Þórarinn Jónsson (1900-74)

Tónskáldið við píanóið

Þórarinn Jónsson er e.t.v. ekki meðal allra þekktustu tónskálda hér á landi en ástæðan fyrir því er væntanlega að hann starfaði lungann úr starfsævi sinni í Þýskalandi, og skóp sér þar nafn sem og í Bandaríkjunum. Þórarin má telja meðal fyrstu tónskálda Íslendinga.

Þórarinn fæddist aldamótaárið 1900 í Mjóafirði og framan af var fátt sem benti til að hann myndi feta stigu tónlistarinnar. Hann hóf ungur að stunda sjómennsku en hann var aðeins tólf ára gamall þegar hann fór á sjóinn, fyrst á heimaslóðum en síðan í Vestmannaeyjum.

Þórarinn hafði þó byrjað snemma að gera tilraunir til að semja tónlist og hafði samið sitt fyrsta heila lag fjórtán ára gamall. Hann hafði þá haft aðgang að orgeli og þegar hann eignaðist fiðlu sextán ára gamall virðast hafa orðið straumhvörf í tónlistinni hjá honum, sagan segir að hann hafi gjarnan æft sig á hljóðfærið utan dyra.

Þórarinn hafði verið á sjó í áratug þegar hann fór að læra tónlist 23 ára gamall, fyrst hjá Þórarni Guðmundssyni fiðluleikara en síðan Páli Ísólfssyni og Ernst Schacht. Það var síðan árið 1924 sem hann hleypti heimdraganum og flutti til Þýskalands til frekari náms í tónlistarfræðum, fyrst í stað bjó hann í Braunschweig en síðan í Berlín.

Í Þýskalandi nam hann og síðan starfaði í ríflega aldarfjórðung, þar kenndi hann tónlist og tónfræði auk þess að semja tónverk af ýmsu tagi. Þórarinn fékkst einkum við einkakennslu og þó að nemendur hans hafi flestir verið þýskir kenndi hann einnig Íslendingum, þeirra á meðal má nefna dr. Gunnar Thoroddsen, síðar forsætisráðherra.

Þórarinn kom heim til Íslands í stuttan tíma til að vinna að undirbúningi fyrir Alþingishátíðina sem ráðgert var þá að halda 1930 í tilefni af þúsund ára afmæli alþingis, þá samdi hann eitt sitt þekktasta kóralag, Ár vas alda, sem hann vann að einhverju leyti upp úr þjóðlagaarfinum en ljóðið er fengið úr Völuspá. Karlakórinn Fóstbræður tóku verkið fyrir löngu upp á arma sína (og reyndar fleiri karlakórar) og gerði að hálfgerðum einkennissöng sínum, og t.a.m. ber ein plata kórsins nafn verksins.

Þýskalandsárin, einkum fjórði áratugurinn, voru án nokkurs vafa hápunkturinn á tónskáldaferli Þórarins, verk hans voru víða flutt á tónleikum þar í landi og varð hann nokkuð þekkt nafn í Þýskalandi. Hann komst m.a. í úrslit í keppni um tónverk sem haldin var í tengslum við Ólympíuleikana í Berlín 1936, þar var um að ræða sönglag fyrir kór og hljómsveit. Mörg laga Þórarins eru karlakóralög eins og fyrrgreint Ár vas alda en einnig má nefna lög eins og Kveðja (Ég heilsa þér Ísland), Úr Lákakvæði og Huldur, ennfremur einsöngslög eins og Fjólan (Heiðbláa fjólan mín fríða), Ave María, Nótt,  Norður við heimskaut, Pastorale og Vögguvísa. Ennfremur má nefna fiðlutónverkið „Prelúdía og tvöföld fúga um nafnið Bach“ en það var einleiksverk fyrir fiðlu án undirleiks, það hefur verið flutt á tónleikum víða um heim. Þórarinn samdi aukinheldur ýmis verk fyrir strengjakvartetta og orgel, kirkjuleg tónlist liggur einnig eftir hann, mótettur, sónötur og sálmalög.

Þórarinn Jónsson

Því miður hefur ekki allt varðveist eftir Þórarin en mikið af tónverkum hans glataðist í Þýskalandi á stríðsárunum og verður það tjón aldrei metið til fulls. Þar í landi voru fjölmörg verka hans flutt á tónleikum við ýmis tækifæri, einkum meðan hann bjó og starfaði sjálfur í landinu. Einnig náði tónlist hans töluverðri útbreiðslu í Bandaríkjunum.

Þegar Þórarinn fluttist aftur heim til Íslands 1950 hóf hann að kenna tónfræði við Söngskóla Þjóðkirkjunnar, hann varð ennfremur organisti Óháða Fríkirkjusafnaðarins í Reykjavík og skrifaði einnig tónlistargagnrýni í Alþýðublaðið. Hann hætti að mestu að semja tónlist á sjöunda áratugnum og sneri sér þá í auknum mæli að öðrum áhugamálum, stjörnu- og stærðfræði.

Þórarinn vann nokkuð að félags- og réttindamálum tónlistarmanna, hann starfaði t.a.m. fyrir STEF í um tvo áratugi og var um tíma í stjórn félagsins, var í Tónskáldafélagi Íslands og var kjörinn heiðursfélagi þess 1961, og var einn af stofnendum Bandalags íslenskra listamanna. Hann hlaut riddarakross fyrir störf sín í þágu tónlistarinnar.

Lög Þórarins má finna á ótal plötum, nokkrar 78 snúninga plötur komu út með lögum hans sungin af Elsu Sigfúss, Einari Kristjánssyni, Einari Markan, Guðrúnu Á. Símonar o.fl. en einnig hefur tónlistarfólk á borð við Guðnýju Guðmundsdóttur, Magnús Jónsson og Öldu Ingibergsdóttur flutt tónlist hans á plötum sínum. Þá kom út tvöföld safnplata með lögum hans á vegum Smekkleysu árið 2004 en þá voru liðnir þrír áratugir frá andláti hans, platan hét Þórarinn Jónsson tónskáld: 1900 – 1974 Heildarútgáfa einsöngslaga og karlakórverka, og á henni fluttu Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú), Garðar Thór Cortes, Bergþór Pálsson, Ingveldur Ýr Jónsdóttir, Ólafur Kjartan Sigurðarson og Karlakórinn Fóstbræður tónlist hans.

Þórarinn lést 1974.

Efni á plötum