli svo enn eitt dæmið sé hér nefnt. Allar söngraddanir eru enn fremur eftir bókinni. Sígilt, tímalaust og fullkomlega heiðarlegt rokk.

Erfiðara er að negla niður eitthvert konsept eða rauðan þráð í textunum, um hálfgerð heimsósómaljóð með áherslur á tímalaust vopnaskak, orrustur og stríð er að ræða og dauðinn er hvarvetna nálægur, en án þess þó að hægt sé að staðsetja hörmungarnar, grísk og norræn goðafræði, kristin fræði – öllu ægir saman í einhverri póstmódernískri nálgun og svo þegar nafni sveitarinnar sem oftast er tengt við þjóðtrú og -sagnir er bætt við er flóran orðin ansi fjölbreytileg.

Textarnir eru yfir meðallagi, Guðmundur hefur vaxið sem textaskáld og það er ánægjulegt að hægt sé að semja texta án þess að blanda þurfi hold- eða andlegri ást af hinu kyninu inn í málið, hitt er að viðfangsefnið er óvenju dökkt á plötunni og í framhaldi af því er rétt að nefna flott plötuumslagið sem er fullkomlega í anda innihaldsins, Ólöf Erla Einarsdóttir á heiðurinn af því. Svo finnst mér alltaf að ég verði að nefna það sérstaklega þegar hægt er að lesa textana af textablaðinu án þess að þurfa að rýna í þá með erfiðismunum eða vonleysi.

En sem fyrr segir er Nykur II jöfn að gæðum, hún er mun þyngri en fyrri platan en vinnur á við hverja hlustun og það er líka heilmikil stígandi í henni, þannig er síðari hluti plötunnar betri að mínu mati og nær í raun hámarki í þremur síðustu lögunum. Niðurstaðan er því að gamla góða rokkið og rólið lifir enn ágætu lífi.